Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2005, kl. 17:16:09 (4627)


131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:16]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrri ræðumönnum í þessari umræðu, hv. þm. Gunnari Birgissyni, fyrir snjallan lestur og á sinn hátt mjög snjalla ræðu að lestrinum loknum. Hann boðaði hér seinni ræðu og ég bíð í ofvæni eftir henni þó að hv. þingmaður hafi þurft að bregða sér aðeins frá. Hér er heldur ekki skarð fyrir skildi þar sem um stjórnarmeirihlutann í nefndinni er að ræða, því að hér eru bæði varaformaður menntamálanefndar, Dagný Jónsdóttir, sem næst talar, og síðan hinn knái og vörpulegi hv. þingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, sem hér berst hetjulega fyrir málstað sínum og það er auðvitað alltaf gaman að sjá, hvernig svo sem málstaðnum er háttað.

Ég vil líka þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem flutti hér mjög skörulega ræðu, sem ég ekki alveg óvænt tek undir í einu og öllu, og hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem ég er sammála að flestu leyti í þessu máli og reyndar mörgum öðrum. Ég vil segja, bara svo það komi fram, að það voru miklu fremur tæknilegir örðugleikar og tilviljanir en pólitískir sem leiddu til þess að hér er um tvö nefndarálit að ræða, frá 1. og 2. minni hluta menntamálanefndar, enda er það sjaldgæft í nefndinni að svo sé.

Það hefur komið í ljós að það er ekki rétt sem fram kemur í þingskjali hér að hv. þm. Sigurjón Þórðarson sé samþykkur meirihlutaáliti nefndarinnar (Gripið fram í.) og ætli hann sé þá ekki einhvers staðar á okkar línu þannig að með örlítið betra skipulagi af okkar hálfu, stjórnarandstæðinga í nefndinni — en það var margt að gera á þessum dögum — hefði okkur kannski tekist að skila einu áliti sem vissulega hefði einfaldað gang mála fyrir t.d. þá hv. þingmenn Gunnar I. Birgisson og Sigurð Kára Kristjánsson sem hafa verið nokkuð „forvirraðir“ — svo gripið sé til áhrifamikils lýsingarorðs, ættaðs úr dönsku — yfir þessum nefndarálitum.

Forseti. Um hvað snýst þetta mál? Það snýst um það að við erum með frumvarpi þessu beðin um að afhenda eigendum einkahlutafélags sem heitir Hjástoð, nei, fyrirgefið, Hástoð heitir það, mestan hlutann af Tækniháskóla Íslands, nýjum háskóla sem starfar á afar mikilvægu sviði, einmitt því sviði þar sem við erum veikust fyrir í menntakerfi okkar, í starfs- og verkmenntun. Það er í fyrsta sinn sem þetta er gert, sem tekinn er opinber háskóli og limaður sundur, ákveðinn partur settur upp í Háskóla Íslands en hinn parturinn afhentur út í bæ. Þetta er í raun og veru staðreynd málsins. Hvað sem menn tala hér um sameiningar og einhverja framsókn og fegurð þá er þetta málið eins og það blasir hér við okkur sem kjörin erum á þessa samkomu til að gæta hagsmuna þjóðarinnar nú og í framtíðinni og erum líka gæslumenn þess fjár sem þjóðin á sameiginlega. Fram hefur komið í umræðunni að vægast ályktað sé þar um að ræða 100 millj. kr. og hæstv. menntamálaráðherra hefur verið krafinn svara um það hver sú upphæð sé í raun og veru. Ég efast ekki um að staðgengill hennar, sem nú hefur fengið aðstoðarmann ráðherrans sér til ráðuneytis, mun svara því og líka þeim spurningum sem hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og Kolbrún Halldórsdóttir hafa hér haft í frammi og ég tek undir.

Forseti. Þau tvö sem ég hef nefnt hafa farið yfir málið mjög rækilega, flestar hliðar þess sem ég man eftir. Ég ætla þess vegna ekki að endurtaka það, heldur ætla ég að nota tíma minn til þess að ræða sérstaklega þann þátt málsins sem auðvitað er einn af helstu þáttunum og snýr að rekstrarformi og tengslum þess við inntak háskólastarfs, einkum við það sem kallað er akademískt frelsi. Er þá rétt að vitna í byrjun í nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar en þar segir undir lok textans, með leyfi forseta:

„Nokkuð ítarleg umræða fór fram um hvers vegna hlutafélagaformið hafi verið valið fram yfir sjálfseignarstofnun, hvort akademísku frelsi kennara verði ekki stefnt í hættu.“

