Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 22:19:55 (1740)

1999-11-17 22:19:55# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[22:19]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér leikur forvitni á að vita hvað í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar laut að fundarstjórn forseta. Mig langar að vita hvað það var. Ég heyrði ekki betur en að þingmaðurinn væri að gagnrýna hv. þm. Halldór Blöndal fyrir það hvenær hann tæki til máls í umræðunni. Með öðrum orðum gerir hv. þm. Össur Skarphéðinsson kröfu til að menn tali í ákveðinni röð, áður en hann er búinn með sinn málsrétt í umræðunni. Ég spyr, herra forseti, eru einhver ákvæði í þingsköpunum um að hv. þm. Össur Skarphéðinsson fái að ráða því hvenær hv. þm. Halldór Blöndal fær að tala? Ég spyr hæstv. forseta vegna þess að hann lét óátalið að svona dylgjur og reiðilestur, eins og stóð upp úr hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, færi hér fram. Þetta er ekki í takti við umræðuna sem hér hefur farið fram í dag og í gær, hin besta umræða, málefnaleg og góð. Þó að menn hafi haft andstæð sjónarmið þá hefur hún verið málefnaleg, góð og snörp, en þetta innskot var ekki við hæfi, herra forseti.