Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 14:24:46 (3449)

1999-12-18 14:24:46# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. 1. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta iðnn. um þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun var formlega vísað til iðnaðarnefndar 22. nóvember 1999. Í iðnaðarnefnd var samþykkt að vísa umfjöllun um náttúru svæðisins til efnislegrar umfjöllunar í umhverfisnefnd, en að iðnaðarnefnd fjallaði um aðra þætti málsins. Umhverfisnefnd skilaði álitum sínum 6. desember og eru þau fylgiskjöl með þessu nefndaráliti.

Í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd voru settar fram óskir um að haldinn yrði opinn borgarafundur um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun en þeirri beiðni var alfarið hafnað af meiri hluta iðnaðarnefndar. Hinn 3. desember 1999 rituðu Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi í umhverfisnefnd, og undirritaður, sem fulltrúi í iðnaðarnefnd, þingforseta bréf þar sem farið var fram á að opinn borgarafundur yrði haldinn. Meiri hluti forsætisnefndar hafnaði erindinu á fundi sínum 6. desember 1999.

Á sameiginlegum fundi iðnaðarnefndar og umhverfisnefndar sem haldinn var miðvikudaginn 8. desember voru álit umhverfisnefndar kynnt. 1. minni hluti umhverfisnefndar leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir það álit rita Kristján Pálsson, Ásta Möller, Jónas Hallgrímsson og Gunnar Birgisson. 2. minni hluti umhverfisnefndar ítrekar það álit að fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum. Undir það álit rita Ólafur Örn Haraldsson, formaður nefndarinnar, og Katrín Fjeldsted.

Þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar í umhverfisnefnd rituðu svohljóðandi bréf til formanns umhverfisnefndar: ,,Við undirritaðir nefndarmenn í umhverfisnefnd styðjum í einu og öllu álit og niðurstöðu formanns nefndarinnar, Ólafs Arnar Haraldssonar, og Katrínar Fjeldsted er varðar þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, þskj. 216, 186. mál.`` Undir bréfið rita Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir. Því er ljóst að meiri hluti umhverfisnefndar er samþykkur því að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Ég vil árétta það að það er mitt mat að meiri hluti umhvn. sé fyrir því að virkjunin fari í lögformlegt umhverfismat vegna þess að bréfið sem Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa, þar sem þau eru samþykk áliti Ólafs Arnar Haraldssonar og Katrínar Fjeldsted, skapar meiri hluta í umhvn. Umhvn. skilaði síðan ítarlegu áliti sem óþarft er að fara í gegnum á þessu stigi málsins.

Á fundi iðnaðarnefndar mánudaginn 7. desember var tekið fyrir formlegt erindi frá undirrituðum þar sem farið var þess á leit að fulltrúar frá Norsk Hydro væru kallaðir á fund nefndarinnar. Erindið var tekið til atkvæðagreiðslu og felldi meiri hlutinn það. Á þingfundi sama dag kvaddi undirritaður sér hljóðs um störf þingsins og mótmælti afgreiðslu meiri hlutans, enda fáheyrt á Alþingi að nefndarmönnum sé neitað um að kalla fyrir málsaðila.

Ég átel harðlega þessa málsmeðhöndlun í iðnn. Það er lykilatriði að fá að ræða við þá sem málið varðar og það er sérstakt lykilatriði að fá að tala við fulltrúa Norsk Hydro í þessu máli vegna þess að svipan á Alþingi, svipan sem notuð er til þess að taka ákvörðun núna er Norsk Hydro og óþolinmæði þess fyrirtækis að komast í gang. Þess vegna er eðlilegt að menn vilji fá skýringar á því hvers vegna þingið þurfi með hraði að afgreiða ályktun eða afgreiða frá sér tillögu um framhald á framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun með svo miklum hraði. Að fá Norsk Hydro inn í málið og yfirheyra þá um þeirra afstöðu var lykilatriði að mínu mati.

Á fundi iðnaðarnefndar föstudaginn 8. desember óskaði minni hlutinn eftir því að þeir aðilar sem formlega, með rafrænum hætti, óskuðu eftir að koma á fund nefndarinnar væru kallaðir til. Meiri hlutinn felldi þá tillögu og bar við tímaskorti.

Það er neyðarlegt að við hér á hinu háa Alþingi vorum að guma af því bara fyrir nokkrum vikum síðan að vera nýtískuleg og opna störf þingsins og nefndanna, aðallega nefndanna, gagnvart almenningi. Haldinn var blaðamannafundur með pompi og pragt þar sem hinum almenna borgara var gefinn kostur á því að tengjast beint inn til nefndanna og hafa áhrif á störf.

[14:30]

Það er neyðarlegt að verða vitni að því að á sama tíma og við fáum gríðarleg viðbrögð utan frá með tölvupósti þá skulum við ekki geta brugðist við óskum þeirra þriggja, en á annað hundrað manns sem höfðu samband, sem óskuðu í tölvupósti formlega eftir áheyrn nefndarinnar. Því var neitað. Þetta tel ég mjög slæm vinnubrögð og alls ekki við hæfi.

