Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:51:20 (337)

1999-10-11 16:51:20# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:51]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan í andsvari þá tel ég þetta mjög gott frv. og þarfa umræðu. Það er ekki þar með sagt að ég sé sáttur við það eða styðji það. Fyrsta spurningin sem vaknar er: Af hverju einbeita menn sér að viðskiptabönkum eða lánastofnunum? Af hverju ekki fjölmiðlum? Hvað með símafyrirtæki? Hvað með orkufyrirtæki? Erum við ekki miklu háðari orkufyrirtækjum eða símafyrirtækjum sem neytendur en bönkunum? Ég bara spyr. Getur verið að það að menn einbeiti sér svona að bönkunum sé arfur frá gamalli og sem betur fer liðinni tíð þar sem biðstofur bankastjóra voru fullar af fólki sem lá hnjánum og lán voru ekki endilega veitt á viðskiptalegum grundvelli. Sumir hafa talað um misnotkun í því sambandi, misnotkun stjórnmálamanna. Getur verið að menn séu enn þá haldnir þeirri meinloku að þetta sé enn þá við lýði? Ég bendi þeim mönnum á að nú er breytt tíð. Eftir að vextir voru gefnir frjálsir þá tæmdust biðstofur bankastjóranna. Ég efast um að þær séu lengur til. Þær tæmdust ekki aðeins heldur hurfu. Nú eru bankastjórar leitandi með logandi ljósi að góðum lántakendum út um allan bæ. Þetta er gjörbreytt staða.

Herra forseti. Það er afskaplega óskynsamlegt fyrir einstaklinga sem eiga nú kannski ekki marga milljarða --- ég hugsa að það séu afskaplega fáir Íslendingar sem eigi yfir einn milljarð --- að setja svo mikla peninga í einn banka eins og hér er um að ræða. 20% í FBA mundu vera 4 milljarðar. Það væri afskaplega óskynsamlegt. Það væri vitfirring að setja öll eggin í eina körfu og taka til þess lán. Ef menn ætla að stunda skynsamlega fjárfestingu verða þeir að sjálfsögðu að dreifa eignum sínum. Það mundi ekki einn einasti einstaklingur setja svo mikla peninga í einn banka. Enda er reyndin sú að t.d. í Íslandsbanka, sem hér var nefndur áðan, á enginn yfir 10%. Þeir sem koma næst því eru stofnanafjárfestar, lífeyrissjóðir og slíkir. Það má vel vera að setja þurfi takmarkanir á þá en ég sé ekki fyrir mér að einn einasti einstaklingur eignist nokkurn tímann þessi 8% sem hér er verið að tala um. Enda væri það óskynsamlegt.

Erlendis hefur það yfirleitt sýnt sig að eignaraðildin er mjög dreifð í stórum fyrirtækjum. Svo er það önnur saga að 8% geta gefið afskaplega sterkan hlut ef restinni af hlutafénu er vel dreift. Það þekkjum við t.d. í Eimskip. Þar skipta 8% miklu máli við stjórnarkjör. Svona einfaldar og flatar reglur geta verið mjög óskynsamlegar. Ef nægilega mikil dreifing er á hlutafénu annars staðar þá geta 8% verið afgerandi hlutur.

Herra forseti. Það er alltaf þannig að borgarinn á næsta leik. Við setjum lög og síðan á borgarinn næsta leik. Hann finnur, ef hann langar til, smugu. Þess vegna spurði ég sérstaklega um 4. lið 1. gr. frv. Ég vildi skilja það svo ég gæti fundið snyrtilega leið til þess að fara fram hjá þessu. Ég get hugsað mér eina leið. Segjum t.d. að ég sé útlendingur og mig langi til að eignast helming í íslenskum banka. Hvað geri ég þá? Ég finn einhverja vesalinga á Íslandi, ekkert voðalega sterkríka, helst fátæka, og læt þá stofna hlutafélög. Ég lána þeim fyrir því, 400 þús. kr. sem til þarf, og svo lána ég hlutafélaginu mjög safaríkt lán með háum vöxtum með því skilyrði að vinurinn kaupi hlutabréfin sem ég ætla að eignast, 8% í ákveðnum banka. Þetta er ekki bannað. Það er ekki talað um veðsetningu. Ekki einu sinni óbeina veðsetningu því þetta er óbein veðsetning. Ég lána bara hlutafélaginu án nokkurra skilyrða. Ég sit að sjálfsögðu alla stjórnarfundi. Svo þarf ég bara nægilega marga, hvað þarf ég marga? Ég þarf svona 6--7 hlutafélög og vesalinga til að gera þetta. Þar með er ég kominn í meiri hluta. Þetta er bara ein leið. Ég gæti eflaust fundið fleiri leiðir. Það gleymist nefnilega alltaf að lántakandi hefur ekki síður tök á þeim sem hann lánar en eigandi. Þetta á líka við í sambandi við fiskveiðistjórnarkerfið. Þar geta menn leikið þennan leik og gera raunar. Ég vil benda á að sjávarútvegurinn skuldar 150 milljarða og yfirleitt allt í útlöndum. Hvað ætlar hann að gera ef allt gjaldfellur? Hver á þá kvótann í rauninni? Þetta hef ég bent á áður.

