Starfsskilyrði loðdýraræktar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:40:43 (6856)

2004-04-27 15:40:43# 130. lþ. 104.7 fundur 763. mál: #A starfsskilyrði loðdýraræktar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbrh. um starfsskilyrði loðdýraræktarinnar.

1. Hvað líður samningsgerð stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands fyrir hönd loðdýrabænda um aðgerðir til að búa loðdýrarækt á Íslandi hliðstæð starfsskilyrði og hjá samkeppnisaðilum í nágrannalöndunum?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgerðum sem miða að því að nýta betur sláturúrgang, sem ekki fer til manneldis, í loðdýrafóður sem lið í eins konar sorpförgun á hliðstæðum kjörum og hjá loðdýrarækt í nágrannalöndum okkar?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgerðum til að lækka flutningskostnað sem loðdýraræktendur á Íslandi þurfa að greiða þannig að þeir njóti hliðstæðs stuðnings og framleiðendur í nágrannalöndunum hvað þennan kostnað varðar?

Ég vek athygli á því að um 35 loðdýrabú eru starfrækt í landinu og þau framleiða sem jafngildir 200 þús. minkaskinnum á ári. Heildarverðmæti útflutningsins er í kringum 400 millj. kr. Þessi búgrein er fyrst og fremst bundin við örfá svæði á landinu en skiptir þar miklu máli í atvinnulífi fólks. Skinnin eru seld á uppboðum erlendis á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Skinnaverð er hagstætt um þessar mundir en uppsafnaður rekstrarvandi úr fortíðinni háir greininni sem og það að hún býr ekki við svipuð samkeppnisskilyrði og loðdýrabændur í nágrannalöndunum.

Frá því í haust hefur verið að störfum nefnd á vegum ráðherra sem hefur haft það hlutverk að benda á leiðir til að styrkja rekstrargrundvöll greinarinnar og jafna samkeppnisstöðu hennar gagnvart loðdýrabændum í öðrum löndum. Íslendingar eru í þriðja sæti hvað varðar gæði í framleiðslu loðskinna og koma næst á eftir Norðmönnum og Dönum. Hins vegar er fóðurverð í Danmörku 17 kr. á kíló, í íslenskum krónum, til bónda, en um 25 kr. hér á landi. Loðdýrabændur hafa horft til þess að þeir geti nýtt úrgang sem annars verður að farga eða urða með ærnum kostnaði, t.d. úrgang frá laxaslátrun og úrgang frá kjúklingaslátrun. Þeir hafa vænst þess að geta jafnvel fengið stuðning, svipaðan og veittur er erlendis, förgunarstuðning til að nýta þennan úrgang til loðdýrafóðurs.

Virðulegi forseti. Umrædd nefnd skilaði áfangaskýrslu í október og gerði þá ráð fyrir ákveðnum tillögum. Þá var þess vænst að nefndin mundi skila fullnaðartillögum áður en gengið yrði frá fjárlögum á síðasta hausti, í desember. En ekkert hefur samt bólað á þeim enn. Loðdýrabændur eru orðnir langeygir eftir því að þessar tillögur líti dagsins ljós og enn langeygari eftir því að ráðherra hrindi þeim í framkvæmd.