2003-03-15 01:27:03# 128. lþ. 102.20 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[25:27]

Kristján L. Möller (frh.):

Hæstv. forseti. Í dag ræddi ég þetta frv. (KHG: Í gær.) Já, í gær. Þakka þér fyrir, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Svona líður tíminn. Í gær var ég sem sagt að ræða þetta frv. og fór í gegnum ýmis mál sem eru keimlík þessari árás á landsbyggðina og landsbyggðarhafnir. Ég vil segja, herra forseti, að ég tel, og hef kynnt mér það í dag hjá nokkrum sveitarfélögum, að Hafnasamband sveitarfélaga hafi oftúlkað stuðning og ánægju margra sveitarfélaga við þetta frv.

Herra forseti. Á fundi samgn. spurði ég formann Hafnasambandsins, sem heitir Árni Þór Sigurðsson, hvort þeir teldu sig hafa umboð frá öllum þeim höfnum sem hér er verið að fjalla um fyrir því að mæla með frv. og í raun styðja það eins og það liggur fyrir. Ég ætla ekki að hafa orðrétt eftir það sem sagt var. Ég vil það helst ekki. En eftir skoðun mína í dag hef ég styrkst í þeirri trú að það er verið að oftúlka stuðning sveitarfélaga við þetta mál.

Mjög margir sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórar vitnuðu til samþykktar Hafnasambands sveitarfélaga sem setti nokkur skilyrði við atriði í þessu sambandi eftir endurskoðun á þessum lögum og þau eru í frv. á bls. 10. Þau voru sett þar með.

Ég vil stikla á nokkrum atriðum hér í lokin sem ekki hefur verið farið eftir enda var þetta frv. núna ekki sent til sveitarfélaganna til umsagnar. Í þessum punktum Hafnasambands sveitarfélaga segir m.a., með leyfi forseta: ,,að sú gríðarlega sundurliðun á gjaldtöku sem skilgreind er í 17. gr. virðist stangast á við markmið nýrra hafnalaga sem lýtur að aukinni sjálfstjórn hafna``.

[25:30]

Ef við förum yfir í 17. gr. sem heitir Gjöld segir þar: ,,Heimilt er að innheimta eftirtalin gjöld fyrir rekstur hafna samkvæmt kafla þessum:`` Síðan eru talin upp 15 nöfn á gjöldum sem heimilt er að rukka inn en þessi gjöld sem rukkuð eru mega bara standa undir tilteknum þáttum í rekstri hafnarinnar. Og ég ætla rétt að biðja hv. þingmenn að ímynda sér hvernig vinnan verður núna hjá bókhaldsdeildum sveitarfélaga við það að setja upp þessa miklu sundurliðun og fara að keyra það í gegn. Tökum hérna bara eitt dæmi:

,,Vörugjöld af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfn, þar á meðal aflagjald sem er vörugjald af sjávarafla sem lagður er á land á hafnarsvæðinu.`` --- Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: ,,Gjald þetta skal standa undir kostnaði af aðstöðu við bryggju og á hafnarbakka.``

Það er sem sagt verið að skilgreina þann kostnað sem hlýst af því að skapa aðstöðu við bryggju og hafnarbakka og vörugjaldið á að standa undir því.

Ef við tökum annað dæmi:

,,Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju til þess að standa straum af kostnaði við aðstöðu og búnað fyrir farþega og bíla.``

Það verður sem sagt að sérgreina í rekstri hafnarinnar þann kostnað sem er við að skapa aðstöðu og búnað fyrir farþega og bíla og það má vera gjaldstofn til að búa til farþegagjald.

Eigum við að halda áfram?

,,Leigugjöld fyrir afnot af mannvirkjum eða tækjum hafnarinnar, þar með talið upptökumannvirkjum og löndunarkrönum. Gjaldið skal standa undir kostnaði við rekstur, viðhald og endurnýjun mannvirkjanna.``

Tökum dæmi: Löndunarkraninn verður að vera sérliður og allt sem þar fellur til og sá kostnaður og þær tekjur sem þarna verða rukkaðar í leigugjöld mega ekki fara upp fyrir þetta. Þetta er, herra forseti, alveg með ólíkindum og 17. gr. er sennilega það vitlausasta af þessu vitlausa frv. Flestallir eru sammála um að það sé nær óframkvæmanlegt að gera þetta á þann hátt sem hér er lagt til.

