Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:06:40 (893)

2000-10-30 15:06:40# 126. lþ. 15.1 fundur 61#B einkarekstur í heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Sá orðrómur fer nú hraðbyri um þjóðfélagið að í bígerð sé að koma á fót einkareknu sjúkrahúsi. Mikill áhugi mun vera á slíkum rekstri í ákveðnum hópi fagmanna og nú þegar hefur verið leitað til fjárfesta í þessu skyni þannig að undirbúningur virðist vera í fullum gangi. Reyndar spáðu margir því að sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík mundi hafa í för með sér vaxandi áhuga á einkareknu sjúkrahúsi sem veitti samkeppni og virðist áhuginn greinilega vera fyrir hendi.

Mér er ekki ljóst hver stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er varðandi einkarekstur í heilbrigðiskerfinu almennt og virðist fremur handahófskennt hvernig að slíkum rekstri hefur verið staðið. Einstök mál hafa komið inn á borð í þingsölum, eins og fyrirtækið Öldungur hf. Þau eru gjarnan tengd sparnaði í heilbrigðiskerfinu sem hefur eins og menn vita þann eiginleika að vaxa stöðugt hvað útgjöld varðar.

Herra forseti. Einkarekið sjúkrahús hér á landi mundi óneitanlega vera stefnumarkandi framkvæmd og hafa mikil áhrif á þróunina á þeim sjúkrahúsum sem hér eru rekin fyrir. Það er eðlileg og sjálfsögð krafa að ríkisstjórnin gefi upp skýra stefnumótun um hvert hún ætlar að fara varðandi slíkan rekstur. Því spyr ég hæstv. heilbrrh.:

Telur ráðherra koma til greina að veita starfsleyfi fyrir einkarekið sjúkrahús?

Telur ráðherrann slíkan sjúkrahússrekstur geta samrýmst stefnu ríkisstjórnarinnar í rekstri og veitingu heilbrigðisþjónustu?

Hefur ríkisstjórnin yfirleitt mótað sér stefnu varðandi einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og hvernig hún skuli framkvæmd?