Hún er dálítið undanleg þessi umræða, hún er alveg stórfurðuleg. Hingað til hefur nefnilega einn aðili átt þessa banka. Enginn hefur haft verulegar áhyggjur af því. Einn aðili hefur farið hryllilega illa með þessa banka á undanförnum áratugum. Margir hafa talað um misnotkun, spariféð fuðraði upp í verðbólgu og enginn sagði neitt. Og eigandinn var hver? Ríkissjóður. Það hafði enginn áhyggjur af þessu. Það hafði heldur enginn áhyggjur af því að ríkissjóður ætti stærsta fjölmiðil landsins. Enginn hafði áhyggjur af því.

Það sem gerist svo er að sparisjóðina, sem enginn á, langaði til að eignast FBA vegna þess að það var sniðugt að sameina FBA Kaupþingi. Það er afskaplega sniðugt og réttlætir verðið sem menn eru að tala um. En kannski ekki neitt annað --- engin önnur notkun á þessum banka önnur en sameiningin réttlætir svona hátt verð. Þessir sparisjóðir eru tiltölulega samhæfð heild, mjög ,,hómogen`` heild. Þeir hafa mikið samstarf sín á milli, eru með Reiknistofu sparisjóðanna, eru með innstæðutryggingu, eru með Sparisjóðabankann og eiga Kaupþing. Þeir vinna mjög vel saman. Þessi samheldna grúppa selur sinn hlut fjórum einstaklingum, meira að segja hópi af fólki í kringum þá, einstaklingum sem eru þekktir fyrir að vera einstaklingar og ekki sérstaklega þekktir fyrir að vera samvinnuþýðir eða vinna með öðru fólki. Þegar þessir einstaklingar kaupa í bankanum þá verða menn voða hissa en mér finnst það bara jákvætt. Það sem gerðist var að eignarhlutinn dreifðist allt í einu. Það er þó einhver sem á þetta. Fyrst átti ríkissjóður þetta alveg. Ríkissjóð á einhver, við skulum segja að skattgreiðendur eigi ríkissjóð eða borgarar landsins. Það er einhver sem á ríkissjóð. En ríkissjóður seldi þetta og hver eignaðist? Sparisjóðirnir sem enginn á, þ.e. ,,einhver`` seldi ,,engum``. Síðan gerist það að sparisjóðirnir selja einhverjum einstaklingum. Þá gerist það að ,,enginn`` selur ákveðnum einstaklingum. Það finnst mér bara jákvætt. Fyrst selur ,,einhver`` ,,engum`` og ,,enginn`` selur svo ákveðnum einstaklingum. Ég sem einstaklingshyggjumaður er bara ánægður með það. Það sem getur gerst núna er að þessi Orca-hópur skipti sínum hlutum upp og þá á hver þeirra undir 8% og allt í sómalagi.

Herra forseti. Ég spyr: Hvar er hættan? Hvað óttast menn? Ég hef ekki fengið nein svör við því enn þá. Það kom ekki fram í framsögu. Hvað óttast menn? Nú er það þannig að bankar og lánastofnanir byggja á trausti. Sparifjáreigandinn þarf að treysta því að vel sé farið með peninga hans, hann þarf að treysta því að fá góða ávöxtun og helst betri en annars staðar. Hvað hefur hann að óttast ef einn aðili eignast meiri hlut í bankanum? Ef hann óttast eitthvað þá fer hann bara annað, þar sem eru aðilar sem hann treystir.

Skuldararnir, hvað hafa þeir að óttast? Jú, það sjónarmið hefur komið fram að eigandinn gæti farið að hnýsast í bankann. Það er hreinlega bannað með lögum.

[17:00]

Ef það gerist og ef það fréttist, þá er bankinn búinn að vera. Fyrir utan það að lántakendur geta nefnilega í dag líka skipt um banka og þeir verða sífellt mikilvægari fyrir bankastofnanirnar. Góðir lántakendur eru gulls ígildi fyrir banka í dag. Ekki lengur sparifjáreigendurnir. Það syndir allt í peningum. Spurningin er, hvar er hættan? Hv. framsögumaður svaraði því í framsöguræðu sinni, hann sagði að ef einhver einn aðili kaupir stóran hlut í bankanum verður bankinn minna fýsilegur fyrir aðra. Hvað þýðir það? Eignarhluturinn lækkar í verði, verðmætið minnkar. Það þýðir að ef einhver kaupir of stóran hlut þá tapar hann lifandis býsn á því. Og af hverju skyldi hann gera það? Þetta eru hans eigin peningar. Hann er ekki að fara með fé ríkissjóðs eða sveitarfélagsins, sem hingað til hefur verið farið illa með, hann er að fara með eigin peninga og hann verður að gæta þess alla tíð að menn treysti honum. Ef hann gerir eitthvað, eignast of stóran hlut eða eitthvað slíkt, þá getur traustið farið. Eigendurnir munu tipla á tánum. Þeir gera ekkert sem veikt getur það traust sem menn bera til bankastofnana. Ég held að slíkar reglur séu algjörlega óþarfar sem hér er verið að tala um. Fyrir utan það að hægt er að fara í kringum þær, þá eru þær alveg óþarfar, vegna þess að við erum með samkeppni á bankamarkaðnum sem vonandi vex mikið eftir að ríkissjóður, þessi eini eigandi sem átti allt hingað til, dregur sig út úr markaðnum. Þá verður bara hörkusamkeppni bæði um lántakendur og sparifjáreigendur. Og eigendurnir munu tipla á tánum að veikja ekki það traust sem þeir lifa á og græða á.