Ég vil einnig vekja athygli á því að þingnefnd og þingi er ekki sæmandi að afgreiða þessa tillögu þegar tvær tillögur liggja fyrir þinginu um aðra tilhögun á land- og orkunotkun í landinu. Ég vil nefna þær tillögur. Það er till. til þál. um stofnun Snæfellsþjóðgarðs, sem liggur fyrir umhvn., og þar er flm. Þuríður Backman og fleiri. Síðan liggur fyrir iðnn. óafgreidd tillaga um sjálfbæra orkustefnu. Báðar þessar tillögur byggja á þeirri hugsun að farið verði öðruvísi að í notkun á auðlindunum og því væri sjálfsögð virðing við þingið að taka þær til umfjöllunar fyrst, samþykkja eða fella eftir atvikum áður en þessi tillaga getur komið fyrir. Fyrir mig sem nýjan þingmann er þetta með ólíkindum. Ég held að svona málsmeðferð gæti ekki átt sér stað í einu einasta ungmennafélagi. Menn mundu taka hlutina í réttri röð.

Tillagan um sjálfbæra orkustefnu, sem ég ætla sérstaklega að nefna hér, hún er um að:

Alþingi álykti að fela iðnrh. að undirbúa í samvinnu við umhvrh. og þingflokka sjálfbæra íslenska orkustefnu sem hafi það markmið:

a. að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutta orku af hólmi,

b. að dregið verði markvisst úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda,

c. að ríkulegt tillit verði tekið til náttúruverndar og umhverfis við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Forsenda þessarar stefnumótunar verði að Ísland gerist fullgildur aðili að Kyoto-bókuninni frá 12. desember 1997 við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Á meðan þessi stefna er í mótun verði ekki ráðist í orkufrekan iðnað umfram það sem þegar hefur verið samið um og frestað að innleiða hér reglur Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum.

Þáltill. þessi var flutt á 123. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Tillagan er nú endurflutt nokkurn veginn óbreytt.

Sjálfbær orkustefna er ekki markmið í sjálfu sér heldur afar mikilvægur hlekkur í sjálfbærri þróun á jörðinni. Núverandi orkubúskapur heimsins er í miklu ósamræmi við hugmyndir um sjálfbæra þróun og leiðir okkur fyrr en varir í öngstræti. Rangar áherslur í orkumálum skapa hættur fyrir umhverfi jarðar, heilbrigði og heimsfrið. Í áherslum Sameinuðu þjóðanna sem tengjast Ríó-ferlinu er meðal annars lögð áhersla á eftirfarandi þætti til að stuðla að sjálfbærri orkustefnu:

Orkusparnað og bætta nýtingu orku á öllum sviðum, ekki síst í þróuðum ríkjum.

Umhverfisvæna orkugjafa, ekki síst endurnýjanlega orku og nýja og hreina tækni.

Orkugjöld vegna mengunar og/eða reglur er takmarki losun mengandi efna.

Afnám niðurgreiðslna til kjarnorku og hefðbundinna orkugjafa.

Að heildarkostnaður, m.a. vegna umhverfis, verði sýnilegur og hluti orkufjárfestingar.

Jöfnuð í aðgengi að orkuþjónustu og áhrif almennings á mótun orkustefnu.

Forustu ríkisstjórna og opinberra aðila í að ryðja braut fyrir sjálfbæra orkustefnu.

Áætlanir og aðgerðir þjóðríkja í þágu sjálfbærrar orkustefnu.

Orka er eins og margoft var tekið fram að hv. formanni iðnn. undirstaða efnahagsþróunar. Yfir tveir milljarðar íbúa jarðar hafa ekki aðgang að rafmagni eða öðrum nútímalegum orkukerfum. Söfnun og brennsla þverrandi eldiviðar er hlutskipti hundruða milljóna og kemur einkum í hlut kvenna. Orka er lykill að því að út rýma fátækt, en orkusóun eins og hún viðgengst í þróuðum ríkjum er ógnun við umhverfi og jöfnuð. Þar eru niðurskurður í orkunotkun, bætt gæði í nýtingu orku í stað aukins framboðs og vistvænir orkugjafar mál mála.

Þáltill. beinir athyglinni að íslenskum orkubúskap. Hér á eftir er bent á hvernig nýta megi endurnýjanlegar orkulindir markvisst til stuðnings sjálfbærri orkustefnu í stað þess að binda þær í mengandi stóriðju til langs tíma.

Magn hagnýtanlegrar orku hérlendis. Íslendingar búa vel að endurnýjanlegum orkulindum að teknu tilliti til íbúafjölda. Hagkvæm nýtanleg vatnsorka hefur verið áætluð nema sem svarar til 30 teravattstunda ársframleiðslu rafmagns og jarðvarmi samsvarandi um 20 teravattstundum. Samtals eru þetta um 50 teravattstundir sem framleiðanlegar eru í landinu. Nefnd hafa verið langtum hærri fræðileg gildi um heildarmagn vatnsafls og jarðvarma sem hugsanlega mætti hagnýta að einhverju leyti síðar meir. Við þetta bætist vindorka og orka sjávarfalla sem ekki er farið að nýta að neinu leyti, svo og sólarorka.

