Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2005, kl. 14:52:00 (4590)


131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:52]

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þær eru nú farnar að verða svolítið átakanlegar, þessar tilraunir stjórnarandstöðunnar til að reyna að koma í veg fyrir það að umræðan hefjist. Það er eins og að hv. þingmenn kvíði henni og séu að reyna eins og þeir geta með alls konar kúnstum að koma í veg fyrir að umræðan geti hafist. Ef allt hefði verið eðlilegt, utandagskrárumræða hafist hálftvö og eðlileg þingumræða klukkan tvö, hefðum við verið komin hér áleiðis í efnislega umræðu. Það hefur þó tekist hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að tefja það að hefja umræðu um mál sem þeir eru greinilega svolítið óöruggir í í u.þ.b. klukkutíma. Það er nú dálítið afrek. Frestur er á illu bestur, það er greinilega mottóið sem liggur til grundvallar þessari umræðu (Gripið fram í.) enda sjáum við að ekki síst þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið í bölvuðum vandræðum með þetta mál sitt.

Ég skil það út af fyrir sig alveg að hv. þingmenn skuli vilja gera það þannig að hér líði aðeins á daginn og umræðan fari þannig af stað að athyglin sé á aðra þætti en efnisatriði frumvarpsins. Það, virðulegi forseti, er að takast. Það er að takast hjá hv. þingmönnum að strá í kringum sig svolitlu af reyksprengjum þannig að þeir komist hjá því að hin efnislega umræða veki með sama hætti athygli.

Það er dálítið einkennilegt að þurfa að taka þátt í þessari umræðu á þeim forsendum að það sé eins og maður sé að reyna að troða sjálfsögðum hlutum inn í hausinn á þingmönnum, hlutum sem þeir vita. Við vitum auðvitað að hv. þingmönnum er þetta allt saman ljóst, þeir vita að hér hefur farið fram 1. umr. og auðvitað gera allir sér grein fyrir því að þar með lauk ekki umræðunni, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var að reyna að snúa hér út úr. Ég var að vekja athygli á því að þá var auðvitað tækifærið til að varpa fram ákveðnum pólitískum spurningum.

Síðan hefur málið farið í nefnd og verið þar vel unnið eins og nefndarálitin bera glöggt merki um. Þá höfum við auðvitað allar forsendur til þess að fara í hina efnislegu umræðu. Þá hafa þingið og þingmenn haft tækifæri til þess að kalla eftir svörum frá sérfræðingum úti í þjóðfélaginu við spurningum sem hafa vaknað. Þannig er þetta.

Hæstv. menntamálaráðherra er við opinber skyldustörf, önnur opinber skyldustörf erlendis, og þá er það þannig samkvæmt stjórnskipun okkar að annar ráðherra kemur inn í staðinn og er starfandi menntamálaráðherra. Það eru með öðrum orðum allar forsendur fyrir því að hefja hina efnislegu umræðu — nema ein. Hún er sú að hv. þingmenn, sérstaklega Samfylkingarinnar, eru hræddir. Þeir óttast það að fara inn í þessa efnislegu umræðu. Þá er bara aðalatriðið það að tefja málið, búa til alls konar hindranir, hraðahindranir svo að menn komist ekki af stað inn í umræðuna, tefja málið, koma í veg fyrir að umræðan fari af stað og láta eins og þeir skilji ekki einföldustu hluti sem allir vita og þekkja í stjórnskipun okkar og starfi hér í þinginu. Það er út af fyrir sig að takast en auðvitað mun umræðan hefjast að lokum þannig að þó að frestur kunni að vera á illu bestur er þessi frestur ekki alveg endalaus. (Gripið fram í.)