2003-03-15 00:00:49# 128. lþ. 102.19 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv. 18/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[24:00]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum um frv. til laga um Lýðheilsustöð. Við ættum auðvitað öll að fagna þessu frv. Þeir sem starfa innan heilbrigðisþjónustunnar og í forvarnastarfi hafa um langan tíma horft til þess að hér yrði komið á einhverri slíkri miðstöð. En það eru mér mikil vonbrigði að geta ekki stutt þetta heils hugar, og það er eingöngu fyrir það að málið er hreinlega þannig unnið að engin þeirra nefnda og ráða sem eiga að falla undir Lýðheilsustöð er tilbúin til þess að ganga að frv. eins og það er útbúið í dag. Ekki er andstaða gegn því að koma á Lýðheilsustöð eða betri samvinnu á milli þessara nefnda og ráða, og ekki er andstaða gegn því að hafa meiri samhæfingu. En að setja málið þannig fram að það liggur við að verið sé að sníða heila stofnun utan um einn forstjóra er uppbygging sem allir þeir aðilar sem vinna í þessum ráðum og nefndum í dag sem eiga að falla beint undir þetta, geta ekki sætt sig við og vilja fá meiri tíma til að vinna þetta með ráðuneytinu og finna þann farveg að þetta sé ekki lóðrétt uppbygging heldur lárétt og það sé meira jafnræði á milli nefndanna og verksviðið skýrara.

Herra forseti. Það getur vel verið að erfitt verði að finna það form á stöð eins og Lýðheilsustöð þannig að allir verði ánægðir en það hlýtur að vekja okkur öll til umhugsunar að fara af stað með stofnun Lýðheilsustöðvar eða stofnunar þar sem vitað er fyrir fram að andstaða er hjá öllum sem eiga að koma þar að, á mismunandi hátt. Það er ekki gott veganesti inn í gott andrúmsloft, inn í samstöðu og inn í forvarnir að leggja af stað með þeim hætti.

Því kom það fram í niðurlagi nál. sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir mælti fyrir og ég er samflutningsmaður að, nál. minni hluta heilbr.- og trn., en þar segir í lokaorðum:

,,Minni hlutinn er hlynntur hugmynd um stofnun Lýðheilsustöðvar en eins og reifað hefur verið hér að framan er málið allt illa undirbúið og allsendis vanbúið til afgreiðslu frá Alþingi. Það væri því góðu málefni til trafala að samþykkja frumvarpið í þessu formi.``

Herra forseti. Ég held að það væri mikil blessun fyrir verðandi Lýðheilsustöð að fá tíma, þó ekki væri nema fram að sumarþingi eða haustþingi, ef á þarf að halda, að fá þá aðila sem eru í áfengis- og vímuvarnaráði, manneldisráði, slysavarnaráði og tóbaksvarnanefnd til að vinna að frekari framgangi málsins með fulltrúuum í heilbr.- og trmrn. og skilja ekki við málið fyrr en þeir aðilar hafa komið þannig að því að Alþingi geti staðið að stofnun Lýðheilsustöðvar, þannig að undirstaðan og það andrúmsloft sem lagt er upp með sé gott.

Það er alveg ljóst að að mörgu leyti er þetta frv. ekki hugsað alveg til enda. Það er m.a. nokkuð óljóst hvernig landsnefnd um lýðheilsu á að starfa. Einnig er óljóst hvernig þau ráð og nefndir sem ég taldi upp áðan og eiga að verða sérfræðiráð eiga að starfa. En eitt er ljóst að verðandi forstjóri yfir þessari stöð verður nær allsráðandi hvað varðar áherslur og forgangsverkefni og ég tel að fulltrúar í þeim ráðum sem eiga að falla þarna undir óttist það að frumkvæði og áhugi þeirra hjá nefndunum muni dvína við þetta skipulag. Það hefur verið mikil frumkvöðlavinna og eldmóður hjá þessum nefndum en fram kemur sá efi um að þetta sé besta leiðin til að halda þeim glóðum við ef hafa á einn forstjóra yfir þeim með eins mikið vald og tilgreint er í lögunum. Það þarf meira að finna þann anda að þetta sé samráð og efling fyrir þau ráð sem fyrir eru.