Sérkennilegt orðalag að vísu að tala um akademískt frelsi kennara en af einhverjum ástæðum hefur það verið valið hér í nefndarálitið. Yfirleitt er bara talað um akademískt frelsi sem nái bæði til kennara og nemenda og reyndar annarra starfsmanna og rannsakenda. En ég lít á þetta fremur sem lítils háttar pennaglöp en einhverja stefnu sem þarna sé mörkuð. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Í svörunum kemur fram að hlutafélagaformið sé almennt heppilegra, hlutafélagalöggjöf geri ráð fyrir að hægt sé að stofna félag sem ekki sé rekið í hagnaðarskyni en svo sé gert í 2. gr. stofnsamþykkta hins nýja félags sem ætlað er að reka sameinaðan háskóla, sbr. fylgiskjal II. Þar komi fram að hlutverk félagsins sé ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri, heldur renni hugsanlegur hagnaður til frekari uppbyggingar starfseminnar. Þá eru kostir hlutafélagaformsins nánar raktir og færð rök fyrir því að akademísku frelsi sé ekki ógnað með breyttu rekstrarformi. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem þar koma fram.“

Það er sem sé þannig að meiri hlutinn telur að það hafi verið færð rök fyrir því í þeim plöggum sem vísað er til að akademísku frelsi sé ekki ógnað með breyttu rekstrarformi, að það haldist og sé tryggt væntanlega þó að rekstrarformið sé í einkahlutafélagsstíl og sé breytt úr annars vegar sjálfseignarstofnun, þar er um að ræða Háskólann í Reykjavík, og hins vegar opinberan háskóla, sem er Tækniháskóli Íslands að því leyti sem hann er afhentur Háskólanum í Reykjavík eða hinum nýju eigendum sameinaða skólans.

Það kemur líka í ljós hér að meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í þessum plöggum og hefur þar með gert þau að sínum og það er auðvitað djarfleg afstaða af hálfu meiri hlutans vegna þess að þá hefur hann tekið þessa texta sem virðist um að ræða og aukið í þeim þungann verulega.

Það segir í nefndaráliti meiri hlutans að hlutafélagsformið sé almennt heppilegra og þau gögn sem meiri hlutinn byggir mál sitt á eru að ég hygg orðsending Sverris Sverrissonar til menntamálanefndar Alþingis frá 9. febrúar 2005, en hann er formaður háskólaráðs eða verðandi háskólaráðs eða hvernig sem á að orða það. Síðan fylgir í ljósriti mínu skriflegt svar við spurningu 8 úr greinargerð frá fundi menntamálanefndar. Það er ekki undirritað í mínum pappírum en hér hefur komið fram, m.a. hjá formanni menntamálanefndar, hv. þm. Gunnari Birgissyni, að þar sé um að ræða texta Guðfinnu Bjarnadóttur, rektors Háskólans í Reykjavík. Ég veit ekkert um það en ég lít svo á að þessi texti sé frá eigendum og aðstandendum Hjástoðar — Hástoðar, fyrirgefið. Þetta er svolítið erfitt orð af því að hjástoð er til og á m.a. við, forseti, um assistentakirkjugarðinn í Kaupmannahöfn þar sem Jónas Hallgrímsson er grafinn eða var grafinn — hvernig sem þeirri deilu er nú háttað sem ég ætla kannski ekki að fara að eiga orðastað við þingheim um nú — og mér hættir þess vegna til að rugla þessu saman en þetta eru óskyld fyrirbrigði og ég biðst bara afsökunar á þeim mistökum sem ég hef þegar gert og þeim sem verða seinna í þessari ræðu, að hér er um að ræða Hástoð sem er sem sé félagið sem á að reka skólann.

Þessir pappírar eru því sem einn fyrir mér og ég lít fyrst og fremst á þá sem framhald af orðræðu meiri hluta menntamálanefndar en ekki sem texta sem sérstaklega séu komnir frá nafnkenndu fólki. Það verður að taka fram vegna þess að verið er að veifa þessum textum hér í ræðustól sem einhverjum sérstökum heilögum vitnisburði þessa fólks.

Það verður líka að segja — ég var að vísu ekki á síðasta fundi menntamálanefndar, efnislega fundinum — að ég hygg að ekki hafi gefist færi á að spyrja út í þessa texta sérstaklega en til þess er veruleg ástæða, forseti, vegna þess að þeir eru að sumu leyti nokkuð einkennilegir og bera þess vegna á sinn hátt, og þá er ég ekki að skammast út í höfunda þeirra, vitni um þann hraða sem var á þessu máli í nefndinni og litlu fyrirhyggju sem þar var sýnd í umræðum um það. Það virðist vera stíllinn í menntamálanefnd þessi árin að mál sem þar koma inn eigi að afgreiða fljótt út ef þar er um að ræða stjórnarfrumvörp frá menntamálaráðherra, af hverju sem það stafar. En reynslan hefur verið sú, forseti, með þá afgreiðslu í menntamálanefnd, eins og ég reyndar hafði tækifæri til að lýsa hér fyrir skömmu í umræðum fyrir jól um hækkun svokallaðra skráningargjalda í þremur ríkisháskólum, að þegar þau vinnubrögð eru stunduð í nefndinni verður það til þess að sú vinna sem betur hefði farið fram inni í nefndinni fer fram í þingsalnum sjálfum, tefur þess vegna aðra þingmenn gjarnan og er ekki til heilla í þingstörfunum. En um þetta ætla ég ekki að hafa lengra mál þar sem m.a. formaður menntamálanefndar er fjarstaddur.

