Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:56:52 (3402)

1999-12-18 10:56:52# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:56]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlaga fór ég nokkrum orðum um þessa áætlun á Keldnaholti og sagði frá því að mér byði í grun að hér væri enn einu sinni á ferðinni undirbúningur verkefna þar sem ætlað væri að Alþingi kæmi að gerðum hlut. Um er að ræða 17 stofnanir og þarfir þeirra fyrir húsnæði, 3,5 hektarar. Það mun kosta frá 5,2 til 5,5 milljarða að byggja þessi hús.

Við afgreiddum fjárlög fyrir nokkrum dögum og allir voru sammála um að það væru margar viðvörunarbjöllur sem hringdu, það væru mörg rauð ljós sem blikkuðu, við þyrftum að fara mjög varlega, við þyrftum að gera allt sem við gætum til þess að draga úr þeirri þenslu sem er að magnast hérna. Ríkið yrði að ganga þar fram fyrir skjöldu, við yrðum að draga úr framkvæmdum eins og við mögulega gætum. Þessar hugmyndir sem eru unnar að frumkvæði nokkurra ágætra ríkisforstjóra eru náttúrlega fullkomlega galnar og koma beint gegn öllum þeim pólitísku yfirlýsingum sem hafa verið gefnar á undanförnum vikum. Við verðum að átta okkur á því að fjárveitingavaldið er á Alþingi. Það er ríkisstjórn og Alþingi sem taka þessar ákvarðanir. Um það eru lögin alveg skýr. Þess vegna má það ekki gerast að sú hefð og venja þróist að menn fari að marka stefnu og taka ákvarðanir sem hafa verulega efnahagslega þýðingu án þess að Alþingi komi þar nokkurn tíma nálægt. Ég skora á hæstv. landbrh. að hafa forustu um það að taka þessa Keldnaholtsskýrslu og henda henni í ruslatunnuna.