Lánskjaravísitalan

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:07:53 (1398)

2001-11-12 15:07:53# 127. lþ. 26.2 fundur 122#B lánskjaravísitalan# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh. Málið varðar verðtryggingu fjárskuldbindinga og tengist verðbólgu og þenslu. Þetta mál er mikið í umræðu meðal almennings. Fólki bregður í brún þegar lánin þeirra hækka milli mánaða vegna verðskuldbindingarinnar þrátt fyrir að afborganir séu í skilum. Verðbólgan er að koma mörgum í uppnám. Mörg fyrirtæki hafa farið sem kallað er á hausinn og mikið er um nauðungaruppboð hjá einstaklingum og það virðist tengjast þessum málum. Í Lögbirtingi má einnig sjá, t.d. í síðasta blaði, að verið er að stofna yfir 50 ný fyrirtæki og það tengist því að kennitöluskipti eru á ferðinni.

Alþýðusamband Íslands hefur sett fram kröfu um afnám verðtryggingar lána. Ég vitna til þess að 1. þm. Norðurl. e., hæstv. forseti Alþingis hefur rætt nauðsyn þess að breyta viðmiðun verðtryggingar.

Ég gæti hugsað mér að tekið væri mið af gengiskörfu sem byggð er á jeni, evru og dollar. Í ljósi kröfu ASÍ spyr ég hæstv. forsrh.:

Er vinna í gangi varðandi breytingar á verðtryggingum? Telur hæstv. forsrh. ástæðu til að setja þetta mál í sérstaka athugun?