Í plöggunum sem ég hér ræði frá Sverri Sverrissyni og viðbótarplagginu við það segir reyndar að reynslan af sjálfseignarstofnunarforminu sé ágæt. Það stendur hér, með leyfi forseta:

„Reynsla ráðsins af þessu félagsformi“ — þar er átt við Verslunarráð — „er ágæt miðað við þá skipan sem verið hefur á eignarhaldi og rekstri Verslunarskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík til þessa.“

Það kemur reyndar víðar fram og sérstaklega í seinna plagginu að einhverjar hugleiðingar hafa verið um það hjá aðstandendum að taka upp þetta rekstrarform, sjálfseignarstofnunina, eða halda því áfram að því er lýtur að Háskólanum í Reykjavík. Það eru nefndir þrír gallar einkum á sjálfseignarstofnunarforminu sem torveldi rekstur háskóla í því. Það er — hvernig var þetta nú hjá formanni nefndarinnar? — það er í fyrsta lagi það að hér séu komnir þrír aðilar í staðinn fyrir einn, þ.e. þann eina sem var hjá háskólaráði áður, og það sé snúið og erfitt að koma því saman í sjálfseignarstofnunarforminu.

Það segir hér aftur, með leyfi forseta:

„Ef ákveðið hefði verið að velja form sjálfseignarstofnunar til rekstursins hefðu aðilarnir staðið frammi fyrir því að þurfa að semja um og móta hvernig reglur um skipulag og ákvarðanatöku yrði háttað.“

Ég get ekki sagt, þó ég hafi fulla vorkunn með þeim sem standa frammi fyrir verkefni af þessu tagi, að þetta séu gild rök fyrir einkahlutafélagsformi fram yfir sjálfseignarstofnunarform, að þessir þrír aðilar hafi staðið frammi fyrir því að þurfa að semja um hvernig samskiptum þeirra væri háttað. Benda má á að þó þeir hafi notfært sér einkahlutafélagsformið hafa þeir líka staðið frammi fyrir því að semja um hvernig samskiptum þeirra væri háttað innan þess, vegna þess að eftir því er ekki farið við þá ákvörðun sem er einna afdrifaríkust í einkahlutafélagi, að kjósa stjórn. Yfirburðahluthafinn, Verslunarráð sem á 90% hlutafjár og á að eiga um einhverja framtíð, hefur valið það af góðmennsku sinni að láta hina minni hluthafa, smáhluthafana, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins, hafa fulltrúa í stjórninni. Ég tel vissulega skynsamlegt hjá Verslunarráði að gera þetta en þarna hefur þó þurft að semja um ákveðna hluti. Það er ekki farið eftir þeim leikreglum einkahlutafélagsins sem einfaldlega hefði kveðið á um að Verslunarráð hefði tekið alla stjórnarmennina til sín ef ég kann þennan reikning réttan.

Í öðru lagi sagði hv. þm. Gunnar Birgisson áðan að betri tengsl væru við eigendurna í einkahlutafélagi en í sjálfseignarstofnun. Það kann vel að vera að það séu betri tengsl við eigendurna en þá kemur jafnframt að þeim mismun á eðli einkahlutafélags og sjálfseignarstofnunar að slík tengsl eru gagnkvæm. Eigendurnir hafa þá möguleika á meiri áhrifum í einkahlutafélagi en þeir hafa í sjálfseignarstofnun. Í sjálfseignarstofnun mynda eigendurnir eða hliðstæður þeirra í því formi yfirleitt fulltrúaráð sem kýs stjórnina. Þessi kostur getur jafnframt verið galli. Ég kem að því síðar í ræðu minni.

Í þriðja lagi sagði hv. þm. Gunnar Birgisson það vera mikinn kost við einkahlutafélögin og jafnframt ókost við sjálfseignarfélögin að það væri snúið að slíta sjálfseignarstofnunum en það væri hins vegar auðvelt í einkahlutafélaginu ef svo færi að þeim þyrfti að slíta. Það sem hv. þingmaður á við er væntanlega að eigendur einkahlutafélags geta fengið hlutafé sitt til baka með tiltölulega einföldum hætti við slit á einkahlutafélaginu. Það er erfiðara að fást við það í sjálfseignarstofnun þar sem grundvöllur sjálfseignarstofnunarinnar sem lesa má um í lögum um sjálfseignarstofnanir er sá að þá reiða menn fram óafturkallanlegt fé til að vinna að einhverju markmiði eða styðja einhvern þann málstað sem starfsemi sjálfseignarstofnunarinnar byggist á.

