Speglunaraðgerðir í hnjám

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:42:50 (5425)

2004-03-17 14:42:50# 130. lþ. 85.10 fundur 532. mál: #A speglunaraðgerðir í hnjám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. heilbrrh. um viðbrögð hans við fjölda og miklum kostnaði vegna speglana á hnjáliðum með holsjá og hvort ráðuneytið hafi látið kanna ástæður og þörf fyrir þennan mikla fjölda hátækniaðgerða. Tilefni fyrirspurnarinnar er umfjöllun í Speglinum, ágætum fréttaþætti Ríkisútvarpsins, í lok janúar. Þar var kastljósi beint að markvissri rannsókn sem virt læknablað, New England Journal of Medicine, greindi frá um árangur af þessum aðgerðum. Niðurstaða bandarísku læknanna var að slíkar aðgerðir hefðu enga þýðingu þar sem jafnstórt hlutfall náði bata, hvort sem um var að ræða einungis skinnsprettu á hné eða raunverulegar aðgerðir. Þetta varð til þess að opinber þarlend tryggingastofnun ákvað að slík aðgerð yrði ekki greidd úr opinberum sjóðum og einhver einkarekin tryggingafyrirtæki ákváðu að hafa sama hátt á.

Ég vil undirstrika að með þessari fyrirspurn er ekki verið að leggja það til að draga úr möguleikum fólks á að fá bót meina sinna en umfjöllun þessi vakti upp margar spurningar og er þess vegna tekin til umræðu á hv. Alþingi. Hér eru samkvæmt fréttinni gerðar um það bil 1.700 speglanir ár hvert og á síðustu þremur árum hefur kostnaður við þessar hnjáaðgerðir nálgast hálfan milljarð kr. ef upplýsingar sem þarna komu fram eru réttar. Aðgerðirnar eru oftast gerðar á stofum úti í bæ enda tiltölulega einfaldar.

Þegar rætt var við Sigurð Guðmundsson landlækni um málið nefndi hann m.a. þýðingu þess að hér kæmist á rafræn sjúkraskrá með samtengingu heilbrigðisstofnana og stofa úti í bæ í sameiginlegt upplýsingakerfi og þá yrðu menn hæfari til að telja saman aðgerðir og meta árangur þeirra.

Nú ber svo við að sú er hér stendur og hæstv. heilbrrh. hafa nýverið rætt undirbúning rafrænnar sjúkraskrár og ljóst er að nokkur ár eru í að hún verði að veruleika. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrrh.:

Hvernig metur hann þessi mál? Hafa þau verið skoðuð í ráðuneytinu og hvert er útlitið með þann mikla fjölda aðgerða sem virðast hafa orðið til með hinum mikla og beina aðgangi að sérfræðingum?