Staða samkynhneigðs fólks

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 10:57:00 (7948)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Fyrir rúmu ári síðan var samþykkt hér á Alþingi svohljóðandi þáltill.:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Nefndin skal skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka samkynhneigðs fólks. Skal nefndin kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu þess og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.``
    Þetta var samþykkt þann 19. maí 1992 og þegar fór að líða á veturinn skildist mér að lítið hefði orðið úr skipan þessarar nefndar. Ég hafði samband við forsrn. um áramót og þá hafði í rauninni ekkert gerst, það er kannski ekki rétt að segja ekkert því það var búið að tilnefna í nefndina en það vantaði formann og virtist eitthvað ganga illa að koma þessu afkvæmi Alþingis á koppinn ef svo má segja.
    Nú ekki veit ég hvort seinvirkni er um að kenna eða hreinlega því sem mér datt nú kannski frekar í hug, ákveðnum tepruskap. En ég hef ekkert heyrt um það enn þá hvernig þetta mál stendur og því spyr ég á þskj. 967:
    1. Hverjir eiga sæti í þeirri nefnd sem samþykkt var á síðasta löggjafarþingi að fela ríkisstjórninni að skipa til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi?
    2. Hvað líður störfum nefndarinnar?