2003-03-15 01:04:12# 128. lþ. 102.39 fundur 689. mál: #A skógrækt 2004--2008# þál. 39/128, Frsm. DrH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[25:04]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá landbn. um till. til þál. um skógrækt 2004--2008.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Níels Árna Lund frá landbúnaðarráðuneyti og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands. Þá bárust umsagnir frá Skógrækt ríkisins, Héraðsskógum, Austurlandsskógum, Norðurlandsskógum, Skjólskógum á Vestfjörðum, Suðurlandsskógum, Vesturlandsskógum og Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að á árunum 2004--2008 skuli fjármagn veitt til skógræktar á Íslandi samkvæmt nánari sundurliðun sem kemur fram í tillögugreininni og gerir kleift að gera áætlanir fram í tímann fyrir hvert og eitt skógræktarverkefni.

Fyrir liggur að samstaða er um skiptingu milli landshlutabundinna skógræktarverkefna um fjármagn og leggur nefndin því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Guðjón A. Kristjánsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Guðjón Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nál. rita hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Jónína Bjartmarz, Karl V. Matthíasson, Þuríður Backman og Sigríður Ingvarsdóttir.