Síðar í máli mínu mun ég færa rök fyrir því að við eigum ekki að rasa um ráð fram og samþykkja þáltill. um áframhaldandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun. Út frá mörgum sjónarhólum þá er málið ekki fullunnið. Við eigum að staldra við. Eftir á að fara yfir efnahagsleg rök í málinu en einnig þarf að fara yfir stóru náttúrufarslegu málin.

Áður en ég held lengra vil ég koma inn á þau atriði sem meiri hluti iðnn. nefndi sem meginrök fyrir tillögu sinni um að samþykkja áframhaldandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun. Nefndin lagði ríka áherslu á hin efnahagslegu rök. Um þau efast margir. Margir efast um að stóriðjustefna sé sá gullkálfur sem menn halda fyrir íslenskt samfélag. Við skulum átta okkur á því að áður en við fórum í síðustu þrjú stóriðjuverkefni, þ.e. Grundatangaverksmiðju, Norðurál í Hvalfirði og stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, þá gætti hér stöðugleika í efnahagsmálum og að nokkru leyti líka í búsetumálum. Fyrir svo lítið efnahagskerfi sem Ísland er þá er ákaflega hæpið að margra mati, m.a. hafa sérfræðingar fjallað um það, að dæla slíku í efnahagskerfið á skömmum tíma. Þessi aðferð, að nota stóriðju og afleiddar framkvæmdir í virkjunum, er ekki yfir gagnrýni hafin eins og dæmin sanna. Fjórum árum eftir ákvörðun um síðasta stóriðjufasa þá stöndum við Íslendingar frammi fyrir gríðarlegum vanda sem að miklum hluta er vegna þessarar stóruppbyggingar. Það eru þensluáhrifin fyrst og fremst og afleidd áhrif þenslunnar vegna aukins peningamagns í umferð í svo litlu efnahagskerfi. Ég fullyrði að engri þjóð mundi detta í hug að dæla lánsfé í efnahagskerfið í svo miklum mæli sem við höfum gert nú á undanförnum árum.

Hverjar eru afleiðingarnar? Vegna þessa erum að biðja um heildstætt mat á framkvæmdum, lögformlegt umhverfismat, öðruvísi vinnubrögð í þinginu. Við erum ekki að stjórna fyrirtæki. Hér á hv. Alþingi Íslendinga erum við að stjórna samfélagi. Þetta er ekki ísbúð og ekki heldur stjórnarfundur í ísbúð. Við verðum að taka heildstætt á málunum og þegar við tökum ákvarðanir þurfum við að gera okkur grein fyrir afleiðingunum.

Stemmningin var þannig á Íslandi fyrir fjórum til fimm árum að hefðum við átt kost á því að fá eina til tvær stóriðjur í viðbót þá hefðum við sagt já, umyrðalaust. Ein hefði risið á Keilisnesi og magnesíumverksmiðjan helst líka. Bara eins mikið eins og hægt er á stuttum tíma. Þetta var svo gott allt saman. En það er nú öðru nær. Þensluáhrif síðustu innspýtingar stórra framkvæmda eru að koma fram núna. Stóraukinn viðskiptahalli, glymjandi bjöllur úti um allt hagkerfið, sem allir samþykkja, eru afleiðingar þessa í dag. Stórkostleg þensla í einkaneyslu og jafnvel tvöföldun á húsnæðisverði í höfuðborginni. Þetta kemur verst niður á þeim sem síst skyldi og skapar víða vandamál.

Ákvörðun um slíka innspýtingu á þetta svæði hér leiðir ekki síst til gríðarlegra fólksflutninga. Menn sækja í flotið, það er bara lögmál sem allir verða að horfast í augu við. Við erum með á þriðja þúsund manns sem vegna þenslu, uppbyggingarinnar á höfuðborgarsvæðinu, flytja sig um set þangað sem dansinn er stiginn. En er það svona gott fyrir sveitarfélögin hér að taka við þessum fjölda, er þetta svo gott fyrir samfélagið? Afleiddur herkostnaður af þessari stefnu er sennilega tugir milljarða á ári. Borgarstjóri hefur upplýst og margir skrifað um að kostnaður sveitarfélaganna við að taka við fólki út af búferlaflutningum geti verið tíu til tólf milljarðar á hvert þúsund. Eru menn meðvitaðir um þetta þegar þeir slá stóru höggin og þykjast fínir menn að reka stóran bisness? Ég held ekki.

Virðulegi forseti. Ég hef áður gagnrýnt hér úr ræðustól að hið háa Alþingi Íslendinga sé allt of upptekið af gæluverkefnum, uppbyggingu stóriðju o.s.frv. en ekki hinni heildstæðu samfélagsmynd. Við eyðum allt of litlum tíma í það. Ég sem nýr þingmaður hér upplifi það þannig að við séum frekar eins og á stjórnarfundi fyrir fyrirtæki en ekki að við séum að ræða um ramma fyrir samfélagið Ísland.

