Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:33:21 (3194)

1999-02-02 18:33:21# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er að sjálfsögðu frjálst að koma með hvaða tillögur inn í þingið sem honum sýnist. Það sem ég meinti áðan með þeim orðum mínum að það væri skelfilegt að þetta skyldi þurfa að koma fram aftur og aftur er að augu skynsamra manna eins og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar skuli aldrei ætla að opnast fyrir því að vera okkar í NATO og tilvera varnarbandalagsins NATO hefur orðið til þess að friðvænlegra er í heiminum núna en nokkru sinni fyrr. Ástæða þess að friðvænlegt er er einmitt sú að þjóðir heims sem stóðu að stofnun NATO skuli hafa borið gæfu til þess að fara út í slíka samvinnu.

Það er með ólíkindum, eftir að hafa séð fyrrverandi ríki Varsjárbandalagsins, sem voru að reyna, eins og hv. þm. var að segja --- að sumu leyti réttilega og annars vegar voru það kannski bollaleggingar --- að ríki væru sífellt að reyna að ná þeim yfirburðum gagnvart öðrum að að endingu hlyti þetta að springa. En þau ríki sem mynduðu Varsjárbandalagið eru flest hver búin að biðja um að komast í NATO, þessa skelfingu sem hv. þm. er að tala um.

Auðvitað vilja allir, herra forseti, að friður sé í heiminum og að enginn reyni að ógna öðrum. En heimurinn er bara ekki svona. Hann er ekki svona hvítur. Það eru bara bláeygðir sakleysingjar sem halda að ekki þurfi stefnu um að verja sína þjóð. Það er andvaraleysi ef menn halda að hægt (Forseti hringir.) sé að lifa hér án þess að gá nokkurn tíma í kringum sig.