Tilraunaveiðar á ref og mink

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 16:35:01 (1113)

1997-11-11 16:35:01# 122. lþ. 22.15 fundur 95. mál: #A tilraunaveiðar á ref og mink# þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[16:35]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Flytjendur málsins ásamt mér eru hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson, Einar Oddur Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson og Kristinn H. Gunnarsson sem allir eru þingmenn Vestfirðinga en tillagan er á þskj. 95. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að heimila tímabundnar tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum.Náttúrustofa Vestfjarða hafi eftirlit með tilraunaveiðunum og gefi ráðherra skýrslu þar sem fram komi niðurstöður tilraunarinnar. Að tilraunatímabilinu loknu verði mat lagt á nauðsyn á framhaldi veiða á ref og mink á svæðinu.``

Þetta mál hefur fengið talsverða umræðu eftir að það var gert heyrinkunnugt og hefur vakið nokkur viðbrögð. Það verður að segjast eins og er að þau hafa að langflestu leyti verið á eina lund. Menn skynja auðvitað þá nauðsyn að gera breytingar á einfaldlega vegna þess að núverandi ástand er að leiða til mikillar röskunar í lífríkinu á Hornströndum og er farið að hafa veruleg áhrif á byggðarlögin í næsta nágrenni. Þess vegna er tillagan flutt til að tryggja að það nauðsynlega jafnvægi sem þarf að vera í lífríkinu skapist á ný og við getum aftur séð kvikna það fjölbreytilega dýralíf sem til staðar var á Hornströndum og menn hafa vitnað til sem þar þekkja til aðstæðna og hafa reynslu áratuganna til að bera saman.

Árið 1985 var ákveðið að friðlýsa svæðið norðvestan Skorarheiðar í Norður-Ísafjarðarsýslu. Með þeirri ákvörðun voru veiðar á ref og mink bannaðar á þessu svæði. Meðal reglna sem gilda um friðlandið er að hvers konar meðferð skotvopna er öllum bönnuð nema samkvæmt sérstakri heimild sýslumanns mánuðina júní til september og utan þess tíma einungis heimil landeigendum til hefðbundinna nytja.

Með þessari þáltill. er verið að leggja til að umhvrh. nýti rétt sem hann hefur til undanþágu frá settum reglum í friðlýsingu, enda liggja til þess mjög ríkar ástæður í þessu tilviki eins og raunar er gert ráð fyrir í undaþáguheimildinni sem ráðherra hefur.

Það er kannski tvennt sem þarf fyrst og fremst að velta fyrir sér í þessu sambandi. Það er annars vegar hvaða reglur og lög gilda um veiðar á ref og mink almennt í landinu og hins vegar hvaða skorður lög og ákvæði friðlýsingar í lögum um náttúruvernd setja mönnum varðandi veiðar í friðlandi eins og á Hornströndum.

Ef við skoðum fyrst fyrri spurninguna hvaða reglur gilda um veiðar á ref og mink, þá eru auðvitað ákvæði í hinum kunnu lögum um friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum frá árinu 1994 og síðan í reglugerðum tengdum þessum lögum sem eru settar á grundvelli þessara laga. Meginregla laganna er sú að refir séu friðaðir en minkar ekki. Ef við skoðum síðan sjálf lögin um náttúruvernd frá árinu 1996 og ákvæði friðlýsingar sem kveðið er á um í 28. gr. laganna, þá er einmitt fjallað um friðlýsingu landsvæða og ákvæði þeirra laga er svohljóðandi með leyfi virðulegs forseta:

,,Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðað í heild landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs, og nefnast þau landsvæði friðlönd. Má þar ekki raska náttúrufari né gera mannvirki sem spilla svip landsins. Í friðlýsingu skal nánar kveðið á um hversu víðtæk friðunin er, að hve miklu leyti framkvæmdir á landinu eru takmarkaðar umferð og umferðarrétt almennings og notkun veiðiréttar. Þá mega og fylgja friðlýsingu fyrirmæli um nauðsynlegar aðgerðir til þess að almenningur njóti svæðisins, svo sem um lagningu göngustíga, girðingar og þess háttar.

