Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:42:40 (8024)

2001-05-17 20:42:40# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:42]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli hv. þm. Ögmundar Jónassonar á að pósthúsin, Íslandspóstur, er 100% í eigu ríkisins. Þar af leiðandi hlýt ég samkvæmt þeim rökum sem hafa verið færð hér fram um að grunnnetið verði að vera í eigu ríkisins, að álykta sem svo að grunnnet Íslandspósts, pósthúsin og allt sem því tengist, hlýtur að vera pottþétt. Fyrst þetta er í eigu ríkisins hlýtur það grunnnet sem Pósturinn myndar með pósthúsum og fleiru að vera pottþétt.

Síðan er hitt að í fyrri hluta ræðu hv. þm. vék hann að því að samkeppnin skilaði ekki hagkvæmu verði til neytenda. Hann var að reyna að vísa í önnur lönd þar sem ríkissímafyrirtæki hefðu verið einkavædd. Ég er með töflu frá Þýskalandi. Þetta er reyndar ekki alveg sambærilegt og hér þar sem markaðurinn er miklu stærri. Engu að síður er mjög forvitnilegt að sjá hve mikið hefur breyst í talsímakerfinu á þeim fjórum árum síðan frelsi var innleitt í Þýskalandi eða frá árinu 1997. Til að mynda sé ég að mínútan kostaði 24 kr. yfir daginn árið 1997. Þá var hægt að fá hana á 24 kr. En hún er komin núna niður í u.þ.b. 3 kr. Næturtaxtinn var 1997 rúmlega 10 kr. En í dag er hann tæplega 2 kr. Markaðurinn þarna eða verðlagning farsímafyrirtækja eða fjarskiptafyrirtækja í Þýskalandi hefur á þessu tímabili 1997--2001 í Þýskalandi lækkað allt niður í 92%, segja þeir. Það eru 180 fjarskiptafyrirtæki sem reka þar talsímaviðskipti.