Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:19:10 (3659)

1996-03-06 19:19:10# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæt svör við þeim ábendingum og spurningum sem voru bornar fram til hans í ræðum mínum og reyndar annarra þingmanna áðan. En það er spurningin um stjórn yfir stofnun sem mér er hugleikin. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að hafa stjórnir yfir ríkisstofnunum, einkum og sér í lagi stofnunum sem fara með eftirlitshlutverk. Það gerir þessi nýja stofnun sem nú er lagt til að verði sett á laggir. Þess vegna tel ég þetta misráðið. Ég hjó eftir því, herra forseti, að hv. þm. var mér í rauninni efnislega sammála. Hann segir hins vegar að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að móta stefnu um þetta, ekki einungis gagnvart þessari tilteknu ríkisstofnun heldur öllum ríkisstofnunum. Það kann að vera svo, herra forseti. En ég velti því fyrir mér og spyr hv. þm.: Hvar á sú umræða að fara fram? Hvers vegna ekki að taka hana einmitt þegar föng eru til, þegar einstakar stofnanir koma til skjala þingsins eins og þessi nýja stofnun gerir núna?

Það er nokkuð til í því sem hv. þm. sagði að það kynni að vera að viðkomandi stofnun yrði sjálfstæðari. En er það nokkuð verra? Sjálfstæðar ríkisstofnanir, eru þær nokkuð af hinu slæma? Ég held ekki. Það er svo að ég er reyndar líka þeirrar skoðunar, þó að mér hafi láðst að geta þess í mínu máli áðan, að ég tel að það eigi að vera pólitísk stýring á þessum stofnunum að því leytinu til að seta stjórnarmanna ætti að fylgja ráðherrum. Þegar ráðherrar koma og fara þá ættu lögin að gera ráð fyrir því að nýir stjórnarmenn verði skipaðir. Þannig kemst til áhrifa sú pólitíska stefna sem kjósendur í raun hafa valið með því að fleyta viðkomandi ráðherra inn í ríkisstjórn.