Menningarhús á landsbyggðinni

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:24:35 (308)

1999-10-11 15:24:35# 125. lþ. 6.1 fundur 45#B menningarhús á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Síðasta vetur kynnti ríkisstjórnin áform sín um byggingu fimm menningarhúsa á landsbyggðinni. Í svari við fyrirspurn minni um þá fyrirætlan í febrúar sl. kom fram hjá hæstv. menntmrh. að nefnd ætti að fjalla um hvernig ríkið geti komið að því að stuðla að því að menningarhús rísi um landið.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra:

Hefur umrædd nefnd skilað tillögum sínum, ef svo er hvar liggja þær fyrir?

Sér þess stað í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að ríkisstjórnin hyggist fylgja fyrirheitum sínum um byggingu menningarhúsa eftir? Hvar mun þau fyrirheit að finna?

Ríkisstjórnin ákvað að eitt þessara menningarhúsa ætti að verða á Akureyri. Nú eru Akureyringar býsna langt komnir með undirbúning sinn vegna byggingar menningarhúss þar. Því vil ég spyrja:

Hver hefur aðkoma menntmrn. verið vegna þeirrar undirbúningsvinnu?

Það kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn minni sl. vetur að skiptingin ætti að vera þannig að ríkið greiddi 60% og sveitarfélögin 40% af kostnaði. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér samvinnu við Akureyrarbæ um þetta verkefni á næstu vikum og mánuðum?