Friðlöndum má enginn, hvorki landeigendur, ábúendur né aðrir, raska að því leyti sem fyrirmæli friðlýsingarinnar taka til.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá settum fyrirmælum í friðlýsingu ef ástæður eru fyrir hendi.``

Það er þetta undanþáguákvæði sem hér er verið að vitna til. Einnig er rétt að vekja athygli á því sem fram kemur í fskj. með þessari þáltill. þ.e. auglýsing um friðland á Hornströndum sem birtist í Stjórnartíðindum nr. 332 13. ágúst 1985 og engin ástæða til að rekja hér efnislega að öðru leyti.

Ástæðan fyrir því að við hv. þingmenn tókum það til bragðs að flytja þessa þáltill. er sú að mjög hefur verið undan því kvartað hvernig málum er komið á þessu svæði. Eins og segir í greinargerð hefur athygli verið vakin á því að með því að veiðar á ref og mink eru ekki heimilaðar í friðlandinu á Hornströndum hafi orðið gríðarleg fjölgun á þeim tegundum. Ferðamenn og aðrir þeir sem eiga leið um svæðið hafa veitt því eftirtekt að mófuglar sjást þar tæplega og augljóst að þeir hafa orðið ref og mink að bráð. Skynsamleg veiði á þessum tegundum mundi því auðga lífríkið og söngur mófuglanna hæfist að nýju.

Síðan er atriði sem snýr að næstu nágrönnum þessa svæðis. Íbúar nærliggjandi byggða jafnt á Ströndum sem við Ísafjarðardjúp hafa líka bent á að gegndarlaus fjölgun á ref og mink í friðlandinu valdi miklum búsifjum utan friðlandsins. Hjarðir minka og refa streyma bæði suður Strandir og inn í Djúp, leggjast á búfénað, granda fuglum og eyðileggja veiðiár. Hlunnindabændur hafa þannig vakið athygli á að mikil fjölgun refa og minka hafi leitt af sér stórtjón í æðarvörpum og laxveiðiám og þannig skaðað bændur og rýrt afkomu þeirra.

Ég get í þessu sambandi vakið athygli á því að ég var á fundi norður á Hólmavík fyrir nokkrum dögum. Þar kom að máli við mig þekkt skytta, refaskytta og minkabani sem hafði lent í því fyrir ekki löngu síðan fyrir norðan að hann kom að vegsummerkjum eftir mink sem hafði hvorki meira né minna en slátrað að mig minnir 400 æðarungum og komið fyrir undir steini svo að hryllilegt var að sjá. Ég sá þetta á ljósmynd og ég verð að játa, virðulegi forseti, að þetta er auðvitað táknrænt dæmi um þann skaða sem friðun þessara kvikinda á svæðinu norður á Hornströndum veldur. Þess vegna erum við að leggja þessar veiðar til.

Af þessu hefur síðan leitt að kostnaður við grenjaleit og veiðar á mink hefur vaxið gríðarlega í sveitarfélögum sem næst liggja friðlandinu. Fámenni þessara sveitarfélaga í mörgum tilvikum hefur gert það að verkum að stóraukinn veiðikostnaður verður þeim ofviða og eykur enn vandamálið. Við vitum að kostnaður af þessu leggst býsna misjafnlega á einstök sveitarfélög. Sums staðar er það hins vegar mjög veigamikill þáttur og umtalsverður þáttur í útgjöldum sveitarfélaga að stunda grenjavinnslu og veiðar á mink. Því miður hefur tekist svo til hér á Alþingi að fjárveitingar til þessa málaflokks hafa verið skornar niður og því miður var tillaga, sem sá sem hér stendur stóð að, felld sem hefði falið í sér aukin fjárframlög til þessa málaflokks. Þess vegna eru menn verr undir það búnir að glíma við þennan ófögnuð sem streymir, eins og hér er orðað, suður Strandir og inn Ísafjarðardjúp og er að valda þarna búsifjum.

