Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 14:50:38 (6818)

2000-04-28 14:50:38# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. til laga um fæðingar- og foreldraorlof er ánægjulegasta mál sem við ræðum á þessu þingi. Það fullyrði ég. Það er trú mín að þetta mál muni færa okkur í risaskrefum í átt til aukins jafnréttis kvenna og karla. Hér er fyrst og fremst um jafnréttismál að ræða en einnig er það mjög stórt fjölskyldumál. Það ber að þakka öllum þeim sem lögðu mikið á sig til þess að niðurstaða næðist í þessu flókna og mikilvæga máli. Frv. var unnið í samvinnu aðila vinnumarkaðarins og heilbrn., félmrn. og fjmrn. og allir þessir aðilar lögðu mikið á sig til þess að niðurstaða næðist. Þetta ber að þakka.

Hæstv. forseti. Það er almennt álitið að það að foreldrar hafi sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs muni leiða okkur inn í nýjar víddir í jafnréttismálunum sem ekki hafa verið fyrir hendi áður. Það að þrír mánuðir verði bundnir við föður mun hafa mun víðtækari áhrif til viðhorfsbreytingar á stöðu kynjanna í samfélaginu en við höfum áður kynnst. Það að feður fari inn á heimilin og taki jafnan þátt í uppeldi og umönnun barna sinna á fyrstu mánuðum mun gerbreyta afstöðu atvinnulífsins til starfsmanna sinna. Fyrirtæki og stofnanir munu sjá af starfsfólki sínu, konum og körlum, til að sinna sjálfsögðum skyldum við nýja þjóðfélagsþegna. Fyrirtæki og stofnanir munu einnig fyrir vikið uppskera ánægðara og betra starfsfólk. Fyrirtæki og stofnanir munu gera ráð fyrir því í starfsmannastefnu sinni að bæði konur og karlar muni hverfa tímabundið til starfa inni á heimilum sínum. Slík starfsmannastefna sem inniheldur bæði jafnréttis- og fjölskylduáætlun er nú þegar farin að sjást hjá fyrirtækjum hér á landi og mun verða sífellt algengari.

Því er ekki að neita að sú spenna sem er á vinnumarkaði hjálpar til við að skapa þetta umhverfi. Fyrirtæki eru ekki eingöngu að yfirbjóða hvert annað í launum heldur einnig í góðri og fjölskylduvænni starfsmannastefnu. Það sýnir sig að ungt og eftirsótt starfsfólk sækist eftir því að starfa á slíkum jákvæðum vinnustöðum og lætur sig varða að búa við slík lífsgæði.

Jafnrétti er ein helsta forsenda þess að einstaklingarnir þroskist og fái að nýta hæfileika sína og tækifæri í einkalífi og starfi. Jafnrétti kynjanna krefst raunhæfra lausna sem tryggja jöfn tækifæri karla og kvenna til starfa innan sem utan heimilis. Þetta er viðurkennt. Eitt mikilvægasta réttlætismálið í því sambandi er að jafna þennan rétt sem við erum að ræða hér um, rétt feðra og mæðra til fæðingarorlofs. Kerfið sem við þekkjum núna og núverandi mismunum, ásamt ríkjandi viðhorfum um verkaskiptingu kynjanna, heftir frelsi einstaklinganna til þess að velja sér starfsvettvang og vettvang innan fjölskyldunnar.

Ef við nefnum þá ágalla sem eru á núverandi skipan fæðingarorlofs þá eru þeir ýmsir. Þeir eru t.d. að karlar hafa mjög takmarkaðan rétt til fæðingarorlofs, konur hafa veikari stöðu á vinnumarkaði, aðstöðumunur er á milli ríkisstarfsmanna og starfsfólks á einkamarkaði, kostnaði er misskipt á milli vinnuveitenda, þjóðfélagið nýtir ekki til fulls starfskrafta kvenna og börn fá ekki notið samvista við báða foreldra sína, sem er ekki síst mikilvægt að geti orðið breyting á.

Þær úrbætur sem verða með þessu frv. eru að við náum jafnari stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, jafnari stöðu kvenna og karla á heimili, meiri dreifingu á kostnaði vinnuveitenda vegna barna, það verða fleiri skattgreiðendur til að viðhalda velferðarkerfinu og aukinni hagræðing verður í þjóðfélaginu þar sem mannauður kvenna er nýttur.

Hæstv. forseti. Tilgangurinn með frv. um fæðingar- og foreldraorlof er að jafna rétt karla og kvenna til fæðingar- og foreldraorlofs og gera foreldrum kleift að samræma skyldur sínar í starfi og fjölskyldulífi. Frv. á að ná til starfsmanna á almennum markaði og opinberum vinnumarkaði. Það er mikilvægt að nú mun gilda eitt kerfi fyrir allan vinnumarkaðinn. Samkvæmt frv. eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Sjálfstæður réttur feðra verður með þessu tryggður í áföngum þannig að árið 2001, á næsta ári, hljóta þeir rétt til eins mánaðar, 2002 til tveggja mánaða og 2003 til þriggja mánaða. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar, en annað foreldri getur tekið það í heild eða foreldrar skipt því með sér og foreldrar eiga því í raun jafnan rétt, jafnlangan rétt til töku orlofs.

