Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:03:39 (5211)

1996-04-23 22:03:39# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að reyna að nálgast þessi mál með nýjum hætti eins og hv. þm. tók fram og af hálfu utanrrn. er fullur vilji til þess að vinna með Alþingi að þessum málum. Við höfum leitast við að reyna að koma á framfæri flestu því sem við erum að gera við utanrmn. og það er engin launung á því. Við erum lítil þjóð í stóru landi og höfum mikilla hagsmuna að gæta og að sjálfsögðu þurfum við að stilla saman strengina í utanríkismálum. Það er mjög mikilvægt að þingmenn almennt séu áhugasamir um þessi mál og skynja mikilvægi þeirra vegna framtíðar þjóðarinnar. Það er afar þýðingarmikið og það verður væntanlega til þess að þjóðin í heild sinni skilur smátt og smátt betur hvað utanríkismál skipta miklu máli.

Ég varð var við það fyrr í vetur þegar ræddar voru skýrslur þingmannanefnda um hin ýmsu utanríkismál. Það var ekki gert ráð fyrir því að utanrrh. væri viðstaddur þá umræðu. Ég var hins vegar viðstaddur þá umræðu vegna þess að ég taldi það skyldu mína að fylgjast með og hlusta á skýrslur þessara merku nefnda. Við getum aukið samstarf framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins á þessu sviði eins og hefur gerst meðal flestra þjóða en það þarf hins vegar að ræða það betur og fara yfir það en ég tek því fegins hendi ef hægt er að auka samstarfið með þeim hætti að allir flokkar og allir þingmenn geti verið bærilega sáttir við það.