Það er talað um byggðaleg rök, að þarna sé mikil framkvæmd sem styrkja muni byggðina fyrir austan. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta algjör tálsýn. Miðað við margra reynslu gæti þetta meira að segja snúist í höndunum á mönnum. Þetta gæti orðið til að meiri fækkun verði en annars hefði orðið. Það hafa verið unnar mjög yfirborðslegar áætlanir og álitsgerðir um byggðaþáttinn af hálfu Byggðastofnunar og Nýsis. Þar hafa verið gerðar mjög yfirborðskenndar úttektir á áhrifum þessa á byggðina fyrir austan og mjög almennt orðaðar. Að margra mati, ég deili þeirri skoðun, er ákvörðun um það að byggja stórt orkuver og iðjuver fyrir austan ekki sú vítamínsprauta sem margir halda. Ég hef oft tekið dæmi af Blöndu. Við uppbyggingu Blönduvirkjunar og ákvörðunartöku um að byggja Blöndu voru margir heimamanna glaðir yfir því að fá framkvæmdirnar í sveitarfélagið. Það yrði þvílík vítamínsprauta að fá þessa stóru flottu virkjun.

[14:45]

En hvað gerðist? Jú, nokkur umsetning var á svæðinu meðan verið var að byggja og vörubílstjórar og iðnfyrirtæki fengu vinnu en að langmestu leyti var aðflutt vinnuafl. En hvernig er staðan núna fyrir þetta svæði? Þetta er mesta láglaunasvæði á landinu. Þaðan flytur flest fólk í dag og virkjunin hefur alls ekki skilað neinu sem heitið getur fyrir þetta svæði. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að það eru tvö störf á svæðinu sem eru tengd virkjuninni, annað á Blönduósi og hitt á Sauðárkróki, en síðan eru sex manns búsettir í Reykjavík og virkjuninni allri stjórnað með rafrænum hætti frá Geithálsi.

Svona getur mönnum skjátlast þegar þeir tala um afleiðingu framkvæmda fyrir byggðarlagið. Ég er ansi hræddur um að það sé alvarlega vanmetið þegar menn tala um þau 200--220 störf sem skapist í þessu álveri og þar af er verið að tala um u.þ.b. 80 hálaunastörf, ég er ansi hræddur um það að mönnum hafi yfirsést með marga þætti.

Það hefur t.d. ekkert verið kannað meðal Austfirðinga sem eru brottfluttir hve margir mundu geta hugsað sér að flytja heim aftur ef þeir fengju vinnu í álveri. Það hefur heldur ekkert verið kannað sérstaklega hjá starfsfólki fyrirtækjanna fyrir austan sem nú er í fullri vinnu --- og ég vil árétta að fyrir austan er ekkert atvinnuleysi, þangað er flutt inn fólk frá útlöndum, frá Rússlandi og Póllandi --- hvaða fólk mundi hugsanlega sækja um vinnu í álveri, hvort það væru tæknimenn frystihúsanna eða tæknimenn bræðslnanna o.s.frv. Þetta hefur ekki verið kannað.

Fólk í hálaunastörfum í stóriðju af þessu tagi þarf ekkert endilega að búa á Austurlandi. Og hinar dreifðu byggðir, jafnvel stærri byggðakjarnar og stærri búsetusvæði en Austfirðir eiga í vandræðum með að fá og halda menntuðu fólki á staðnum, hámenntuðu fólki, vegna hins svokallaða makavanda. Það er oft þannig í rauninni að þeir sem eru langskólagengnir hafa oft og tíðum fundið sér maka sem hefur einhverja skólagráðu sem er hliðstæð því sem makinn hefur farið í gegnum, þó að það sé í annarri grein. Og norður á Akureyri eru viss vandamál í gangi í sambandi við það að makar prófessora, t.d. við háskóla, geta ekki fengið vinnu við sitt hæfi og þurfa því að hafa heimili í Reykjavík. Slík áhrif eru stórkostlega ofmetin að mínu mati og það þarf að fara í gegnum þennan þátt mála.

Síðan er annar misskilningur á ferðinni, sem mér finnst vera gegnumgangandi, að uppbygging sjálfs orkuversins fyrir austan og síðan framkvæmdanna við álverið sem afleiðing fer fyrst og fremst í gegnum efnahagskerfið á höfuðborgarsvæðinu. Menn hafa ekkert verið að leyna því að þetta er í rauninni ekkert annað en aðferð til þess að viðhalda þenslunni og innspýtingu á lánsfé þannig að ballið í efnahagsmálunum geti haldið áfram enn um sinn. Menn hafa sagt hér fullum fetum, og hæstv. forsrh. dró ekki dul á það, að þegar framkvæmdir færu af stað í Fljótsdal og síðan uppbygging álversins í kjölfarið, væri það alveg á réttum punkti miðað við hvernig þenslan hefði verið á síðustu árum og innspýting á erlendu fé.

