Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 16:12:01 (1885)

1995-12-13 16:12:01# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[16:12]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur sem fagnaði þessum frv. Ég tel að sá partur af hennar ræðu, sem laut að því að það væri ýmislegt jákvætt við skrásetningargjöld í háskólum eða framhaldsskólum, þarfnist nánari útskýringar. Hv. þm. Svavar Gestsson talaði um vesaldóm Alþfl. á síðasta kjörtímabili sökum afstöðu flokksins til innritunargjalda. Ekki vil ég nú taka að öllu leyti undir með hv. þm. og minni hann á að það voru ekki allir sem tóku undir eða voru hluti af þeim stóra hópi stjórnarliða sem greiddi atkvæði með innritunargjöldum við háskóla. Ég bendi honum á að sá sem hér stendur greiddi atkvæði gegn því, ég held einn þingmanna Alþfl. Ég bendi honum líka á að hæstv. menntmrh., þáv. hv. þm., Björn Bjarnason fór fyrir þeim flokki þingmanna sjálfstæðismanna sem vildi líka koma á skrásetningargjöldum við framhaldsskóla. Það tókst fyrir atbeina Alþfl. að hnekkja því. Þar var um að ræða, ef ég man rétt, 140 millj. kr. álögur sem áttu að koma á fólk undir tvítugu árlega. Það var beinlínis fyrir atbeina Alþfl. að því var hnekkt.

Ég tel það slæmt að þetta frv. kemur fram. Ég er á móti því að innritunargjöld séu tekin við skóla af þessum toga. Ég er líka þeirrar skoðunar eins og hv. þm. Svavar Gestsson að gjöldin sem tekin eru og fara beinlínis til rekstrar framhaldsskóla styðjist ekki við lög. Ég held að það sé alveg ljóst að löggjöfin um framhaldsskólana kveði skýrt á um það að ríkið, hið opinbera, eigi að greiða rekstrarkostnaðinn en það eru fjölmörg dæmi um það í einstökum skólum, að hluti af skrásetningargjöldunum fer beinlínis til rekstrar skólanna. Og segi ég það, og ég tek undir með hv. þm. Svavari Gestssyni, að þetta er mál sem þarf að skoða. Það kemur hins vegar ekki á óvart að hæstv. menntmrh. kemur með þetta. Hann skýtur sér að vísu á bak við það að þetta sé nauðsynlegt í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis. Að hverju laut álit umboðsmanns Alþingis? Niðurstaða álitsins hneig að því að þarna væri um að ræða gjaldtöku sem ekki styddist við lög. Er þá ekki einfaldasta leiðin, hæstv. menntmrh., að hætta einfaldlega við að innheimta þetta gjald? Ég hefði talið það.

[16:15]

En hæstv. menntmrh. má eiga það að hann er einn þeirra manna sem hafa skýra stefnu á skólamálum. Hann er þeirrar skoðunar og hefur margsinnis komið fram að það beri að auka innritunargjöld og nota þau í ríkari mæli til að standa straum að rekstri skólakerfisins. Hann er líka einn af fáum sem hafa þorað að standa upp og segjast vera fylgjandi því að einkaskólar verði í ríkari mæli teknir upp. Ég held að þetta mál, þó saklaust sé, beri að skoða talsvert að nokkru leyti í tengslum við það. Ég held nefnilega að þó það sé kannski ekki tímabært á þessu stigi að taka umræðu um einkaskóla og innritunargjöld, þá held ég að fyrr en síðar sé það nauðsynlegt vegna þess að stefnan sem hefur gengið fram frá ríkisstjórninni og þá fyrst og fremst af munni hæstv. menntmrh. lýtur að því að á næstu árum megi búast við því að einkaskólum verði gert hærra undir höfði en áður og að innritunargjöld verði ríkari þáttur í rekstri skólanna. Þarna er um að ræða prinsipp-umræðu sem þarf að fara fram. Einkaskólar eru ekki að öllu leyti slæmir. Það eru ákveðnar tegundir einkaskóla sem er vel þess virði að skoða. Ég vil líka í framhjáhlaupi geta þess að ég tel ekki út í hött að nota innritunargjöld í einstökum tilvikum, ég nefni sem dæmi öldungadeildir og annað því um líkt. Ég tel að þar komi til greina að nota innritunargjöld að hluta til að standa straum af kostnaðinum.

Að öðru leyti vildi ég segja það að hæstv. menntmrh. hefur að vísu ekki til þessa lagt fram sína stefnu mótaða um það hvernig hann sér þennan hluta menntakerfisins, sem ég kalla einkaskóla, þróast. En maður hefur í vaxandi mæli séð vísi að þeirri stefnu, síðast í merku erindi sem hæstv. ráðherra flutti á ráðstefnu um nýskipan í ríkisrekstri. Og ég tel að innritunargjöld verði að skoðast í því ljósi. Ég held sem sagt að við munum á þessu kjörtímabili sjá aukna viðleitni frá ríkisstjórninni til að lyfta undir einkaskóla til þess að gera innritunargjöld að snarari þætti í rekstri framhaldsskólakerfisins alls. Þess vegna held ég að það sé tímabært að menn taki þessa umræðu og þá hér í þessum sölum þó ég ætli ekki tiltölulega lítt undirbúinn að hefja þá umræðu nú. En ég vil nefna þetta í þessu samhengi.

Annað vil ég nefna af því að ég hef gaman af sögulegri íróníu og hæstv. menntmrh. er einn af þeim sem fylgja þeirri hugmyndafræði sem birtist m.a. glögglega í málflutningi þess félags sem hann tilheyrði á háskólaárum sínum, Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, sem árum saman barðist fyrir því að menn þyrftu ekki að taka þátt í starfsemi stúdentaráðs Háskóla Íslands og þyrftu þar af leiðandi ekki að greiða því gjald. Núna er það hæstv. menntmrh. sem fer í kringum þetta. Hann gat þess hér í sinni ræðu að samkvæmt nýsamþykktum stjórnsýslulögum þyrftu menn ekki að vera aðilar að félagsskap eins og stúdentaráði Háskóla Íslands en þá kemur hann hér með frv. og fylgiskjal með frv. er samningur við stúdentaráð Háskóla Íslands sem gerir það í raun svo að sérhver námsmaður við Háskóla Íslands er samt sem áður knúinn til þess að greiða þetta gjald sem félagar hans í Vöku mótmæltu áður og hann kannski líka á sínum háskólaárum.

En mig langar til að varpa fram tveimur spurningum til hæstv. menntmrh. Ég held að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hafi drepið á þá fyrri. Hvernig er þetta gjald, 24 þús. kr., ákveðið? Hver er hækkunin frá síðasta ári? Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra og bið forláts á því að ég náði ekki að fylgja allri hans ræðu, kom of seint og veit ekki hvort hann gerði grein fyrir afstöðu stúdentaráðs Háskóla Íslands, en mig langar til að spyrja hann: Hefur þetta mál verið borið undir stúdentaráð Háskóla Íslands og ber að skilja fylgiskjal I með frv. svo að stúdentaráð Háskóla Íslands sé búið að leggja blessun sína yfir þetta fyrirkomulag og þar með í rauninni orðinn þátttakandi í þessum innritunargjöldum sem ráðið hefur áður mótmælt?