Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:08:22 (5988)

2001-03-26 18:08:22# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að stofnfjáreigendur eigi að fara með þetta fé, þeir eigi að hirða um það og það sé í andstöðu við það að þetta sé fé án hirðis. Það er ekki rétt vegna þess að hagsmunir þeirra af þessu fé eru aðrir en að ná inn arði. Hagsmunir þeirra eru ekki þeir sömu og hjá hluthafa sem vill fá arð af fé sínu heldur geta hagsmunirnir falist í því að fá að stjórna, fá að ráða yfir fénu á annan hátt, fá arð út úr því með öðrum hætti, með óeðilegum hætti.

Síðan er spurning hvað gerist í samningum við stjórn. Ég benti á það áðan að stjórnin verður að samþykkja framsal á hlutum. Þar af leiðandi verður stjórnin á þeim tímapunkti áður en breytt verður í hlutafélag afskaplega valdamikil. Hún hefur þetta allt í hendi sér. Hún gæti t.d. heimilað að einhver stór aðili keypti alla hluthafana út á mjög háu verði og þá er spurningin, ég þori varla að segja það: Hvað borgar hann mikið til stjórnarinnar?

Síðan er spurning um að finna eigendur. Það er rétt. Að sjálfsögðu mætti fara og athuga hvort líknarfélög og menningarfélög, þess vegna Óperan eða Leikfélag Reykjavíkur eða Rauði krossinn eða eitthvað slíkt eða Hjálparstofnun kirkjunnar, eignuðust þennan hlut sem við erum í vandræðum með að finna eigendur að.

Varðandi dreifða eignaraðild og alla þá umræðu sem hefur undanfarið verið um það, þá er það hárrétt að þetta frv. er í rökrænni mótsögn við þá umræðu því að hér ætla menn að láta einn aðila eignast 95% ef honum sýnist svo.