Höldum hérna áfram, tökum 13. töluliðinn:

,,Sorpgjöld sem skulu standa straum af kostnaði við sorphirðu frá skipum og fyrirtækjum á hafnarsvæði.``

Þetta verður allt að sundurliða. Það er ekkert smáræðisbákn sem verið er að búa til af flokknum sem einu sinni hafði unga menn í ungliðasveit sinni, hinni svokölluðu stuttbuxnadeild Sjálfstfl., sem fór um og talaði um ,,báknið burt``. (Gripið fram í.) Ég mundi halda að það væri svo langt síðan að þeir voru ungir að það hafi kannski ekki verið komið eins mikið bákn þegar það var.

En ég vildi aðeins segja þetta, herra forseti, um 17. gr. enda held ég að það muni koma mjög á sveitarstjórnarmenn og bókhaldsdeildir sveitarfélaga þegar fara á að vinna eftir þessu.

Önnur skilyrði í þessum kafla eru þau skilyrði Hafnasambandsins að það sé kynnt sveitarfélögum og fjallað um það. Hér er annar liður á bls. 11:

,,... að útreikningar varðandi stöðu einstakra hafnarsjóða miðað við áhrif 24. gr. frumvarpsins verði kynntir höfnum landsins nú þegar. Þeir útreikningar munu gera höfnum frekar ljóst hver samkeppnishæfni þeirra er að breyttum lögum.``

Ég spyr: Hefur þetta verið gert? Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í skoðun minni í dag var það ekki. Svo kemur hér rúsínan í pylsuendanum:

,,... að endurskoðað frumvarp verði sent höfnum landsins til yfirlestrar að nýju.``

Ég verð að viðurkenna að það voru einn eða tveir eða þrír samgöngunefndarfundir sem ég komst ekki á en ég held að ég hafi reynt að fylgjast með því hvað fram fór á þeim fundum. Og ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. og formann samgn., Guðmund Hallvarðsson, hvort þetta skilyrði hafi verið efnt, að endurskoðað frv. hafi verið sent höfnum landsins til yfirlestrar að nýju svo að þær gætu gefið umsögn um þetta mál.

Nei, herra forseti, það verður bara að segjast alveg eins og er að það frv. sem við erum hér að ræða er því miður hægt að flokka sem enn eitt árásarfrumvarpið á sveitarfélögin í landinu, samanber tryggingagjaldið og það allt saman. Þetta er árás á hafnir á landsbyggðinni og þetta er auðvitað hrein árás á landsbyggðarfólk. Það þarf þá bara að taka meira út úr sveitarsjóði til þess að reka hafnirnar.

Sem betur fer fylgir fylgirit hérna, ýmsar upplýsingar um hafnir --- ég sagði það hér í dag, varaði við því og spurði hvernig það mundi þróast þegar hafnir fara að hækka gjaldskrá sína og hinar ríku og betur settu hafnir, lesist: Reykjavík, Hafnarfjörður, svo við tökum dæmi, munu geta farið að veita afslætti og lokka til sín frystitogara af landsbyggðinni til löndunar hér þannig að það verði ódýrara að landa þar. Áður hef ég tekið dæmi um það þegar Eimskip breytti gjaldtöku sinni vegna strandsiglinga og hef tekið dæmi um það sem kemur bara beint úr greininni, að það kostar í dag milljón kr. meira að landa úr frystitogara úti á landi en ef það er gert í Reykjavík. Það er vegna akstursins og gámagjaldsins sem Eimskip tók upp. Og ef við bætist svo að hafnir geta lokkað til sín frystitogara með afsláttum vegna þess að þær hafa góð rekstrarskilyrði, hvernig fer það þá? Og hafnirnar eiga að fá að auka tekjur sínar með því að auka aflagjaldið.

Tökum nokkrar hafnir sem dæmi. Tökum Seyðisfjörð. Þar voru aflaverðmæti 1997 1.219 millj., 1998 1.450 millj., 1999 878 millj.

Herra forseti. Við verðum auðvitað að fara aftur í tímann til þess að athuga hvað þarna var að gerast. Það getur hafa verið erfitt ár, t.d. í loðnuveiðum, eða einhverjar aðrar breytingar hafa átt sér stað. E.t.v. hafa frystitogarar ekki komið í höfn, þótt það eigi kannski ekki við þarna.

Eigum við að taka annað dæmi? Fjarðabyggð. Þar voru þessar tölur þannig að 1997 er aflaverðmæti 3,7 milljarðar, 4,2 milljarðar 1998, 2,7 milljarðar 1999. Fáskrúðsfjörður, Búðahreppur. Fyrir sömu ár, aflaverðmæti milljarður 1997, tæpur milljarður 1998, 728 millj. árið 1999.

