Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:37:45 (8022)

2001-05-17 20:37:45# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þau erindi sem borin voru upp við mig sem samgrh. í sambandi við póstþjónustu, sem er fullkomið aukaatriði í þessu öllu saman, umræðunni um Símann sem fram fer, voru borin upp við mig í ráðuneytinu og ég gaf þau svör sem ég taldi eðlilegt að gefa þar. Í framhaldi af því var síðan gert ráð fyrir því og óskað eftir því að Póst- og fjarskiptastofnun færi yfir þetta mál og hv. þm. gerði grein fyrir því með hvaða hætti það er gert. Aðalatriðið í málinu hlýtur að vera það sem Póst- og fjarskiptastofnun skoðar: Er fullnægjandi þjónusta til staðar? Og það er það sem Fjarskiptastofnun mun gera og er ætlað að gera lögum samkvæmt, samkvæmt Símanum. Fjarskiptastofnun á að standa fyrir aðhaldi og aðgerðum til þess að tryggja samkeppni á þessum markaði og við treystum mjög á að svo verði, enda hef ég ekki heyrt að hafðar hafi verið uppi málefnalegar efasemdir af hálfu þingmanna Vinstri grænna um það, nema þessi tilraun til þess að tengja það póstþjónustu í landinu á gjörsamlega röngum forsendum.

En aðeins varðandi Símann. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir mikið úr miklum arði og það er rétt. Síminn hefur verið vel rekinn og þess vegna má búast við því að gott verð fáist fyrir þetta fyrirtæki. Við erum að gera þær breytingar að við erum að færa eign okkar, mikla eign okkar í Símanum sem hefur gefið arð, í önnur verkefni á vegum ríkisins sem við gerum ráð fyrir að gefi arð þannig að við erum að færa eign úr einu sviði á annað til þess að standa að uppbyggingu og eflingu þessa samfélags, m.a. með því að lækka skuldir og standa að samgöngumannvirkjum og öðru sem hefur verið rækilega skýrt út.