Ég held að það sé ekkert gríðarlega flókið að ráðstafa fé sjálfseignarstofnunar við hugsanleg slit til einhvers þess málefnis eða til fylgis við einhvern þann málstað sem er í tengslum við sjálfseignarstofnunina þó að það sé hins vegar rétt að féð fæst ekki beint aftur í vasa þess sem lagði það út. Mér finnst þetta ekki mjög merkileg röksemd. Að vísu á töluvert fé að renna frá eigendum Hástoðar með aukningu hlutafjár í því félagi á næstunni og vil ég nota tækifærið og hrósa eigendum Hástoðar fyrir að leggja fram það fé. Hlutafé félagsins er nú 15 millj. kr. en á að vera 300 millj. kr. síðar á árinu. Það er því framlag upp á 285 millj., 270 frá Verslunarráðinu, 10 frá Samtökum atvinnulífsins og 20 frá Samtökum iðnaðarins. En sé tekið mark á þeirri staðhæfingu, og engin ástæða til að gera annað, sömu eigenda að þeir séu að leggja fram fé sem eigi aðeins að nota til að auka menntun í landinu en ekki til að skapa hagnað fyrir samtökin eða lögpersónurnar hlýtur að skipta litlu máli hvert það fé rennur aftur við hugsanleg slit, sem ráðherra þyrfti að samþykkja hygg ég, því vel má búa svo um hnútana í sjálfseignarstofnun að fé sem til hennar er lagt renni til svipaðra hluta. Féð er því ekki tapað ef tilgangur framlagningar þess, þannig að ég fari að tala eins og lögfræðingur fyrir rétti, er sá að styðja málefnið, sem er menntun í tæknigreinum, verkfræði og öðrum þeim greinum sem á að fást við, en ekki sá að skapa eigendum sínum hagnað.

Hinar þrjár röksemdir hv. þm. Gunnars Birgissonar sem unnar eru upp úr plöggunum sem hér liggja frammi eru ekki ýkja merkilegar. Á þeim grunni og líka þegar við komum aðeins aftar í textann sést að engin tæk rök hafa verið færð fram fyrir því af hálfu menntamálaráðherra eða eigenda skólanna að einkahlutafélagsformið sé svo mikið betra en sjálfseignarstofnunarformið að nýi háskólinn þurfi endilega að vera í því formi. Engin tæk rök hafa verið færð fram fyrir því. Satt að segja eru þetta rök sem manni sýnist að séu eftirárök, að menn hafi tekið ákvörðunina fyrst og síðan reynt að rökstyðja hana í staðinn fyrir að gera það sem eðlilegra var, að breyta ákvörðun sinni þegar menn sáu hvaða afleiðingar hún hafði, hvaða viðbrögð hún fékk, og búa til sjálfseignarstofnun úr þessu félagi sínu. Auðvitað hefði hæstv. menntamálaráðherra átt að benda þeim á að það væri skynsamleg leið til að forðast eins og mögulegt væri alla tortryggni og auðvelda gang málsins hjá þingi og þjóð, ef menn hefðu viljað það.

Hér hefur verið lesið upp úr þeim plöggum sem ég er að ræða, einkum því seinna sem kennt er Guðfinnu Bjarnadóttur rektor. Þess vegna ætla ég ekki að lesa það í heild sinni en verð þó að benda á þann athyglisverða kafla sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson vakti athygli á áðan og er að finna í plagginu undir fyrirsögninni: Kostir hlutafélagaformsins. Þar segir í byrjun að sjálfseignarstofnunarformið hafi ekki reynst í öllum tilvikum hentugt. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Lög um sjálfseignarstofnanir gera aftur á móti ráð fyrir að enginn eigi sjálfseignarstofnanir og þær geta því orðið munaðarlausar og stjórnast einvörðungu af starfsmönnum. Hugarfarið á bak við sjálfseignarstofnun er nánast það að þegar einhver hefur stofnað hana og lagt fram peninga í stofnfé þá sé afskipta viðkomandi ekki óskað frekar. Það er afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti, sérstaklega þegar hlutverk háskólans er að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og taka að sér veigamikið hlutverk á háskólastigi með samruna HR og Tækniháskóla Íslands (THÍ).“

