Tollalög

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 17:10:02 (3523)

2000-12-16 17:10:02# 126. lþ. 52.8 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það kann að vera rétt hjá hv. formanni efh.- og viðskn., Vilhjálmi Egilssyni, að verið sé að leggja til breytingar sem séu skynsamlegar og til hagsbóta. Hann bætti því við að þetta væru eðlilegar breytingar og lýðræðislega og eðlilega staðið að verki.

Ég tek undir það að ýmislegt kann að mæla með því að ráðast í þessar breytingar ef málin eru skoðuð þröngt. Hins vegar get ég ekki tekið undir það að hér sé eðlilega og lýðræðislega staðið að verki. Í rauninni er það hrein hneisa fyrir Alþingi hvernig við stöndum að þessu máli eða meiri hluti Alþingis stendur að þessu máli. Það snýst um að leggja embætti ríkistollstjóra niður og sameina þá starfsemi sem þar hefur verið rekin tollstjóraembættinu í Reykjavík. Sannast sagna sé ég ýmislegt sem mælir með þeirri ráðstöfun.

Ég hef borið það undir ýmsa sem til þessara mála þekkja og þar sýnist reyndar sitt hverjum. Sumir sjá kostina við þetta en benda jafnframt á að málið sé ekki svo einfalt að við séum eingöngu að fjalla um sameiningu tveggja stofnana. Við erum að fjalla um breytingu á stjórnsýsluhlutverki, verið er að færa tilteknar skyldur frá einni stofnun til annarrar, í þessu tilliti eftirlitshlutverk frá embætti ríkistollstjóra til fjmrn. Slíkar breytingar á náttúrlega ekki að afgreiða eins og hér er lagt til, að koma með frv. inn á Alþingi fáeinum dögum fyrir þinglok og krefjast þess að það verði afgreitt og samþykkt á mjög skömmum tíma án þess að umsagnaraðilum gefist tóm til að tjá sig um málið. Enda kemur það fram hjá samtökum fólksins sem þarna starfar, bæði hjá Tollvarðafélaginu og einnig hjá trúnaðarmönnum SFR, að þeim finnist mjög óeðlilega staðið að þessu og þeim hafi ekki gefist tími til að fara yfir málið til að gaumgæfa allar hliðar þess og sama á að sjálfsögðu við um Alþingi. Hér mun það gerast, ef þetta gengur eftir, að stjórnarmeirihlutinn muni í blindni fylgja ráðherrum sínum og samþykkja lög sem enginn maður hefur kynnt sér til hlítar eða a.m.k. fáir. Að minnsta kosti vil ég taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að málefnaleg, ítarlega umræða hefur ekki farið fram. Það hefur ekki gerst í efh.- og viðskn. þingsins.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hennar. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta. Ég hef lagt fram ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Margréti Frímannsdóttur tillögu til rökstuddrar dagskrár um að málinu verði hreinlega vísað frá en hér segir:

,,Með vísan til rökstuðnings í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem fram kemur hörð gagnrýni á aðdraganda og meðferð málsins og þess að fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar að ótímabært er að afgreiða málið samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.``