Rétturinn til fæðingarorlofs fellur niður þegar barnið nær 18 mánaða aldri, en það er einmitt mikilvægt í þessu sambandi að hér er um sveigjanlegan rétt að ræða og starfsmaðurinn hagar fæðingarorlofi sínu í samkomulagi við vinnuveitanda sinn. Það gerir m.a. mögulegt að starfsmaður getur gegnt hlutastarfi á meðan orlofið stendur. Þetta er afskaplega mikilvægt einmitt í ljósi jafnréttismálanna.

Mánaðarleg greiðsla í fæðingarorlofi foreldris sem er starfsmaður hjá öðrum aðila nemur 80% af meðaltali heildarlauna og er miðað við heildarlaun á árinu fyrir töku fæðingarorlofs. Fyrir sjálfstætt starfandi foreldri á að miða við 80% af reiknuðu endurgjaldi.

Orlofsrétturinn er einstaklingsbundinn og framsal hans er óheimilt að undanskildum þessum þremur mánuðum af fæðingarorlofi sem foreldrar geta skipt með sér. Tilgangur þessarar takmörkunar á framsali er m.a. að stuðla að jafnri stöðu kynjanna innan samfélagsins.

Í frv. er lagt til að sérstakur Fæðingarorlofssjóður verði stofnaður. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði mjög vel grein fyrir því og ber m.a. að þakka þátttöku opinberra starfsmanna að þessu máli þannig að það skuli nú vera komið í höfn. Lagt er til að Fæðingarorlofssjóður verði fjármagnaður með tryggingagjaldi auk vaxta af innstæðufé sjóðsins og verðbréfum.

Gert er ráð fyrir því, eins og ég sagði, að þessi kostnaður vegna fólks á vinnumarkaði verði fjármagnaður með tryggingagjaldi. Eftir stendur þá fólk sem er utan vinnumarkaðar og er sá kostnaður greiddur beint úr ríkissjóði. Þar er gert ráð fyrir því að kerfið verði óbreytt. Í frv. er einnig gert ráð fyrir úrskurðarnefnd í fæðingar- og foreldraorlofsmálum og af því mun hljótast nokkur kostnaður.

Frv. gerir einnig ráð fyrir því að foreldrar eigi rétt á foreldraorlofi frá launuðum störfum vegna fæðingar barns, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Það orlof er hins vegar launalaust og það skal tekið áður en barn nær átta ára aldri. Kostnaður ríkissjóðs vegna þessa er nokkur vegna afleysinga og annarra úrræða sem þarf að grípa til af þeim sökum. Þó verð ég að segja, miðað við þær umræður sem við höfum orðið vitni undanförnum árum, að það kom mér satt að segja á óvart að sá kostnaður sem þjóðfélagið og ríkisvaldið leggur hér til að verði farið í til þess að ná þessum markmiðum, verði ekki meiri en raun ber vitni. En það er mjög heppilegt að hægt skuli vera að nýta þennan sjóð sem við höfum til þess og koma þessu kerfi á í gegnum tryggingagjaldið.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir velti því upp í ræðu sinni hvort setja ætti þak á greiðslur vegna fæðingarorlofs. Það er mín skoðun að það vinni augljóslega gegn jafnréttismarkmiðum frv. Það er mikilvægt að benda á í þessu sambandi að tryggingagjaldið er greitt sem hlutfall af launum m.a. fæðingarorlofstaka. Í raun og veru er því hér um tryggingu að ræða sem launþegi leggur í og þess vegna eðlilegt að hann njóti réttinda í sama hlutfalli og hans laun gefa til kynna.

Hér var gildistakan einnig nefnd og hvaða skil yrðu við 1. janúar 2001. En eins og segir í 36. gr. frv. þá taka ákvæði um fæðingarorlof þegar gildi er frv. verður að lögum og taka til barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2001 eða síðar. Eins og frv. lítur út núna er því ekki gert ráð fyrir því að það taki til barna sem fæðast á árinu 2000.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði þá er þetta eitt það ánægjulegasta mál sem við ræðum á þessu þingi. Ég vænti góðs samstarfs við nefnarmenn í félmn. við vinnslu málsins og veit reyndar og hef vissu fyrir því að þeir muni leggja sig alla fram við að ljúka umfjöllun um málið þannig að hægt verði að ljúka því fyrir þinglok í vor. Það er mjög mikilvægt.