Sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 18:02:01 (2189)

2003-11-26 18:02:01# 130. lþ. 35.6 fundur 315. mál: #A sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég beini spurningum mínum til hæstv. viðskrh. varðandi uppgjör á sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

Íslenskur almenningur hefur fylgst agndofa með þróun á bankamarkaði síðan ríkisbankarnir voru einkavæddir og seldir um síðustu áramót. Eins og þingmönnum er kunnugt hefur mikil umræða í þjóðfélaginu verið um stöðuna á bankamarkaðnum, fólki blöskra háir vextir og há þjónustugjöld en á sama tíma gríðarlegur hagnaður bankanna. Í rökstuðningi forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar á sínum tíma átti einkavæðing og sala bankanna að skila sér beint til neytenda en ekki sést að það hafi orðið. Ofan á þetta hafa svo bæst gríðarlegar tekjur eða gríðarleg fjármunataka forsvarsmanna bankanna í sinn eigin hlut út úr bankanum sjálfum.

Í umræðum um bankana að undanförnu hefur hins vegar ekki verið mikið talað um endanlegt söluverð á hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Mig minnir að á gamlársdag 2002 hafi verið undirritaður samningur við Samson-eignarhaldsfélagið um kaup á tæplega helmings hlutdeild ríkisins í Landsbanka Íslands. Kaupverðið átti að hafa verið eitthvað í kringum 12,3 milljarðar og var því hver hlutur seldur á genginu 3,1 eða þar um bil. Til upplýsingar eru hlutir í bankanum í dag verðlagðir á 5,8. Við undirritun samnings um kaup á Landsbankanum var síðan settur ákveðinn fyrirvari um að kaupin yrðu endurskoðuð síðar með tilliti til afskrifta bankans og afkomu á árinu. Mögulegt væri að Samson fengi síðan 700 millj. kr. afslátt, eða það var látið í veðri vaka, vegna þessa.

Það er mjög erfitt að henda reiður á hverjir hinir eiginlegu söluskilmálar bankanna voru. Það eitt sem við fylgjumst nú með er að þegar uppgjör viðskiptabankanna þriggja fyrir fyrstu níu mánuði ársins liggja fyrir nemur hagnaður bankanna eftir skatta 11,7 milljörðum kr., 5 milljörðum hjá Kaupþingi Búnaðarbanka, 4,1 milljarði hjá Íslandsbanka og 2,6 milljörðum hjá Landsbanka. Þessu til viðbótar voru hátt í 8 milljarðar kr. gjaldfærðir á afskriftareikning útlána hjá bönkunum sem þýðir að hagnaðurinn fyrir framlag á afskriftareikning var um 20 milljarðar kr. Ef svo heldur fram sem horfir verður hagnaðurinn á þessu ári 25 milljarðar kr. Er það furða þó að við spyrjum, virðulegi forseti: Hefur verið gengið frá endanlegu söluverði á hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum? Ef svo er, hvert var söluandvirði hvors banka um sig og hefur það verið greitt að fullu? Hvernig hefur verðmæti bankanna breyst frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2003 og einnig við undirskrift kaupsamninga bæði hvað varðar breytingar á gengi íslensku krónunnar og breytingar á mati bankanna? Hefur mikill gróði bankanna á þessu ári áhrif til hækkunar endanlegs söluandvirðis þeirra, virðulegi forseti?