Undir þetta taka hv. þingmenn sem skipa meiri hluta menntamálanefndar og því þeirra að skýra hvers vegna það er afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þessum hætti, í sjálfseignarstofnunarformi. Það er þeirra að skýra hér þó að enginn sé — jú, einn er staddur í salnum, ég biðst afsökunar á að hafa skotist yfir hann, það er ekki oft sem mér skýst yfir þann ágæta hv. þingmann, Dagnýju Jónsdóttur — að það sé afar ábyrgðarlaust að reka Viðskiptaháskólann á Bifröst með þessum hætti. Ég óska skýringa á því, ekki frá Guðfinnu Bjarnadóttur því hún er ekki í salnum og getur ekki skýrt þetta. Ég tel að þetta sé kannski misskilningur eða pennaglöp hjá henni en meiri hlutinn hefur tekið undir þessi orð og ég vil gjarnan fá að vita það. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir er næst og hv. þm. Gunnar Birgisson verður til svara einhvern tíma seinna og ég vil vita hvernig þau rökstyðja einkunnirnar um rekstur Viðskiptaháskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands en báðir háskólar eru sjálfseignarstofnanir, að það sé afar ábyrgðarlaust að reka þá með þessum hætti. Má búast við því að hv. meiri hluti menntamálanefndar komi með frumvarp um að breyta sjálfseignarstofnununum, Listaháskóla Íslands og Viðskiptaháskólanum í Bifröst, í einkahlutafélög? Kannski ekki vegna þess að við höfum ekki mikið yfir þeim að segja, en er það ábending meiri hlutans að Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Listaháskóli Íslands séu reknir á afar ábyrgðarlausan hátt og það sé nánast þannig að einhverjir óábyrgir starfsmenn séu að koma öllu í kalda kol, eða það sé fram undan í rekstri þessara tveggja skóla.

Það er nokkuð til í síðustu klausu kaflans, sem við ræddum reyndar aðeins áðan. Hann er svona, með leyfi forseta:

„Þegar nýr háskóli þarf að ráðast í fjárfestingar í nýju húsnæði, tækjabúnaði og rannsóknum, þá er ómetanlegt að hafa „eigendur“ sem axla ábyrgð. Það skiptir t.d. lánveitendur miklu máli og getur haft áhrif á lánakjör.“

Ég fellst á það með höfundi textans og þeim sem standa á bak við hann, meiri hluta menntamálanefndar, að það getur að sjálfsögðu verið ágætt að hafa slíka eigendur einmitt gagnvart lánastofnunum. Það hlýtur að auka lánstraust þess sem fer og talar við Landsbankann eða Íslandsbanka að á bak við þá standi Verslunarráð Íslands þó auðvitað sé um einkahlutafélag að ræða sem tekur ákvarðanir og tekst á hendur skuldbindingar sem ekki falla sjálfkrafa á þá sem að baki standa.

Á hinn bóginn eru þetta ekki rök fyrir því að nauðsynlegt sé að hafa skólann í þessu formi eða einkahlutafélagsformið standi sjálfseignarstofnunarforminu langtum framar við þessi mál. Viðurkenna verður að vísu að Listaháskólinn býr ekki við það að hafa fjárfest í nýju húsnæði, tækjabúnaði og rannsóknum. Það er kannski af öðrum sökum en að hann eigi ekki nógu góða eigendur heldur er þar um að kenna okkur sem hér sitjum og stöndum og þeirri ríkisstjórn sem hefur setið í 10 ár og ekki haft dug í sér til að koma honum í nýtt húsnæði. Það er átak sem við þurfum að fara í.

Þótt Viðskiptaháskólinn á Bifröst eigi sér enga „eigendur“ eins og hér um ræðir hefur tekist dável að fjárfesta þar í nýju húsnæði, tækjabúnaði og rannsóknum og ekki að sjá að það hafi haft nein áhrif á Viðskiptaháskólann í Bifröst þó hann eigi sér ekki þessa gæsalappaeigendur sem hér eru taldir ómetanlegir, ekki hægt að meta það í peningum eða öðrum gæðum, þannig að þó komin séu rök sem nálgast að vera tæk fyrir því að það geti að sumu leyti verið gott að hafa einkahlutafélag eru þau í reynd ekki þannig að þau standi í vegi fyrir því að háskóli sem sjálfseignarstofnun geti þrifist, stækkað og aukist. Það má líka í þessu sambandi nefna að það er svo með aðra hluti en háskóla að starfsemi til almannaþarfa og samfélaginu til gagns og framfara styðst oft við eins konar „eigendur“ innan einfaldra, tvöfaldra eða þrefaldra gæsalappa sem með ýmsum hætti styðja sókn manna í slíkri starfsemi til að fjárfesta í nýju húsnæði, fá ný tæki og geta aukið rannsóknir sínar. Við þekkjum þetta t.d. með sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir af ýmsu tagi þar sem áhugamenn, kraftmiklir sjálfboðaliðar taka sig saman og fylla upp í þau göt sem hið opinbera neyðist til að skilja eftir. Við þekkjum þetta líka í skólakerfinu, t.d. í iðnskólunum, að þar hafa gamlir nemendur og menn sem ráða í atvinnurekstri oft komið til hjálpar við einmitt húsnæði og þó einkum tækjabúnað og einstakar rannsóknir sem á þarf að halda. Það er því alls ekki einhlítt að eigendur geri þetta í einhverri eignagleði eða vegna þess að þeir hafi þessi frægu eignatengsl við stofnun sína.