Það er vissulega hægt að halda ballinu áfram enn um stund en hvenær ætla menn að horfast í augu við það að hér verður að jafna hlutina og fara að reka samfélag sem er vænt fyrir fólk en ekki bara fyrir þá sem vilja göslast í stórum höggum í iðnaðaruppbyggingu? Þetta er meginmálið. Það er meginmál hvenær við ætlum að horfast í augu við það að við erum að höggva allt of stórt með innspýtingu á lánsfé á allt of stuttum tíma. Kannski getur það gengið í fjögur, fimm, sex ár í viðbót ef menn hella sér út í þetta. En ætla menn þá að taka á vandamálinu og horfast í augu við raunveruleikann 2005 eða 2006? Þetta heldur ekki áfram svona. Það er tálsýn ef menn halda að þeir þurfi ekki að horfast í augu við þetta og samfélagið verður að átta sig á því.

Þetta eru nákvæmlega hliðstæð dæmi, sem við erum komin inn í núna, og hjá manni sem hefur leiðst inn í að vinna til klukkan tólf á kvöldin til þess að redda sér aukaeyðslufé. Það er stórátak að vinda ofan af því ef menn vilja lifa hátt. Það er stórátak. En menn verða oftast að horfast í augu við að gera það annaðhvort vegna utanaðkomandi áhrifa eða þá vegna þess að menn endast ekki til þess.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á lífsstíl og lífssýn sem er stórmál. Það þarf ekki alltaf að snúa út úr, þegar talað er um að staldra við eins og ég hef oft gert, á þann hátt að menn vilji fara til baka í kúskinnskó. Þannig tala framkvæmdaraðilarnir og segja að við viljum fara að tína fjallagrös og ganga í kúskinnskóm. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um nýja sýn, ný viðhorf, minnkun á eyðslu og bruðli og ágangi á náttúruna. Og við höfum öll skrifað undir þetta. Staðardagskrá 21, sem er núna í gangi hjá mörgum sveitarfélögum og þeim er raunar uppálagt að fara öll í gang með það, byggir á þessari hugsun. Á það að líðast að menn slái um sig hér í ræðustóli og segi: Við erum neyslusamfélag, við erum eyðslusöm, það er okkar eðli. Ég kaupi ekki slík rök og við megum ekki halda umræðunni áfram í þessum dúr. Þetta kemur fram hjá meiri hlutanum.

Virðulegi forseti. Það sem stendur mest upp úr hjá meiri hlutanum er að hér er sýndarmennska í gangi. Raunar hefur maður á tilfinningunni að það að lúra yfir álitum, ritum vísindamanna o.s.frv. hafi haft harla lítinn tilgang vegna þess að hér er beitt hörðu meirihlutavaldi. Og menn ætluðu sér fyrir fram að fara í þetta. Það er mín upplifun á málinu. Þess vegna virkar það sem sýndarmennska að setja fram þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun og það er sýndarmennska að fara efnislega ofan í hana og vera búinn að eyða hundruðum klukkutíma í það þegar maður upplifir það að aldrei stóð til í rauninni að hlusta á nokkurn mann. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það stóð aldrei til að hlusta á nokkurn mann, hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna. (Gripið fram í: Bara hlusta.) (Gripið fram í: Framsóknarmanna.)

Það sýnir best að ekki stóð til að hlusta á nokkurn mann þegar málum var stillt þannig upp að bréflegri ósk okkar um að fá málsaðilann, sem rekur svo mikið á eftir, til að koma á fund var neitað. Það er nú ekki nema tveggja og hálfs tíma flug milli Óslóar og Keflavíkur og mjög auðvelt hefði verið að verða við því. Og sérstaklega átti að verða við því þegar það voru meginrök allra aðila að keyra yrði málið áfram fyrir jól vegna þess að Norsk Hydro væri svo óþolinmótt að það gæti ekki beðið.

Í kjölfarið á þessari neitun komu síðan yfirlýsingar frá Norsk Hydro um að þeir ætli nú hvort eð er sjálfir með sitt dæmi, með sinn enda, að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Að vísu orða þeir það svo að þeir ætli að fara í frekara mat og það verður gert, virðulegi forseti. Og niðurstaðan er sú að að öllum líkindum er Norsk Hydro ekkert að pressa svo mikið. Niðurstaðan væri e.t.v. sú, ef við hefðum fengið að hitta þá, að þeir hefðu mjög vel getað sætt sig við að við færum í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Það er nú bara staðreyndin. En meiri hlutinn ætlaði aldrei að hlusta á þetta vegna þess að honum var svo mikið í mun.

