Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:14:15 (2184)

1999-12-02 14:14:15# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þá verður nú að hafa hratt á hæli ef flýtiafgreiðsla þessara frumvarpa í gegnum þingið á að vera eins og ríkisstjórnin hefur nú óskað eftir og þetta á að vera jóla- eða áramótagjöf handa stjórnarflokkunum, að ná fram kaupskapnum. Það þarf ef núv. hæstv. viðskrh. á að endast tími til að auglýsa stöðuna, velja úr hópi hæfra umsækjenda, sem örugglega verða margir og ómögulegt að vita fyrir fram hver verður hæfastur, er það ekki? Ef ganga á frá öllu þessu fyrir áramót þá þarf að vinna vasklega og bretta upp ermar.

Og maður spyr: Hvers vegna í ósköpunum hefur tíminn ekki verið notaður betur? Af hverju eru menn fyrst að uppgötva það núna í ríkisstjórninni að Steingrímur Hermannsson sé hættur?

[14:15]

Nei, herra forseti, auðvitað er þetta mál allt hið sérkennilegasta og það verður að segjast alveg eins og er. Ég hefði að mörgu leyti talið að úr því sem komið er væri eðlilegra að beðið yrði með þetta fram yfir þessa lagabreytingu og þetta yrði þá hluti af fyrstu verkum þess ráðherra sem við tæki sem tengdust bankanum fremur en að fráfarandi yfirmaður bankans negli þar inn mann, jafnvel til frambúðar. Mér finnst það vera algjörlega öfug röð úr því að þetta hefur dregist svo lengi. Það teldust varla miklu alvarlegri vanefndir á lögunum en nú þegar eru orðnar uppi. En ég er reyndar þeirrar skoðunar, herra forseti, og ég minni aftur á 3. mgr. 22. gr. laga um Seðlabankann, að það sé fullkomin vanræksla í starfi að hafa ekki ráðið í stöðuna eða lagt til lagabreytingar ella. Að mínu mati, herra forseti, var það embættisskylda hæstv. viðskrh. að ráða í stöðuna, auglýsa hana strax eftir að hún losnaði og það lá reyndar fyrir hvenær sá bankastjóri sem hætti mundi láta af störfum sökum aldurs. Þess vegna hefði verið hægt að auglýsa stöðuna áður og ganga frá málinu þannig að ekkert skarð hefði myndast. Þetta er heldur slök frammistaða, herra forseti, sem við stöndum frammi fyrir.