Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:44:36 (334)

1999-10-11 16:44:36# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram að þegar ég ræddi um þessa þrjá kosti sem í stöðunni væru var það til þess að skýra aðstæðurnar en ekki vegna þess að ég væri þar með að tjá mig um þá sem slíka. En til þess að eyða öllum misskilningi í þeim efnum hefði ég talið að besti kosturinn væri sá fyrsti við núverandi aðstæður, þ.e. að menn stöðvuðu sig algerlega af og ekki yrði um frekari einkavæðingu að ræða á þessu sviði að svo stöddu.

[16:45]

Ég tel mikilvægt fyrir okkur til framtíðar litið að tryggja að hér verði innlent forræði í a.m.k. einni öflugri bankastofnun, einum íslenskum þjóðbanka. Það verður best gert með því að ríkið eigi hann. Vænlegast kosturinn hefði á sínum tíma verið sá að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann í einn slíkan öflugan þjóðbanka. Næstbesta kostinn teldi ég norsku leiðina, að menn gæfu það út strax að þó að um einhverja breytingu, einhverja sölu á eignarhlut ríkisins yrði að ræða þá mundi ríkið áfram verða inni í mikilvægustu stofnununum, t.d. inn í Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Fjárfestingarbankanum, með ráðandi hlut.

Þriðji kosturinn, sá lakasti, er að fara offari í einkavæðingunni en hvað sem því líður þá hljóta almennar leikreglur af þessu tagi að hafa gildi. Þær hafa auðvitað þeim mun meira gildi þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að fara þriðju leiðina og boðað hana. Það stendur í stjórnarsáttmálanum og er á fullri ferð. Þá er að láta reyna á vilja manna til þess að dreifa eignarhaldinu, samanber umræður um það.

Við leggjum til varanlegar breytingar, það er alveg ljóst. Við leggjum til að þetta komi inn í lög til þess að tilburðir til að tryggja dreifingu í frumsölu renni ekki út í sandinn á eftirmarkaði. Það er svo borðleggjandi, hv. þm., að það mun gerast ef menn grípa ekki til ráðstafana. Það þarf tæpast að svara því. Mun þetta halda? Svarið er já. Ég hef tröllatrú á því að hér megi útfæra í lögum, eins og í 14 öðrum vestrænum löndum, ákvæði sem eru sæmilega held í þessum efnum. Þó svo að einhverjir tilburðir verði til þess að fara í kringum það þá eru lögin til að komast fyrir slíkt.