Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:08:45 (895)

2000-10-30 15:08:45# 126. lþ. 15.1 fundur 61#B einkarekstur í heilbrigðisþjónustu# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég skil svar hæstv. heilbrrh. þannig að af hálfu heilbrrn. sé ekkert í bígerð varðandi einkarekstur á sjúkrahúsum. Ég vakti hins vegar athygli á því að áhugi væri á slíku í samfélaginu og væntanlega mundi koma upp beiðni um slíkan rekstur. Þess vegna spurði ég ráðherrann hvort til greina kæmi að veita slíkt starfsleyfi og hvort hún teldi slíkan rekstur geta samrýmst stefnu ríkisstjórninnar í rekstri og veitingu heilbrigðisþjónustu.

Ég spurði líka, herra forseti, og ítreka ósk um að ráðherra svari því, hvort ríkisstjórnin hafi mótað sér stefnu varðandi einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og hvernig hún skuli framkvæmd. Ég gagnrýni að slíkt komi alltaf inn á borð til okkar í einstökum málum sem gerir það að verkum að erfitt er að hafa yfirsýn yfir það hvert stefnir í þessum efnum. Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. ráðherra svari nánar þessum hluta fsp. minnar.