Í þessari umræðu og einnig í hinni fyrstu hefur verið nokkuð spurt um það hvað við stjórnarandstæðingar teljum athugavert við þetta form, einkahlutafélagsformið. Svarið er náttúrlega það að við teljum ekkert athugavert við það á sínu sviði, teljum að það eigi vel við þegar fyrirtæki er að vinna í samkeppnisrekstri á markaði en teljum hins vegar að það sé síðra þegar um er að ræða starfsemi þar sem markaðurinn er ekki nema einn þáttur í öllu spilverkinu og að einkahlutafélagið sé beinlínis óeðlilegt þegar um er að ræða stofnun sem þarf framar öðru að varðveita ákveðna starfshætti, þá sem hér ganga undir nafninu akademískt frelsi.

Ég hygg að það hafi verið hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sem las upp umsögn BHM um frumvarpið þar sem fram kom að BHM leggst mjög gegn því að hlutafélagsformið sé valið sem rekstrarform fyrir háskólastarfsemi. Því er kannski við að bæta að einmitt framkvæmdastjóri BHM segir í Morgunblaðinu 5. apríl í fyrra í deilu við Verslunarráð, í svari við Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, sem ætlar að eiga 90% í hinum nýja skóla og telur hlutafélagsformið hafa sýnt yfirburði sína fram yfir sjálfseignarstofnanir, þá segir Gísli Tryggvason, með leyfi forseta:

„„að sjálfseignarstofnanir henti vel til rekstrar í almannaþágu fyrir opinbert fé, t.d. háskóla, orlofssjóða og sjúkrastofnana, sem ekki eiga að greiða út arð. Hann segir góða reynslu af sjálfseignarstofnunum í opinberum og hálfopinberum rekstri. „Þá er ég t.d. að tala um Háskólann í Reykjavík sem Verslunarráð Íslands setti einmitt á stofn sem sjálfseignarstofnun. Svo mér finnst það mikil mótsögn að framkvæmdastjóri Verslunarráðs sé að andmæla því rekstrarformi sem mundi aldrei vera liðið ef það væri hlutafélag sem gæti greitt arð,“ segir Gísli.“

Síðan er aftur vitnað í hann:

„Það kæmi ekki til greina“ — „ef“ les ég úr þessum texta — „ég talaði af hálfu almennings og stjórnmálamanna. Því þarna greiða nemendur sem fá lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna skólagjöld. Sjálfseignarstofnunarformið er því sennilega hið eina sem gæfist fyrir háskóla.“ Hins vegar bendir Gísli á að hlutafélög gefist vel þegar arðsemismarkmið eru fyrst og fremst höfð að leiðarljósi.

Fyrir utan hina efnislegu afstöðu í þessu sýnir þetta ágætlega að þetta var stefna BHM áður en nákvæmlega þetta mál kom til. Raunar vissi maður ekki betur en þetta væri stefna allra þeirra sem að skólamálum koma á Íslandi því að þetta er í fyrsta sinn sem mönnum dettur í hug hér á landi og ég held norðan Alpafjalla og þótt víðar væri leitað að setja akademískan háskóla í form hlutafélags, það er einstætt. Nefnt hefur verið að það sé hlutafélag sem rekur námið í Sjómannaskóla og það er rétt. En það nám er ekki akademískt nám. Það er fullkomlega ágætt nám vona ég og er viss um en það er nám sem er sérstakt starfsnám og kemur akademíu ekki við. Ég skal ekkert um það segja hvað er heppilegt við það. Ég tel að menn hafi verið nokkuð brokkgengir þegar þeir tóku námið í sjávarútveginum úr opinberri umsjá og settu í þetta sérstaka hlutafélag. Þó má nefna með það hlutafélag sem er öðruvísi en það sem við erum hér að ræða um, að það hlutafélag er myndað af atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni í þeirri starfsgrein þar sem um er að ræða, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélaginu, ef ég kann rétt með þetta að fara, og kannski einhverjum fleirum þannig að það er ekki sambærilegt við það sem við erum hér að ræða.

