1997-04-16 00:17:31# 121. lþ. 102.18 fundur 423. mál: #A afmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[24:17]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 727 flyt ég till. til þál. um afmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands en fyrri flm. er hv. þm. Svanhildur Kaaber. Tillagan er á þessa leið:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa sérstaklega afmælisár Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2000 er hljómsveitin verður 50 ára.``

Í tillögunni er í sjálfu sér ekki tekin afstaða til þess hvernig að þessu verði staðið og mætti hugsa sér að ráðuneytið færi fram á það við sveitina að hún undirbúi þessa hluti sérstaklega. Það væri kannski að mörgu leyti eðlilegt, en þá yrði hún jafnframt að sækja eftir einhverjum fjármunum á árinu 1998--1999 til að undirbúa afmælið. Í greinargerð tillögunnar segir svo, með leyfi forseta:

Aldamótaárið, 2000, verður Sinfóníuhljómsveit Íslands 50 ára. Sinfóníuhljómsveitin skipar nú viðurkenndan sess í þjóðlífinu; engum dettur lengur í hug að taka á vanda ríkissjóðs með því t.d. að flytja á Alþingi beinar tillögur um að skera niður fjármagn til hljómsveitarinnar þannig að þar fækki hljóðfæraleikurum eða hljómleikum eins og forðum kom stundum fyrir. Þó hefur hinn hljóðláti niðurskurður því miður unnið á fjárhag hljómsveitarinnar þannig að á síðustu tveimur árum hefur framlag til sveitarinnar lækkað. Íslensk stjórnvöld hafa engu að síður sýnt um árabil að þau telja hljómsveitina betri fulltrúa Íslands en flest annað á erlendum vettvangi. Má nefna mörg dæmi því til sönnunar. Því gefst sannarlega viðeigandi og kjörið tækifæri árið 2000, þegar hljómsveitin verður 50 ára, til þess að efla hana að marki með beinum stjórnvaldsákvörðunum. Vissulega duga þær þó skammt því að mestu skiptir hæfni hljómsveitarinnar, innri samstarfsandi og menningarlegur styrkur hennar.

Í þessari tillögu er ekki átt við það sem hljómsveitin sjálf hlýtur að gera fyrir þjóðina alla á afmælisárinu; eins og venjulega er gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að hljómsveitin skili sínu og vel það. Má segja að í þeirri afstöðu felist ávísun á venjulegt vanþakklæti í garð hljómsveitarinnar; það er þó vissulega ekki ætlunin. Hér er gerð tillaga um að gefa þjóðinni kost á að þakka fyrir sig á afmælisárinu. Þó er ekki um að ræða margrómað hús sem ekki er til og er vissulega frægasta húsleysi á Íslandi fyrr og síðar, og er þá sannarlega langt til jafnað í þessu húslausa landi. Verður það mál rætt annars staðar, en hljómleikahús verður að rísa og það mun rísa á þeirri stundu þegar menningarlegur metnaður og fjárhagsleg geta hittast til frjórra samfunda. Flutningsmenn spá því að svo verði fyrr en varir og munu ganga eftir því máli sérstaklega á Alþingi.