Ég er hér með langa kafla um náttúrufarsþáttinn og rökstuðninginn fyrir því að við eigum ekki að eyðileggja Eyjabakka, og ætla ég að koma að honum í seinni ræðu minni. Frá mínum bæjardyrum séð erum við varla komin að því að þurfa að tala um að sökkva Eyjabökkum vegna þess að stóriðjustefnan sjálf, stóriðjan sem Eyjabakkar eiga að næra, --- ég held að ef við færum af alvöru ofan í hvernig sú umræða hefur þjónað okkur þá væri málið fellt þar en ekki út frá náttúruþættinum. Og samkvæmt mati á umhverfisáhrifum framkvæmda þá á náttúrlega að fara í þá umræðu fyrst, þ.e. hvort þetta henti samfélaginu. Eftir að hafa skoðað málin er ég sannfærður um að við erum að vaða reyk. Þetta eru miðstýrð brögð, þetta eru miðstýrðar aðferðir þeirra manna sem eru að selja núna öll ríkisfyrirtæki en eru raunar að beita nákvæmlega sömu vinnubrögðum í atvinnuuppbyggingu hér á landi og þeir gagnrýndu Ráðstjórnarríkin fyrir að gera, Stalín og fleiri. Í raun og veru er dæmið þannig. Og þar eigum við e.t.v. að staldra við í þessu máli.

Halda menn að við værum að fjalla hér um virkjun Fljótsdals fyrir álver ef opinberir aðilar hefðu ekki komið að því? Þetta er framkallað í iðnrn. af her manna í stofnunum ríkisins, af her manna sem hefur það hlutverk og hafa sérhæft sig í gegnum árin vera sérfræðingar í að þefa uppi álver. Við erum búnir að standa í þessu í 15 ár. Þetta eru röng vinnubrögð. Og halda það síðan og stilla hlutum þannig upp hér í þinginu að það gerist ekkert annað í samfélaginu, ef við förum ekki í álver, er þvílík forheimska að það hálfa væri nóg. Halda menn að efnahagskerfið bara stoppi? Það er nú aldeilis ekki rétt.

Og ágætu þingmenn, heiðvirtu þingmenn.

(Forseti (GuðjG): Ávarpa forseta.)

Virðulegi forseti. Staðan er sú að meiri hlutinn hefur talað með skakkt bros, vinsemdarbros á vör um ferðaþjónustuna. Menn ætli nú allir í ferðaþjónustu, er sagt. Það var ekki fyrr en farið var að hreyfa því á allra síðustu mánuðum að aukningin í ferðaþjónustunni í fyrra er að gefa okkur 6 milljarða í útlendum peningum. 60% af raforkusölu Landsvirkjunar til stóriðju gaf okkur 3 milljarða, helminginn af aukningunni í ferðaþjónustunni. Og menn skulu ekki halda að það séu ekki margir aðrir möguleikar ef við víkjum frá stóriðjustefnunni.

Allar aðrar þjóðir og ekki síst Ameríkanar viðurkenna og til er bunki af gögnum um það að litlu og millistóru fyrirtækin standa fyrir aukningunni á hagvextinum í samfélaginu. Það er staðreynd og hefur komið fram hér meira að segja í þinginu mörgum sinnum. Og það er á þeim grunni sem við eigum að ræða þessi mál.

Við höfum líka séð út yfir heimsbyggðina að þeir sem tileinka sér grunnvinnslu, þeir sem vaða í hráefni, eiga nóg af hráefni til ráðstöfunar, eru ekki þeir sem efnast mest. Það er nú bara þannig. Það eru yfirleitt þau svæði, meira að segja innan Bandaríkjanna sem hafa minnst hráefni, sem eru mest efnuð. Það er hugvit mannanna sem býr til auð. Og þetta er spurning um það í hvernig farveg hið háa Alþingi setur þennan straum. (Gripið fram í: Tillaga vinstri grænna er um að hætta að fiska.) Þetta er stórmál og ekki aðhlátursefni, virðulegi flokksformaður framsóknar. (Gripið fram í: Þingflokksformaður.) Þingflokksformaður framsóknar, fyrirgefið, ég ætlaði nú ekki að gefa honum of mikla vegtyllu. Svona hanga málin saman í mínum huga.

[15:00]

Ég tel t.d., og það hefur verið skrifað um það núna á mörgum undanförnum mánuðum, að vegna magnmennskuhugsunarinnar séum við ekki með það verð fyrir fiskafurðirnar sem bæri. Við erum að veiða 1,6--2 millj. tonn af fiski á ári. Danir veiða svipað magn en kannski óhagstæðari hlutföll, þeir eru með um 2 milljónir tonna. Danir fá virðisauka fyrir magn sitt sem nemur um 140--150 milljörðum, það fer eftir árum. Ef við einsettum okkur að fara í virðisauka af því tagi sem þar á sér stað með þróun vinnslunnar á hráefninu er það ærin stóriðja til margra ára og slík vinna er í gangi. En ef menn sitja úti um land og bíða alltaf eftir því að ,,þeir`` komi með eitthvað til þess að skaffa okkur, og látið þið mig vita það, ég þekki svanasönginn því að þessi söngur var í Eyjafirði og á Akureyri í tólf ár. Ætla ,,þeir`` ekki að fara að koma með álverið? Menn gera ekkert á meðan ef þeir eiga von á því innan sex til átta mánaða. En meginmálið er að stilla sig saman til þess að vinna úr þeim afurðum sem við eigum.