Um akademískt frelsi sem ég lofaði að ræða lítillega um er einmitt texti í því plaggi sem ég vitna oft til og hefur oft verið til vitnað, því sem kennt er við Guðfinnu Bjarnadóttur. Þessi texti var lesinn hérna áðan og þó ekki allt í honum því ég hygg að Gunnar Birgisson hafi ekki lesið allan þennan kafla. Ég held að hann hafi byrjað réttilega á byrjuninni og lesið síðan allan þennan texta nema fyrsta hluta þessa kafla sem hér um ræðir og það er best að bæta úr þeirri vöntun hjá Gunnari Birgissyni, formanni menntamálanefndar. Fyrirsögnin er: Akademísku frelsi ekki ógnað með breyttu rekstrarformi.

Textinn er í byrjun svona, með leyfi forseta:

„Eitt atriði hefur verið nefnt sem rök fyrir því að hlutafélagaformið henti ekki og það er að það geti eyðilagt akademískt frelsi. Gunnar Karlsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur í erindi fjallað um akademískt frelsi og segir þá m.a.: „Ef við lítum á málin frá sjónarmiði hvers einstaks háskólakennara má segja að einkum tveir aðilar geti lagt hömlur á frelsi hans. Annars vegar eru það stjórnvöld, það ríkisvald sem setur okkur lög og reglugerðir, og — í tilfelli ríkisháskóla — veitir okkur rekstrarfé. Hins vegar er það háskólasamfélagið sjálft sem ákvarðar hvað beri að kenna og hvað beri að meta sem marktækar rannsóknir fræðslu eða þjónustu.“

Svo er sagt það sem hv. þm. Gunnar Birgisson las fyrr í dag, að í raun verði engin breyting á akademísku frelsi Háskólans í Reykjavík o.s.frv.

Ég verð að viðurkenna að ég velti fyrir mér hvað Gunnar Karlsson væri að gera inni í þessum texta því að það sem hann segir og haft er eftir honum í þessum texta þar sem verið er að spyrja um akademískt frelsi háskólakennara er að þar séu tvær hættur, annars vegar stjórnvöld sem setja lög og reglugerðir og veita rekstrarfé til ríkisháskólanna, hins vegar háskólasamfélagið sjálft — ég held að þetta sé alveg nákvæmlega rétt — að akademískt frelsi er ekki frekar en annað frelsi til 100%. Það er ekkert frelsi sem ekki hefur einhverjar eðlilegar takmarkanir. Við þurfum ekki að fara í gegnum það í þingsalnum að frelsishugsun sem rekur vonandi flest okkar áfram rekst auðvitað á við þarfir annarra, eðlilega sambúð manns við mann og við náttúru og við samhengi í tíma o.s.frv. og það er það sem Gunnar Karlsson er að velta fyrir sér. Þess vegna fannst mér þetta ekki vera mjög góð tilvitnun um það sem textinn er að segja, að hlutafélagsformið henti vel akademísku frelsi.

Það kemur líka í ljós þegar maður skoðar þann fyrirlestur sem hér er um að ræða að Gunnar Karlsson er ekki að tala um rekstrarform og akademískt frelsi en það er það sem við erum að tala um hér. Ég vil því gjarnan fá útskýringar á því hjá meiri hluta menntamálanefndar, þeim hv. þingmannafjölda sem þar hefur skrifað sig saman og er sammála rökum sem hér koma fram, hvaða innlegg það er í þessa umræðu um rekstrarform og akademískt frelsi sem kemur fram í umræddri tilvitnun í Gunnar Karlsson, sem hv. þm. Gunnar Birgisson las að vísu ekki áðan. Það kemur í ljós í fyrirlestri Gunnars Karlssonar að hann er alls ekki að ræða rekstrarform og akademískt frelsi heldur er hann að ræða í síðari hluta fyrirlestrar síns um stöðu háskólakennara í ríkisháskóla eða sjálfseignarháskóla kannski gagnvart þessum hlutum, akademísku frelsi. Það er auðvitað eðlilegt að Gunnar Karlsson geri það því hann hefur verið að ég hygg frá 1976 prófessor við Háskóla Íslands eða a.m.k. fastur kennari og lærði þar þar áður og er einn af okkar fremstu mönnum í sinni grein, í raun og veru mikill áhrifamaður í íslenskri sagnfræði og ákaflega þarfur maður í henni, ekki bara vegna fræðirannsókna sinna, svo ég leyfi mér að mæra hann, heldur líka vegna þess að hann hefur verið einn af helstu frumkvöðlum í að færa sagnfræðina til fólksins með fyrirlestrum og ritum og ekki síður í kennslubókum og námsefni af ýmsu tagi.

