2001-05-18 00:31:18# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[24:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Senn lýkur þessari 2. umr. um sölu á Landssímanum. Umræðan hefur verið fróðleg um margt. Fátt hefur komið á óvart. Sjálfstfl. hefur ítrekað ást sína og trú á markaðshyggjunni. Úthald framsóknarmanna var búið einhvern tíma um miðjan dag eða fyrir kvöldmat og hafa þeir ekki sést hér síðan. En sjálfstæðismenn, sem stýra för í þessu efni, hafa haft sig nokkuð í frammi, þar á meðal hæstv. forseti þingsins, fyrrv. samgrh., en hann var einn þeirra í Sjálfstfl. á sínum tíma sem hvatti til varfærni í þessum efnum. Og þótt hann hefði forgöngu um að gera Póst og síma að hlutafélagi lýsti hann því yfir að stofnunin yrði ekki seld á því kjörtímabili og reyndar var málatilbúnaðurinn allur á þann veg að ekki stæði til að selja Símann.

Síðan breyttust viðhorfin. Hæstv. forseti og fyrrv. hæstv. samgrh. sagði að enda þótt hlutir í Símanum yrðu seldir ætti ekki að ganga lengra en svo að ríkið ætti þar meirihlutaeign. Núna stígur hæstv. forseti Alþingis í ræðustól og segir að markaðurinn, markaðslögmálin eigi að vera allsráðandi einnig á þessu sviði.

Ég hef ekkert á móti því að menn skipti um skoðun og virði það fyllilega þegar einstaklingar skipta um skoðun og það á jafnt við um hæstv. forseta Alþingis, fyrrv. hæstv. samgrh., sem aðra menn. Það sem verra er er þegar sjónarmiðin og skoðanirnar breytast í þá átt sem við erum að verða vitni að nú. Það sem mér finnst dapurlegast í þessu máli öllu er hve slaka hagsmunagæslumenn íslenska þjóðin á í þeirri ríkisstjórn sem fer með völdin í landinu. Hún ætlar að afsala þjóðinni gullmola, gullgerðarvél, stofnun sem fært hefur ríkissjóði 20 milljarða á undangengnum áratugum, 20 þús. millj. kr. Og enn er stofnunin aflögufær þrátt fyrir þetta.

Hagnaður á árinu 2000 nam 6.500 millj. kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði og tekjur frá árinu áður höfðu þá hækkað um 18%. Ríkisstjórnin ætlar að afsala þjóðinni þessari eign og þá er von að menn spyrji: Hvað fáum við í staðinn? Jú, við fáum söluandvirðið. En það er skammgóður vermir. Þar er komið að trúarbrögðunum. Menn telja að með því að selja Símann sé búið í haginn fyrir samkeppni og hinn frjálsi markaður og samkeppnin á þessu sviði muni færa notendum þessarar þjónustu hagstæðara verð og betri þjónustu.

Menn hafa miklar efasemdir um að þetta sé rétt. Fram kom í máli samkeppnisaðila Landssímans, sem m.a. komu fyrir samgn. þingsins, að þeir óttuðust að verið væri að selja einokun og einokun sem væri færð samkeppnisaðila í hendur með þeim hætti væri betur komin í ríkisfyrirtæki en í slíkri einkavæddri einokun. Þetta hefur einnig komið fram af hálfu Samkeppnisstofnunar í þeim gögnum sem frá henni hafa komið, þ.e. efasemdir um að þau markmið sem menn vilja ná með sölunni á Símanum muni raunverulega ná fram að ganga. Það er að gerast tvennt í senn. Það er verið að afsala okkur mjög dýrmætri eign án þess að við fáum nokkuð í staðinn.

Menn spyrja með nokkrum þjósti hvort þetta muni ekki reynast eftirsóknarverður fjárfestingarkostur á markaði fyrir lífeyrissjóði og aðra aðila. Ég efast ekkert um það. En við höfum lagt áherslu á að fyrst og fremst sé þetta eftirsóknarverður kostur fyrir núverandi eiganda, íslensku þjóðina.

Varðandi staðhæfingar um að þegar samkeppni ríki og vaxandi samkeppni á þessum markaði, þá skulu menn varast að gera of mikið úr því. Þannig kemur fram í áliti meiri hluta samgn. að núna búi fyrirtæki við mismunandi aðstæður, annars vegar á þéttbýlissvæðinu og hins vegar í dreifbýlinu og menn óttast að þessi munur, þessi gjá muni breikka og stækka og dýpka. Í framhaldinu velta menn vöngum yfir því til hvaða ráða hægt sé að grípa. Í meirihlutaálitinu er fjallað um þann kost t.d. að styrkja fyrirtæki á landsbyggðinni. Einnig er bent á að í fjarskiptalögum sé búið svo um hnúta að ríkið geti sinnt verkefnum til almannaheilla, eins og segir í álitsgerðinni, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum og ætla má að skili ekki arði. Þetta á að vera hlutverk skattborgarans sem sagt. Menn gefa gullgerðarvélina frá sér en ætla skattborgaranum að sinna þessum verkefnum. Ég hef sagt það áður við umræðuna að ég hef efasemdir um að alvara sé að baki yfirlýsingum um að menn ætli raunverulega að styrkja fyrirtæki á landsbyggðinni vegna þess að slík fyrirheit hafa verið uppi án þess að vera efnd og á hitt er einnig að líta að rannsóknarrétturinn í Brussel, ESA-dómstóllinn, hefur gert athugasemdir við slíkar styrkveitingar. Við búum því miður við svo huglausa ríkisstjórn og svo huglausan stjórnarmeirihluta að hann þorir ekki einu sinni að láta á það reyna gagnvart dómurunum í Brussel, gagnvart evrópska rannsóknarréttinum, hvort Íslendingar megi smíða varðskip á Íslandi. Það kom athugasemd frá ESA-dómstólnum. Gerðir voru út menn á fund ríkisstjórnarinnar til að finna að því við hana að hún ætlaði að styrkja íslenskan skipaiðnað og fyrir fáeinum dögum var landslögum breytt til að þóknast rannsóknarráðinu frá Brussel þannig að menn skulu færa sönnur á að einhver alvara sé að baki yfirlýsingum af þessu tagi. En þetta er sem sagt hlutverk ríkisins eftir að það er búið að afsala sér þessari dýrmætu eign.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Mér finnst slæmt til þess að vita að ekki hafi verið leitað til hagsmunasamtaka starfsmanna til að fá álit þeirra. Ég hafði samband við formann Félags íslenskra símamanna í dag og spurði hvort það væri rétt að samtök þeirra hefðu verið sniðgengin, að ekki hefði verið leitað álits Félags íslenskra símamanna og hann vissi ekki til þess að svo hefði verið gert. Hins vegar höfðu fulltrúar starfsmannafélagsins verið kallaðir á fund nefndarinnar. Það er félag sem stjórn stofnunarinnar setti á laggirnar og skráði alla í og menn komast ekki út úr nema með bréflegri uppsögn. En það er allt annar félagsskapur og þeirra álit byggði ekki á neinni samþykkt, ekki neinni umræðu heldur persónulegu áliti tveggja einstaklinga. Þetta finnst mér ekki vera lýðræðisleg eða vönduð vinnubrögð og mér finnst ástæða til að vekja á þessu athygli.

Herra forseti. Ég held að ég ljúki máli mínu nú. Ég gerði grein fyrir sjónarmiðum mínum við umræðuna fyrr í dag en ítreka að ég harma hversu lélega hagsmunagæslumenn þessi þjóð á í ríkisstjórn Íslands.