Af þessu sést að brýna nauðsyn ber til að aflétt sé banni við veiðum á mink og ref í friðlandinu á Hornströndum. Á hinn bóginn er skynsamlegt að þessar veiðar fari fram undir eftirliti, vegna þess að um friðland er að ræða. Þetta er auðvitað fullkomin ástæða til að leggja áherslu á að ekki er verið að heimila skefjalausar eða stjórnlausar veiðar á svona viðkvæmu landsvæði. Hérna er verið að stíga mjög varfærnisleg skref til að koma til móts við þau sjónarmið sem eru mjög sterk og vel ígrunduð af fólki sem þekkir mjög vel til. Þess vegna er verið að leggja til að þetta sé gert varfærnislega og enn fremur að eðlilegast er að Náttúrustofa Vestfjarða annist eftirlitið. Ég get nefnt það í þessu sambandi að ég tók þátt í útvarpsþætti með núverandi veiðistjóra, Ásbirni Dagbjartssyni, sem lýsti því einmitt yfir að hann teldi mjög skynsamlegt að Náttúrustofa Vestfjarða annaðist þetta eftirlit.

Þessi sami veiðistjóri fjallaði almennt um þessi mál, veiðar á ref og mink, í athyglisverðu viðtali í Morgunblaðinu 28. september sl. þar sem hann segir að með því að minkur hafi verið veiddur í landinu frá árinu 1937 með óbreyttu álagi sé útkoman sú, með leyfi forseta, ,,að minkurinn hefur gersigrað okkur. Hann hefur farið hringveginn og stofninn hefur alltaf verið í vexti. Það er aðeins á afmörkuðum svæðum, þar sem miklu er kostað til, að tekist hefur að halda honum í burtu.``

Enn fremur segir veiðistjórinn í þessu viðtali að stofnstærð refsins hafi þrefaldast á síðustu 20 árum þó svo veiðar hafi verið svipaðar og áður. ,,Veiðin hefur minnkað nokkuð síðustu tvö árin og mesta hættan núna er sú að nýliðun í refastofninum aukist í kjölfarið. Það væri í raun stórhættulegt að aflétta snögglega veiðiálagi.``

Virðulegi forseti. Það er því augljóst mál að þegar við skoðum þetta, þá er bráðnauðsynlegt að hefja þessar veiðar skipulega og undir vísindalegu eftirliti þannig að með veiðunum sé fylgst. Lagt er til að vísindamönnum á svæðinu sé falið að hafa eftirlit og auðvitað gefur það auga leið að það er skynsamlegast að þannig sé að málum staðið. Ég held að um sé að ræða mál sem nauðsynlegt er að hv. Alþingi taki afstöðu til. Hér er um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem gæti falið í sér að hefja þessar veiðar að nýju. Það þarf ekki að breyta lögum. Þess vegna er þetta þáltill. En hins vegar er mikilvægt að mínu mati vegna þess að hér er um að ræða ákveðna breytingu á framkvæmdinni varðandi friðlandið, að Alþingi segi skoðun sína á málinu fyrir utan það að þetta mun hafa einhvern kostnað í för með sér sem óljóst er á þessari stundu hver verður. Það verður að sjálfsögðu ekki mikill kostnaður en eftirlitið verður eitthvað og kostnaðurinn við grenjavinnsluna hugsanlegur þannig að eðlilegt er að Alþingi, sem er auðvitað fjárveitingavaldið, hafi þá líka eitthvað um þetta mál að segja og axli sína ábyrgð í málinu.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að rekja þetta mál frekar. Hin lagalega hlið þessa máls er rakin ítarlega í grg. og eðlilegt að vísa til hennar. Að lokinni þessari umræðu legg ég til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. umhvn.