Ég er hissa á hv. þm. Hjálmari Árnasyni, formanni nefndarinnar, vegna þess að hann hefur verið mikið í fjölmiðlum vegna þróunar á íslensku eldsneyti til orkugjafar. Það er stórmál fyrir okkur hvernig við nýtum auðlindirnar. Þær eru ekki ótakmarkaðar. Menn verða að átta sig á því að 480 þúsund tonna álver á Reyðarfirði, það er tvöföldun á orkuframleiðslu landsins sem þarf til þess að fóðra það.

Hvað getum við hugsað okkur annað? Er það ekki hugsunin, hv. þm. Hjálmar Árnason, að hægt er að fara hina leiðina og það er hægt að spara í staðinn fyrir að eyða? Þessi umræða er algjörlega eftir í þinginu. Við eigum auðvitað að stefna að því að spara ef við sjáum t.d. fram á að hægt sé að þróa innlenda orkugjafa til að nota á bílana og ég tala nú ekki togaraflotann. Það er ekkert vafamál. En ef við förum í 480 þús. tonna álver á Reyðarfirði og notum til þess þá orku sem til þarf norðan Vatnajökuls erum við orðin uppiskroppa með orku sem við þyrftum að nota til annarra hluta í sparnaðarskyni. Hver er staðan í orkumálunum í dag? Er hún svo björt eða er hún svo góð? Við höldum það alltaf. Við erum ekkert með ódýrari orku en dísilkynt orka í Danmörku. Hér eru ótrúlegir prísar í gangi og það hefur ekkert verið sannað í umræðunni að við séum ekki að greiða mismun til stóriðjunnar með okkar perum. Við erum að láta stóriðjuna hafa orku á verði undir einni krónu en Rafmagnsveitur ríkisins borga um 3,20--3,30 á kílóvattstundina til þess að keyra orku inn á allt dreifbýliskerfið.

Hvers konar búskapur er þetta? Er ekki eitthvað að? Það vill enginn upplýsa það. En ég tel mig vita af hverju enginn vill upplýsa það. Það er vegna þess að við erum að borga með þessu. Við erum að nota afskrifaðar virkjanir og jöfnun á því með því að borga með þessu. Af hverju er sú gjörsamlega óásættanlega staða nú að stór fyrirtæki í landinu eru að koma sér upp svartolíukötlum til þess að drífa starfsemina? Dæmi eru um það. Það eru líka dæmi um ný fyrirtæki sem eru nú allnærri Þjórsárvirkjunum sem fá ekki orku nema á einhverju uppsprengdu verði. Loðnubræðslurnar eru að borga 5 kr. og upp í 8 kr. á álagstímum á meðan stóriðjan borgar 98 aura.

Virðulegi forseti. Ég hef farið vítt og breitt í framsögu minni. Ég ætla að fara meira efnislega og reyna að færa mig nær Fljótsdalsvirkjunarmálinu í seinni ræðu minni. En ég tel mjög mikilvægt að fara yfir þetta vítt og breitt. Sérstaklega vegna þess að ég held að menn hafi ekki lagt nógu mikla vinnu í að ræða stóriðjustefnuna. Ég held að við séum föst í henni og það sé vandamálið okkar. Við skulum átta okkur á því að það er ekki eins og ekki séu stór öfl á bak við sjoppuna. Hvað halda menn að sé af peningaöflum sem þurfa blátt áfram að nærast á áframhaldi þessara framkvæmda? Það er ekki ónýtt að vera í innflutningi á túrbínum. Það er ekki ónýtt að vera með arkitekta- eða verkfræðistofu. Það er ekki ónýtt að flytja inn efni af ýmsu tagi hvort sem það er stál eða annað. Það eru gríðarlegir hagsmunir í gangi sem keyra áfram, jafnvel rangar ákvarðanir. Við vitum þetta öll. En við hv. þm. eigum ekki að láta bjóða okkur að falla í þá gryfju að hafa ekki heildaryfirsýn. Ég get ekki fyrir mína parta stutt hluti sem ég veit út frá athugunum mínum og gögnum að eru að naga mig í hælana, það nagar af manni hinn endann. Það er ekki hægt að vinna á þennan hátt. Svona heildstæð vinna fer ekki fram hér. Það er flumbrugangur sem á sér stað.

Ég hef að vissu leyti skýringu á því af hverju við vinnum svona. Það er vegna þess að við erum náttúrlega nýfrjáls þjóð og stjórnsýslulega höfum við kannski aldrei komist út úr því að það var Íslandsráðuneytið sem var flutt hingað á Austurvöll. Við erum svo ótrúlega samþætt framkvæmdarvaldinu og það er kannski þess vegna sem ég upplifi hv. Alþingi sem eins konar stjórnarfund fyrir fyrirtækið Ísland en ekki ,,forum`` fyrir samfélagslega umræðu þar sem við setjum leikreglur. Það er miður. Mér finnst það vera hart að á árinu 1999 skulum við ekki geta hafið upp þá umræðu að setja samfélagið allt í samhengi á þennan hátt sem ég tel bráðnauðsynlegt í þessu dæmi.

