Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2005, kl. 16:15:45 (4616)


131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:15]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir svarið. Það liggur þá fyrir að Samfylkingin mun ekki samþykkja og styðja sameiningu þessara tveggja skóla (Gripið fram í.) nema frumvarpinu verði breytt. Það liggur þá fyrir.

Hin spurningin sem mig langaði til þess að varpa til hv. þingmanns varðar rekstrarform skólans. Það segir í nefndarálitinu að engin rök hafi komið fram sem styðji einkahlutafélagsform um rekstur hins nýja skóla.

Ég hélt reyndar ræðu við 1. umr. og fór yfir kosti þess að reka svona menntastofnun sem einkahlutafélag og óskaði eftir því að þeir sem standa að rekstri skólanna yrðu spurðir í nefndarstarfinu hvers vegna það rekstrarform hefði verið valið. Rökin komu í sjálfu sér ekki á óvart. Þau voru hin sömu og ég varpaði fram við 1. umr. Ég verð að segja að þegar þeir sem skrifa undir nefndarálit þetta halda því fram að engin rök hafi komið fram sem styðji rekstrarformið þá finnst mér slíkur málflutningur fela í sér býsna kaldar kveðjur t.d. til Guðfinnu S. Bjarnadóttur, rektors Háskólans í Reykjavík, sem hefur skilað þriggja blaðsíðna umfjöllun með röksemdum fyrir þessu rekstrarformi.

Mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann að nokkru sem hefur ekki komið fram í umræðunni af hans hálfu eða annarra þeirra sem styðja sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið: Hvers vegna telur þingmaðurinn að það form henti betur en einkahlutafélagsformið?