Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 18:18:01 (7233)

2000-05-09 18:18:01# 125. lþ. 110.24 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[18:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda hv. þm. Pétri H. Blöndal á að allar greiðslur í lífeyrissjóði eru undanþegnar skatti hvort sem þær teljast til tekna launamannsins eða framlags af hálfu launagreiðandans, það er frádráttarbær rekstrarkostnaður.

Hitt er svo akademískara mál hvernig beri að skilgreina þetta, hvort beri að gera það sem tekjur launamannsins eða framlag atvinnurekandans. Ég hef verið á því máli að halda þessu aðskildu þó að ég sjái að það væri náttúrlega freistandi fyrir alla statistík, alla talnagerð að hækka laun í landinu um 6% með þessu móti jafnvel þótt ekkert hreyfðist í launaumslaginu.

En hvað varðar hitt, hverjir koma til með að njóta þessa, þá hef ég trú á því að fyrirtækin, hlutafélögin meti starfsfólkið ekki eftir þeim mælikvörðum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gaf í skyn að þau gerðu. Það kemur einfaldlega fram í launum núna, þau eru mjög mismunandi, og það eru þeir sem standa næst kjötkötlunum sem hafa mestar tekjurnar og meira að segja mjög miklar í sumum fyrirtækjum þannig að nemur hundruðum þúsunda ef ekki milljónum á mánuði hverjum, á meðan öðrum eru búin miklu lakari kjör. Og nú vill hv. þm. Pétur H. Blöndal og ríkisstjórnin ívilna því fólki og láta ríkissjóð niðurgreiða kjörin til þeirra.