Skaðabótalög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 12:01:04 (4365)

1999-03-06 12:01:04# 123. lþ. 79.5 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.) frv. 37/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[12:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ríkisvaldið tekur að sér að skylda menn til að tryggja sig á ýmsan hátt gegn tjóni vegna þess að þeir missa getu til að afla tekna eða möguleika til að vinna. Þar ber fyrst að nefna almannatryggingar, í öðru lagi skylduaðild að lífeyrissjóðum, í þriðja lagi sjúkratryggingar stéttarfélaganna sem er líka skylduaðild að, 1% af launum er iðgjaldið. Enn fremur er skyldutrygging ökutækja til að tryggja tjón þriðja aðila sem lent getur í því að ökumaður valdi tjóni. Allt er þetta eitt samhangandi net til að tryggja fólk gegn því að missa tekjur. Þetta er þáttur í velferðarkerfi okkar.

Á botninum á þessu kerfi, ef allt bregst, er svo félagsleg hjálp sveitarfélaganna.

Þáttur í þessu eru þau lög eða frv. sem við ræðum hér, þ.e. skaðabótalögin, sem tryggja menn fyrir því ef þeir verða fyrir tjóni af völdum ökumanns og er þáttur í því að tryggja menn eins og allt þetta kerfi gegn tjóni af því að þeir missa vinnugetuna.

Herra forseti. Því er það svo að afstaða ASÍ í þessu máli, sem birtist í ályktun þess, er afskaplega undarleg. ASÍ ásamt með Vinnuveitendasambandinu og öðrum aðilum vinnumarkaðarins hefur verið í fararbroddi við að búa til og hanna það kerfi sem við búum við í dag. Flestir lífeyrissjóðirnir eru stofnaðir af verkalýðsfélögum, sumir 1930 eða 1934, 1956 og síðan 1969 og 1970. Þetta var tilraun verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda til að tryggja félagsmenn sína fyrir því tekjutjóni sem þeir verða fyrir ef þeir missa vinnugetuna.

Reyndar var ekki mikil þátttaka í sjóðum verkalýðshreyfingarinnar framan af. Til þess að ráða bót á því voru sett lög að frumkvæði Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins 1974 sem skyldaði alla launþega til að eiga aðild að lífeyrissjóði. Þetta er mjög veigamikið atriði, herra forseti, í þeirri umræðu sem fer fram núna. Skylduaðildin að lífeyrissjóðum var til þess að tryggja menn gegn örorku og elli og dauða um aldur fram.

Vinnuveitendasambandið og ASÍ hafa verið að vinna að því að tryggja menn gegn örorku á þennan hátt með því að skylda menn með lögum til að greiða í lífeyrissjóði. Þessi lög voru svo víkkuð út 1980 og síðan voru sett lög um lífeyrissjóði 1997 eins og hv. þm. er kunnugt.

Þess vegna er afstaða ASÍ mjög undarleg sem segir að iðgjöld til almennu lífeyrissjóðanna séu hluti umsaminna launa samkvæmt kjarasamningi og afrakstur langrar og harðrar kjarabaráttu og sé þar af leiðandi eign þess sem borgar iðgjaldið. Það er ekki svo. Þetta er lagaskylda. Löggjafinn hefur skyldað fólk til að tryggja sig á þennan hátt fyrir örorku.

Síðan stendur í ályktun miðstjórnar ASÍ, með leyfi herra forseta:

,,Lífeyrisréttur er oftar en ekki eini varanlegi sparnaður launafólks meðan þeir sem betur mega sín hafa tækifæri og getu til annars sparnaðar sem ekkert kemur til frádráttar skaðabótunum.``

Þetta er algjör misskilningur. Allir eiga að spara í lífeyrissjóði, ekki bara launafólk, heldur allir, atvinnurekendur líka. Allir sem hafa tekjur af vinnu sinni eiga að tryggja þessar tekjur í lífeyrissjóðunum. ASÍ og Vinnuveitendasambandið hafa mótað tryggingakerfið, þeir hafa verið þátttakendur í því en núna virðast þeir vera að hlaupa frá því með því að segja að þær bætur sem koma úr kerfinu vegna örorku eigi ekki að koma til frádráttar þeirri lögboðnu örorkutryggingu sem við ræðum um í dag.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um oftryggingu og vantryggingu. Oft tala menn um oftryggingu sem hálfgerðan brandara og það sé svo sem allt í lagi að hafa oftryggingu. Að sjálfsögðu er ekki allt í lagi að hafa oftryggingu. Ef menn eiga að hagnast á því að verða fyrir tjóni hlýtur það að koma niður á einhverjum öðrum, það er einhver sem greiðir. Annaðhvort eru það skattgreiðendur sem greiða í almannatryggingar eða iðgjaldagreiðendur í gegnum lífeyrissjóðina eða iðgjaldagreiðendur í gegnum tryggingafélögin. Oftrygging er því alltaf skaðleg og í allri hönnun á tryggingakerfum er yfirleitt gert ráð fyrir því og reiknað með því að menn reyni að koma í veg fyrir oftryggingu vegna þess að hún veldur óþarfakostnaði. Við ætlum að tryggja tjónið en ekki oftryggja það. Það er mjög mikilvægt að menn horfi til þess.

