Skráning skipa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:14:41 (1206)

2000-11-02 11:14:41# 126. lþ. 19.1 fundur 118. mál: #A skráning skipa# (kaupskip) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum. Með frv. þessu er lagt til að rýmka heimildir til að skrá kaupskip á íslenska skipaskrá.

Samkvæmt gildandi lögum um skráningu skipa er skilyrði skráningar skips á íslenska skipaskrá að það sé í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskra lögaðila sem eiga heimili hér á landi. Ríkisborgarar á Evrópska efnahagssvæðinu hafa sama rétt að þessu leyti. Hér er lagt til að heimilt verði að skrá kaupskip á íslenska skipaskrá þegar sá sem óskar skráningar hefur aðeins umráð skipsins með þurrleigusamningi, þ.e. þegar gerður er samningur um leigu á skipi án áhafnar milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja.

[11:15]

Eins og kunnugt er hefur kaupskipum sem skráð eru á íslenska skipaskrá fækkað mjög á undanförnum árum. Þetta er reyndar ekki eingöngu íslenskt vandamál en slík þróun hefur einnig átt sér stað í nágrannaríkjunum. Danir og Norðmenn hafa sett á fót alþjóðlegar skipaskrár í sínum löndum.

Í samgrn. hafa þessi mál verið til skoðunar í nokkurn tíma og reynt að finna leiðir til þess að gera íslenska skipaskrá vænlegan kost fyrir skipafélög. Árið 1998 skilaði nefnd um málefni kaupskipaútgerða áliti til samgrh., en hún gerði tillögu um frv. til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Efni þess frv. er nú til skoðunar í ráðuneytinu. En skoðanir hagsmunaaðila í því máli eru mjög ólíkar.

Eftir tillögu þeirrar nefndar var lögum um stimpilgjald breytt og heimilað að veita undanþágu frá stimpilgjaldi fyrir stimplun afsals og veðbanda á kaupskip. Með þeirri breytingu var talið að íslenska skipaskráin yrði vænlegri kostur fyrir íslenskar kaupskipaútgerðir.

Þegar lög um skráningu skipa voru sett árið 1985 var ákvæði sem heimilaði nokkurs konar þurrleiguskráningu. Þetta ákvæði var fellt brott með 24. gr. laga nr. 23/1991, um breytingu á lagaákvæðum sem varðar fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl. Í lögskýringargögnum verður hins vegar ekki á nokkurn hátt séð að það hafi verið vilji löggjafans. Því verður að ætla að mistök hafi orðið við framlagningu frv. sem varð að lögum nr. 23/1991 þegar litið er til þess að óbreytt standa önnur ákvæði í lögum um skráningu skipa sem vísa til leigutaka.

Í efni frv. felst annars vegar heimild til að þurrleiguskrá kaupskip á íslenska kaupskipaskrá og frumskráning þess í heimalandi eiganda skipsins eða leigusalans. Leigutaki tekur þá við skipinu og þurrleiguskráir það í íslenska skipaskrá. Við það færist skipið undir íslenska lögsögu og íslensk lög gilda um allan rekstur þess, þar með talin öryggismál, kjaramál, tryggingamál og atvinnuréttindi og það siglir undir íslenskum fána. Með þessu ákvæði geta íslensk skipafélög skráð hér á landi skip sem þau hafa aðeins umráð yfir með leigusamningi og sigla þá slík skip undir íslenskum fána.

Í efni frv. felst hins vegar að kaupskip er frumskráð á íslenska kaupskipaskrá og þurrleiguskráð á erlenda skipaskrá. Með þessu ákvæði geta íslensk skipafélög leigt kaupskip sín tímabundið til erlendra aðila án þess að þau séu tekin af íslenskri skipaskrá og verður skipið þurrleiguskráð erlendis af leigutaka skipsins. Þá gilda lög hins erlenda ríkis um allan rekstur skipsins og það siglir undir fána þess ríkis.

Eins og ég hef nú rakið er markmið þessa frv. að auka svigrúm skipafélaga enn frekar með því að heimila þurrleiguskráningu kaupskipa og bæta þar með starfsskilyrði útgerða og sjómanna.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.