Eins þarf að skilgreina betur hvernig Lýðheilsustöðin og sérfræðiráðin eigi að tengjast öllum þeim fjölda félagasamtaka sem vinna í grasrótarvinnunni hér á landi og hvernig efla megi það starf og standa við bakið á þeim. Einnig á eftir að sjá að ef hugmyndin er að efla lýðheilsu þá þarf meira fjármagn inn í þennan málaflokk og það er kannski fyrst og fremst fjármagn sem skortir til þessara ráða í dag til að þau geti starfað samkvæmt lögum, og það bætir ekkert stöðuna að skella þeim öllum undir einn forstjóra inni í einni Lýðheilsustöð, það kemur ekkert meira fjármagn til verkefnanna fyrir það. Og eitt er víst að tóbaksvarnanefnd, sem hefur nokkuð sterkan tekjustofn, óttast það mjög að sá tekjustofn verði notaður til þess að standa undir lýðheilsustarfi á víðara sviði en gert er í dag. Það er hægt að teygja ansi langt í hvað eru tóbaksvarnir og forvarnir og nefndin telur að hún geti ekki verið örugg með að halda því fjármagni alfarið í tóbaksvarnir eins og er í dag.

Ljóst er af umsögn fjmrn. að ekki er ætlað meira fjármagn í sjálfan reksturinn, en tekið er fram að við bætist viðbótarkostnaður vegna launa forstjóra sem nemi 8,3 millj. kr. á ári og 5,7 millj. kr. þurfi til ráðningar fjármálastjóra og 4 millj. kr. til skrifstofurekstrar. Þá væri tímabundinn 5 millj. kr. stofnkostnaður 2003, og það er kannski ekki mikið. En ég horfi þarna á fyrirhuguð laun forstjóra upp á 8,3 millj. kr. á ári og ég tel að til að byrja með gætu þeir fjármunir nýst betur í forvarnastarfið og til eflingar lýðheilsu á meðan verið er að vinna í sátt og samlyndi við þau ráð og nefndir sem eiga að falla þarna undir til að þessir aðilar séu sáttari.

Mér finnst það mikil synd, herra forseti, að reyna ekki að nota tímann núna fram á sumarið, láta ekki starfið niður falla heldur ýta því til hliðar af þessu þingi en vinda sér strax eftir að þingi lýkur í það verkefni að setjast niður með þessum aðilum og endursemja frv. og hætta ekki fyrr en búið er að koma á því formi að allir séu þokkalega sáttir.

Sömuleiðis þarf að fara í að skilgreina aftur starf landlæknisembættisins og heilsugæslunnar en það er landlæknisembættið sem hefur málefni lýðheilsu á sínu borði í dag að svo miklu leyti sem því er sinnt undir formlegum merkjum, annars er það heilsugæslan sem er sú stofnun sem sinnir þessu verki að miklu leyti en það skarast mjög við störf landlæknis. Hér ætti auðvitað að afgreiða tvö frv. á sama tíma, frv. til laga um Lýðheilsustöð eða eitthvað sambærilegt við Lýðheilsustöð, og leggja fram breytingar á lögum um landlæknisembættið því að þetta þarf að skýra betur, a.m.k. að ljóst sé hvert hlutverk hvors aðila er því að skörunin er mikil.

Herra forseti. Það væri hægt að tala hér lengi um þá vankanta sem eru á frv. og það er miður því að ég er alveg viss um að mjög margir sem vinna við heilbrigðisstörf í heilsugæslunni og mjög mörg áhugamannafélög, grasrótarfélög og félög eins og Hjartavernd og tannverndarráð og fleiri, vilja sjá eitthvað svona gerast og þá er alveg synd að standa þannig að því að hafa ekki fólkið með sér í stað þess að hafa þessa hópa í uppnámi út af frv.