Herra forseti. Í umræðunni hefur nokkuð verið talað um að tryggingafélögin séu með svo og svo mikinn gróða og þetta sé gert fyrir tryggingafélögin. Það er eins og menn átti sig ekki á því að á tryggingamarkaðnum er samkeppni. Menn tala um geysimikla tryggingasjóði o.s.frv. En hvar er samkeppnin? Hafa menn enga trú á því að samkeppnin nái fram því iðgjaldi sem stendur akkúrat undir áhættunni sem tryggingafélögin taka á sig? Ef álögur á tryggingafélögin eru auknar, þ.e. bæturnar hækkaðar, segjum tvöfaldaðar, þurfa tryggingafélögin tvöfalt hærra áhættuiðgjald til þess að mæta áhættunni. Þetta liggur í augum uppi. Samkeppnin meðal tryggingafélaganna á að keyra iðgjaldið niður í það að vera nánast áhættuiðgjald plús eitthvað kostnaðarálag.

Allt kerfið byggir á því að menn séu tryggðir en bara einu sinni tryggðir. Þess vegna er ályktun ASÍ dálítið undarleg og alveg sérstaklega það sem þeir segja, með leyfi herra forseta:

,,Þennan sparnað launafólks í samtryggingarsjóðum verkalýðshreyfingarinnar hyggst ríkisstjórnin nú nota til þess að spara tryggingafélögunum bótagreiðslur og skerða stórlega kjör launafólks sem verður fyrir alvarlegum áföllum.``

Það er verið að spara tryggingafélögunum bótagreiðslur. Ef bótagreiðslurnar lækka munu iðgjöld tryggingafélaganna væntanlega lækka vegna samkeppninnar ef menn hafa yfirleitt trú á samkeppni og hún er allveruleg á þessum markaði. Erlendir aðilar eru að koma inn. Þetta er því ekki rétt, það er ekkert verið að spara tryggingafélögunum bótagreiðslur. Það er ekkert verið að skerða stórlega kjör launafólks með þessu frv. vegna þess að það er tryggt í lífeyrissjóðunum fyrir þessari örorku, það er lagaskylda að tryggja sig fyrir þessari örorku, fyrir þessu áfalli, í lífeyrissjóðunum.

Herra forseti. Ég vildi koma inn á nokkur atriði. Í fyrsta lagi er í öllum útreikningunum miðað við 4,5% raunvexti umfram laun því að við erum að tryggja launatap. Ég set mikið spurningarmerki við þessa vexti vegna þess að vextir hafa lækkað á lengstu spariskírteinum ríkissjóðs --- vextir hafa lækkað um 2% á síðustu tveim árum. Menn verða að huga vel að þessari tölu. Vextir eru núna 3,6% á markaði fyrir langtímabréf umfram verðlag. Ekki er hægt að ætlast til þess að maður sem verður fyrir tjóni geti ávaxtað fé sitt miklu betur en það. Það þarf ákveðna sérfræðiþekkingu til og það er auk þess kostnaður að ávaxta, sem vantar líka inn í þetta dæmi. Ég set því spurningarmerki við þetta og ef það verður frekari lækkun á vöxtum á markaði verður að taka þessi lög aftur og hækka bæturnar umtalsvert vegna þess að bæturnar hækka mikið þegar ávöxtunarkrafan er lækkuð.

Enn fremur er gert ráð fyrir því að skattaálögur séu 33% sem er mjög hátt vegna þess að meðalskattar eru um 20% yfir allt kerfið. Þeir sem eru með lágar bætur og lenda í skattleysismörkum ættu ekki að vera skertir um einn þriðja heldur eitthvað minna. Það er því eitt og annað sem ég hefði athugasemdir við, það er aðallega vaxtaprósentan og síðan þessir skattfrelsisstuðlar.

Þá hef ég líka athugasemd við það sem kemur til mótvægis, að draga bara 60% af örorkubótum lífeyrissjóðanna frá. Ég mundi vilja draga þær allar frá, 100%. En það kemur til mótvægis þessum vöxtum þannig að ég hugsa að þetta komi nokkurn veginn eins út að meðaltali.

Herra forseti. Ég tel mjög brýnt að menn horfi á kerfið allt í heild sinni. Mér finnst að allar lögboðnar tryggingar eigi að koma til frádráttar, þ.e. úr sjúkrasjóðum, sem eru lögboðnir, úr lífeyrissjóðum sem eru lögboðnir, úr almannatryggingum og frá sveitarfélögum, þetta eigi allt að koma til frádráttar, en ekki frjáls sparnaður og frjáls lífeyrissparnaður, þar á meðal ekki þau 2% sem nýbúið er að samþykkja.

Herra forseti. Ég fagna því frv. sem hér hefur komið fram. Það er á margan hátt til bóta. En eins og ég gat um eru þarna örfáir agnúar á því en ég held að það sé mikið til bóta frá því sem nú er í gildi og ég styð það eindregið.