Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:40:05 (3667)

1996-03-06 19:40:05# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé að okkur hv. formann samgn. greini ekki mikið á í almennum sjónarmiðum að þessu leyti. Ég vil eingöngu bæta því hér við að þó ég telji að samræming í þessum efnum sé nauðsynleg þá er ég ekki eindregið þeirrar skoðunar að það ástand eigi að vera til frambúðar að þörf sé á stjórnum yfir allar stofnanir ríkisins. En það er háð því að þannig sé frá málum ráðuneytanna gengið starfsmannalega séð að þau hafi starfsmenn sem séu færir um að sinna viðkomandi stofnunum sem tengiliðir við æðsta ákvörðunarvald. Á það skortir mjög verulega. Við höfum fylgt þeirri stefnu hér að halda í og það stundum um of, við starfslið ráðuneyta þannig að þau eru engan vegin í stakk búin að sinna sínum lögboðnu verkefnum. Á þetta hef ég oft bent. En ég veit að þetta eru sjónarmið sem ekki eiga alltaf upp á pallborðið. Hitt er mjög algengt að reynt sé að kreista ráðuneytin fast og heimta sparnað og að þar séu sem fæstir að störfum. Þarna þarf að haga málum út frá efni en ekki út frá einhverjum öðrum sjónarmiðum. Í þessu efni þyrfti að breyta til því það er þó nokkuð um það að stofnanir séu nánast lausgangandi í allt of litlum tengslum við viðkomandi ráðuneyti.