Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:56:11 (349)

1999-10-11 17:56:11# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur margoft komið fram í umræðum á opinberum vettvangi að innan ríkisstjórnarinnar er algjör samstaða um að meginmarkmiðið eigi að vera það að eignarhald á bönkum skuli vera dreift. Ég er sannfærður um að í ríkisstjórnarflokkunum, og þá ekki síst í mínum eigin flokki, er ágreiningur um það hvernig það verður gert.

Hér talaði á undan mér ágætur flokksbróðir minn og það kom alveg skýrt fram hjá honum að hann vildi ekki, ef ég skildi hann rétt, festa slíkar reglur í lög, það væri óþarft, hann væri sammála meginmarkmiðunum en það væri óþarft vegna þess að kerfið væri þannig að það mundi leiða til þess að þegar upp væri staðið yrði eignarhaldið dreift hvernig sem menn stofnuðu til málsins í upphafi. Menn hafa mismunandi skoðanir á þessu, þar á meðal í mínum þingflokki eins og komið hefur fram. Formaður efh.- og viðskn. lýsti opinberlega yfir svipuðum sjónarmiðum, kannski ekki eins afdráttarlausum, eins og menn muna þegar ég kom fram með þessi meginsjónarmið.

En ég tel ekki neinn ágreining um meginmarkmiðin, að eignarhald í þessum fyrirtækjum eigi að vera frjálst. Það sjá menn á því hvernig við höfum staðið að málum frá upphafi gagnvart bönkunum, gagnvart Búnaðarbanka, gagnvart Landsbanka, gagnvart Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og hvernig ríkisstjórnin brást við nú þegar hennar stefna hafði aðeins farið á hlið vegna utanaðkomandi aðgerða. Þær reglur sem ríkisstjórnin mótaði og varð fullkomlega sammála um hafa mælst mjög vel fyrir hjá markaðnum eða þeim sem þarf starfa.

Í annan stað vek ég athygli á því að ég nefndi það sérstaklega að hæstv. viðskrh. hefur undirbúið á undanförnum vikum --- og það er náttúrlega til umræðu í ríkisstjórn --- frv. sem styrkir mjög vald Fjármálaeftirlitsins. Vera má að slíkt vald geri það líklegra að sú skipan sem mér er kærust, að hægt sé að búa við óskrifaðar reglur í þessum efnum, geti náð fram að ganga. Ég verð því að hryggja hv. þm. með því að það eru engin vandamál í ríkisstjórninni varðandi þetta mál.