Höfum aðeins í huga aflagjaldið sem á að reiknast af þessu, höfum í huga tekjurnar sem hafnirnar eiga að fá út af þessu. Hugsum svo aðeins til þessara hafna núna. Ég ætla að taka eina höfn í viðbót, Siglufjarðarhöfn. 1997 1,8 milljarðar tæpir, 1998 1.340 millj., 1999 rétt rúmur milljarður. (Samgrh.: Það þarf ekki höfn þegar gatið verður komið.) Þarf ekki höfn þegar gatið verður komið, segir samgrh. (Gripið fram í: Hárrétt, hárrétt.) Það gæti vel verið að umhverfið hefði verið öðruvísi í hafnamálum ef göngin hefðu verið gerð 10, 15, 20 árum of seint. En af því að hæstv. samgrh. kallar hér fram í um göngin ætla ég að nota þetta tækifæri í framhjáhlaupi til að óska honum til hamingju með það að loksins skuli vera búið að senda út útboðsgögnin fyrir Siglufjörð. (Samgrh.: Loksins?) Já, loksins. Við erum búin að bíða ansi lengi eftir því að það yrði gert. Það var talað um það fljótlega í janúar. Það ber samt að þakka fyrir það þótt seint sé. (Samgrh.: Jæja.) Að sjálfsögðu.

En tökum nú nokkrar af þeim höfnum sem ég hef nefnt hér sem dæmi. Nú er nýbúin loðnuvertíð sem því miður var ekki eins góð og vertíðin í fyrra. (Gripið fram í: Það er ... að kenna.) Út af fyrir sig er það mjög alvarlegt mál auðvitað ef við töpum útflutningsverðmætum vegna þess að við gátum ekki veitt alla loðnuna sem við ætluðum okkur að veiða, ef tapið er allt að 3 milljörðum. En ég er aðeins að hugsa til þessara hafna, hvað þær tapa miklum tekjum þetta árið og þekki það vel frá mínum heimabæ, þekki það vel frá t.d. Raufarhöfn, Þórshöfn og þeim stöðum sem ekki hafa fengið eins mikið af loðnu nú og oft áður. Ég get ekki séð annað en að það sé fyrirsjáanlegt verulegt tekjufall hjá þessum höfnum á þessu ári, svo að við tökum sem dæmi, og auðvitað þær sveiflur sem enginn ræður við en geta orðið.

Herra forseti. Það er nú farið að líða vel á þennan fund. Ég lýsi yfir andstöðu þingmanna Samfylkingarinnar við þetta frv. Við teljum þó að það hafi örlítið skánað frá því að það var fyrst lagt fram, samt ekki nægjanlega, enda var það arfavitlaust þá. Málið hefði þurft að fá meiri umfjöllun í samgn., lengri tíma, og sveitarfélögin hefðu þurft að fá að koma að því, jafnvel Hafnasambandið að ræða það, til þess að athuga hvort áfram væri hægt að ganga göngu til þess að láta það skána þannig að fleiri yrðu ánægðir með það og það væri ásættanlegt.

Ég tek undir ýmislegt af því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði við 1. umr. þessa máls og lýsti áhyggjum sínum við það. Ég ætla svo sem ekkert að krefjast þess að heyra og kalla eftir afstöðu framsóknarmanna til þessa frv. en ég tók þó eftir því við 1. umr. að hæstv. samgrh. taldi ástæðu til að minna hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þingflokksformann Framsfl., á það að hér væri um stjfrv. að ræða. Og, herra forseti, kannski er eðlilegt að eitt af síðustu málum þingsins á þessu kjörtímabili sé mál sem veldur miklum deilum og kemur í ljós að mun mismuna sveitarfélögum mjög mikið eftir því hvar er á landinu. Og því miður verð ég að segja að mér finnst þetta bera allt of mikinn keim af því að ekki er horft heildstætt á þetta. Hagsmunirnir eru svo misjafnir milli hafna. Ég hef sagt það og ætla að enda með því að segja að þetta er árás, því miður, á hafnarsjóði og mörg sveitarfélög vítt og breitt um landsbyggðina, og ég harma það hvað þetta varðar eins og ýmis önnur mál þar sem ráðist hefur verið að sveitarfélögum og landsbyggðarfólki.