Ég vil því leggja sérstaka áherslu á þetta vegna þess að hið lögformlega mat framkvæmda er náttúrlega bara verkfæri til að setja hlutina í svona heildstæðan búning. Það er hið lögformlega mat sem fer fram. Þess vegna eigum við að kappkosta að gera það. Það er alveg ótrúlegt að menn skuli ekki vilja vanda sig þegar við erum að fara út í mestu framkvæmd Íslandssögunnar, kannski nokkru sinni. Við erum að tala um framkvæmd kannski á þriðja hundrað milljarða þegar allt dæmið er komið undir. Hvers vegna sitjum við eða stöndum hér og segjum: ja, við ætlum nú bara að hleypa þessu í gang af því að okkur liggur svo á með þetta en allt annað sem við gerum fer í lögformlegt umhverfismat. Þetta stangast hræðilega á, virðulegi forseti. Það er einmitt þessi punktur með lögformlega umhverfismatið. Þjóðin skiptist mjög í tvo hópa í þessu máli eins og menn vita. Af hverju í ósköpunum á að sverfa til stáls eins og hér er látið gera? Af hverju fara menn ekki þá leið sem lög gera ráð fyrir og menn geta sætt sig við? Að vísu túlka menn hlutina þannig að þeir séu ekki bundnir af þessum lögum. En af hverju ekki, þó menn væru ekki bundnir af lögunum, að taka bara ákvörðun um að láta þetta fara í lögformlegt umhverfismat þrátt fyrir allt þegar menn vita hvernig landið liggur? Það er stóra málið.

Síðan er rætt um skaðabótakröfur sem eitthvert stórmál. Það er ekki lengra á milli virkjunaraðilans og okkar hér en það að við eigum þetta nú að langmestu leyti, ríkið og síðan tvö stærstu sveitarfélögin. Það er ekki eins og verið sé að tala við eða semja við einhvern alls óskyldan aðila. Ég get ekki sætt mig við þá framsetningu að það þurfi að steyta á því. Auðvitað er hægt að semja um alla hluti í nýju ljósi.

Virðulegi forseti. Ég hef talað fyrst og fremst út frá grunninum í þessu en ég hef sem sagt skrifað undir nál. sem eini fulltrúinn sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð á í iðnn. Ég ætla núna að fara í gegnum niðurlag álitsins, ég ætla að fara í gegnum álitið efnislega í næstu ræðu minni.

Af framangreindum rökum sem ég hef leitt fram er ljóst að heildstæðu mati á framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun og mati á afleiddum framkvæmdum er verulega ábótavant. 1. minni hluti leggur því til að tillaga til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun verði felld og fram fari lögformlegt umhverfismat á öllum þáttum fyrirhugaðra framkvæmda. Vísað er til tillögu til þingsályktunar sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði fram á 125. löggjafarþingi, þskj. 7, 7. mál, um mat á lögformlegum umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

Ég ætla aðeins að nefna áður en ég stíg úr ræðustóli, virðulegi forseti, þessar tvær till. til þál. Það er um stofnun Snæfellsþjóðgarðs og um sjálfbæra orkustefnu. Mér er í raun og veru misboðið að þær þáltill. skuli ekki hafa verið afgreiddar á undan þessari tillögu. Ég tel það grundvallaratriði vegna þess að hér er verið að leggja til aðra landnotkun og öðruvísi nýtingu orkunnar sem framleidd er í landinu. Það styrkir mann í því mati að það hafi aldrei staðið til að hlusta á nokkurn mann og það skipti í sjálfu sér ekki máli hvað við sem höfum öðruvísi sýn erum að hugsa um í þessu sambandi varðandi notkun orkunnar sem við erum að framleiða hér. Það er nefnilega algjör misskilningur eins og stjórnarmeirihlutinn hefur verið að reyna að halda fram að við séum andstæðingar þess að nýta orkuna og við viljum friða alla hluti. Þetta snýst um átök um það hvernig á að fara í hlutina og þetta eru nú engin smámál. En ég tek eftir því, virðulegi forseti, að hér eru svo sem ekki margir þingmenn viðstaddir í dag. Það voru mjög fáir frá stjórnarflokkunum. Ég hef tekið eftir að það er kannski miklu meira spennandi að sitja þingfundi og hlusta á málflutning þegar verið er að tala um 1,5 upp í 10 millj. en þegar verið er að tala um stjarnfræðilega peningaupphæðir sem menn eiga kannski erfitt með að hafa yfirlit yfir. Þetta er að vissu leyti áhyggjuefni líka.

Ætli það sé ekki þannig, hæstv. forseti, að við ætlum að viðhafa eina ferðina enn svona Íslendingsháttinn á hlutunum og kasta okkur út í það og sjá hvernig gengur. Þetta eru ekki vinnubrögð sem duga þegar ný öld er rétt handan við þröskuldinn. Það er ekki bjóðandi að kasta okkur út í þetta stóra dæmi. Það getur verið svo afgerandi fyrir íslenska þjóð til framtíðar litið ef við stígum feilspor að við höfum okkur aldrei upp úr því ef við gerum þvílík efnahagsleg mistök að við ráðum ekki við það.

Að svo mæltu lýk ég máli mínu, virðulegi forseti.