Aðaltilgangur tillögunnar er að vekja jákvæðar umræður um málefni hljómsveitarinnar á Alþingi og að opna fyrir hugmyndir sem kunna að leynast með þingmönnum til eflingar hljómsveitinni. Hér verður aðeins vikið að sjálfsögðum hlutum eins og þeim að í tilefni afmælisins verði gerð áætlun um eflingu hljómsveitarinnar þannig að hljóðfæraleikarar verði 80 talsins eða svo á aldamótaárinu, en þeir eru núna 72 talsins. Til þess að ná þessu marki þarf því að fjölga þeim um þrjá á ári fram að afmælinu. Þá má nefna að í tilefni afmælisins mætti gera ítarlega úttekt á hljómsveitinni og verkum hennar í samanburði við aðrar hljómsveitir og hyggja flutningsmenn að úttektin mundi sanna að afrek hljómsveitarinnar eru ótrúleg á alþjóðlegan mælikvarða. Ekki væri það síður vel til fundið að bera rekstrarkostnað hljómsveitarinnar saman við það sem annars staðar gerist með hliðstæðar hljómsveitir, en með ,,hliðstæðum hljómsveitum`` er átt við hljómsveitir sem jafnan eru valdar til að vera fremstar á stærstu þjóðhátíðum eða til að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum. Loks mætti hugsa sér að bera saman starfsaðstöðu sinfóníuhljómsveita, en vinnu- og æfingaaðstaða hljómsveitarinnar hér er hrakleg og heilsuspillandi. Mætti hugsa sér að vinnuaðstaðan yrði endurbætt strax að lokinni slíkri endurskoðun.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur unnið merkilegt starf að ekki sé meira sagt. Hún er dóttir Ríkisútvarpsins og hefur þróast við hlið þess á athyglisverðan hátt. Áhrif hennar sjást líka í tónlistarkennslunni á Íslandi hvort sem er í tónlistarskólum eða grunnskólum, að ekki sé minnst á ótal tónleika allan ársins hring og tugþúsundir áheyrenda. Miklu skiptir og að hljómsveitin hefur lagt áherslu á að rækta íslenska tónlist með flutningi nýrra verka og eldri verka úr íslenskri tónlistarsögu. Þá má benda á að hljómsveitin hefur reynt að koma skipulega til móts við mismunandi tónlistarsmekk landsmanna. Síðast en ekki síst verður hér nefnt mikilvægi þess að hljómsveitin hefur ferðast um landið víða og hefur þannig komið sér á framfæri við landsmenn alla. Má einnig minna á hljómleika fyrir skólanemendur, og margt fleira mætti nefna. Má nú heita svo að hljómsveitin sé orðin sameign þjóðarinnar allrar fremur en í upphafi er lagt var af stað.

Tónleikaferðir hljómsveitarinnar til útlanda hafa skipt hana sjálfa miklu máli. Tónleikaferðir eru öllum sinfóníuhljómsveitum mikilvægar, ekki síst hljómsveitum sem segja má að búi við landfræðilega einangrun. Í slíkum ferðum gefst oft tækifæri á að leika í bestu tónleikasölum heims og fá alþjóðlega umfjöllun og umsagnir ásamt því að fá góða kynningu þegar vel gengur. Þá er viðbúið að sjálfstraustið vaxi og staðreynd er, segja kunnugir, að ávallt kemur betri hljómsveit til baka en þegar lagt var af stað. Mætti hugsa sér að í tilefni afmælisins yrði tekin ákvörðun um fasta fjárveitingu til hljómleikaferða sem hljómsveitin færi með reglulegu millibili en fjármögnun þessara ferð hefur oft orðið sveitinni erfið.

Hljómsveitin hefur verið talin góður ,,sendiherra`` Íslands á alþjóðlegum vettvangi og hafa stjórnvöld jafnvel átt frumkvæði að hljómleikaferðum. Hér má nefna hljómleikaferðina til Bandaríkjanna í febrúar/mars 1996 þar sem hljómsveitin hlaut fádæma góða dóma. Þá má nefna til hljómleikaferð til Kaupmannahafnar 1996 og svo til Nuuk á þessu ári.

Sinfóníuhljómsveitin er ekki aðeins tónlist; hún er líka rekstur og fjármunir. Ríkisendurskoðun hefur staðfest hvað eftir annað að mikil hagræðing hefur náðst í öllum rekstri og sparnaður eftir því. Því miður hefur hljómsveitin ekki uppskorið fyrir sparnað og hagræðingu, en vel mætti hugsa sér að í tilefni afmælisins yrðu teknar nýjar heildarákvarðanir um fjárhag hljómsveitarinnar sem auðvelduðu fjárhagslegan rekstur hennar.

Ég legg svo til, herra forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. menntmn.