Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 10:57:28 (2601)

1996-02-01 10:57:28# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[10:57]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að tilefni þeirra orða sem hér hafa fallið frá mér og ýmsum öðrum þingmönnum hafi verið deilurnar í Langholtssókn. Ég tók það sérstaklega fram að svo er ekki. Hins vegar tók ég fram að deilur eins og þær í Langholtssókn virtust nú fara vaxandi á milli presta og söfnuða. Deilan í Langholtssókn er aðeins eitt dæmi þar um þótt hún hafi verið mest áberandi í fjölmiðlum. Ég vísa í því sambandi til viðtals við Gunnlaug Finnsson kirkjuráðsmann. Því miður hef ég það blaðaviðtal ekki við höndina en þar lýsti hann því yfir að slíkar deilur, þar sem ágreiningur er á milli prests og safnaða, hafi komið upp í mörgum sóknum og fari vaxandi.

Ég tel að í ljósi slíkra ummæla og þeirrar vitneskju sem þingmenn hafa, bæði úr kjördæmum sínum og annars staðar frá, sé mjög eðlilegt að það komi til umræðu og skoðunar hvort ekki sé rétt að treysta tengsl safnaðanna og prestsins með því að söfnuðurnir hafi meiri áhrif en þeir hafa í dag á ráðningu presta. Ég tek fram, herra forseti, að ég var ekki að boða tillöguflutning í þessu efni. Hins vegar mun ég beita mér fyrir því í allshn. að mál þessi verði skoðuð sérstaklega. Eftir allar þær umræður sem orðið hafa og þau mörgu dæmi sem við höfum um slíka stöðu, sem komið hefur upp á tiltölulega skömmum tíma, held ég að kirkjunnar mönnum ætti ekki að koma á óvart þótt margir þeirra alþingismanna sem hér hafa tekið til máls láti í ljós slíkar skoðanir. Við lítum þessi mál alvarlegum augum og teljum að það hljóti að koma til skoðunar hvort ekki sé hægt að gera breytingar á ríkjandi fyrirkomulagi til þess a.m.k. að koma í veg fyrir það sem Gunnlaugur Finnsson sagði að væri orðið vandamál innan kirkjunnar, þ.e. að slíkar deilur virðast fara vaxandi og mjög víða er að skapast gjá á milli presta og safnaða.

[11:00]

Presturinn á að vera andlegur leiðtogi safnaðarins. Það segir sig sjálft að hann getur ekki sinnt því hlutverki ef söfnuðurinn er ekki sáttur við handleiðslu hans og ef um er að ræða miklar deilur á milli safnaðarins sem hann á að stýra og prestsins. Ég vona síðan að kirkjunni takist að leysa þessi deilumál. En það breytir ekki því að það hefur komið skýrt fram á Alþingi af þeim sem hér hafa talað að alþingismenn vilja láta skoða hvort ekki sé tímabært, rétt og eðlilegt að gera þá breytingu að söfnuðir hafi meiri áhrif en þeir hafa nú á ráðningu presta, þar á meðal til hversu langs tíma þeir skuli ráðnir. Það þjónar ekki góðum tilgangi að með valdboði sé söfnuði settur prestur sem hann hefur ekki áhuga á að fá til þjónustu. Ég held að það væri að kasta tólfunum ef skipulagið byði upp á að kirkjustjórnin gæti sett söfnuði prest sem mikill meiri hluti safnaðarbarna sættir sig ekki við.