Af því að við erum að tala um þessa grein eða þess vegna fyrirlestur þá er rétt að upplýsa um hann að hann heitir „Hvað er akademískt frelsi?“ Hann var fluttur 12. febrúar 2004 og ég hygg að það sé hægt að fá hann á háskólanetinu eða a.m.k. í fréttabréfi háskólans eða háskólakennara en ég er með hann hér. Ég ætla nú, forseti, þó það sé nokkuð djarft, að leyfa mér þann eina útúrdúr í þessari ræðu um rekstrarform og akademískt frelsi að lesa úr honum svo sem eins og tvær síður. Í fyrsta lagi eru þær vel skrifaðar og í öðru lagi geta þær gefið okkur ákveðna undirstöðu í þessa umræðu um akademískt frelsi. Þannig segir Gunnar Karlsson sagnfræðingur, með leyfi forseta, frá því að akademískt frelsi eigi sér „tvær rætur, mislangar. Önnur liggur allt til upphafs evrópska háskólans á miðöldum, jafnvel allt til 11. aldar. Þeir urðu ekki til sem opinberar stofnanir, eins og til dæmis ráðuneyti eða ríkisherir, heldur sem stéttarfélög. Orðið universitas merkir upphaflega gildi eða stéttarfélag, og til voru universitates bakara og slátrara. Universitates magistrorum disciplinorumque gátu verið stéttarfélög kennara, sem var algengast í norðanverðri álfunni. Þau gátu líka verið stéttarfélög stúdenta sem tóku sig saman um að ráða sér kennara, og það var algengara sunnan Alpafjalla. Samtímis þessum lærdómsgildum spruttu upp í Evrópu formlegar menntastofnanir sem voru kallaðar studia generalia og voru venjulega undir stjórn biskupa. Um skeið var mikil spenna á milli þessara tveggja gerða menntastofnana, en á 13. öld fór víðast svo að stéttarfélögin höfðu betur, studia generalia lögðust smám saman niður en universitates urðu svo víða að opinberum stofnunum í staðinn.

Afleiðing af þessum uppruna háskólanna er að stjórnkerfi þeirra er jafnan fremur lýðræðislegt og sjálfstætt gagnvart ríkisvaldinu, jafnvel þar sem ríkið á háskólana og kostar þá. Dæmi þess er að æðsti stjórnandi háskóla er kosinn af starfsmönnum og stúdentum og tekur umboð sitt af þeim en ekki ríkisvaldinu. Það var sú tilhögun sem ríkti óskert hjá okkur allt þangað til sérkennileg reglufestustefna í menntamálaráðuneyti Björns Bjarnasonar fékk Alþingi til að breyta þessu með lögum árið 1999.“

Þetta var önnur rótin að hinu akademíska frelsi.

Þá kemur að hinni, enn með leyfi forseta:

„Hin meginrót akademísks frelsis er gjarnan rakin til frjálslyndra menntafrömuða við Berlínarháskóla á fyrstu áratugum 19. aldar. Þar er einkum nefndur til sögu Wilhelm von Humboldt, sem var raunar menntamálaráðherra Prússa á stuttu tímabili, 1809–10. Frelsið sem þessir menn boðuðu var talið eiga sér tvær hliðar. Annars vegar var Lernfreiheit, frelsi stúdenta til að velja sjálfir hvað þeir lærðu, hins vegar Lehrfreiheit, frelsi prófessora til að ráða hvað þeir kenndu og rannsökuðu. Raunar var það hluti af stefnu þessara manna að líta á kennslu og rannsóknir sem eina samfellda heild og bjóða þannig upp á rannsóknartengt háskólanám.

En þótt við rekjum akademískt frelsi sögulega til Humboldt og Berlínarháskóla þá er það í víðari skilningi auðvitað ekki annað en angi af frjálshyggjuþróun Evrópu. Það er ein af ótalmörgum afleiðingum þeirrar dæmalausu uppfinningar Evrópumanna á 18. öld, sem er þó auðvitað ekki komin að öllu leyti til framkvæmda enn, að það hefði mikið til síns máls að leyfa fólki að hugsa, segja og gera það sem það kysi sjálft, ef það hefði ekki í för með sér tilfinnanlegan og augljósan skaða fyrir aðra. Fram að þeim tíma, og kannski enn ef allir jarðarbúar eru taldir með, hefur verið langalgengast að fólk hefði tvo mælikvarða á hvað væri rétt. Annars vegar er hefðin, að halda áfram að hugsa, segja og gera eins og hafði alltaf verið gert. Hins vegar var opinberunin, í menningarheimum sem höfðu helga bók til að fara eftir, þá var sá vandinn einn, og ekki lítill raunar, að túlka orð bókarinnar rétt. Skynsemisstefna 18. aldar tók að rækta upp og setja í öndvegi þriðju aðferðina til að komast að sannleika og ráða fram úr vanda lífsins, nefnilega að beita skynseminni, hugsa, prófa sig áfram með eitthvað nýtt, rannsaka. Um leið og háskólarnir héldu áfram að mennta pilta til embætta í þjónustu ríkisins og þegnanna, urðu þeir forystusveit í þessum könnunarleiðangri inn í hið óþekkta; enginn gat veitt þeim leiðsögn, og þannig að þeir urðu að fá akademískt frelsi til að geta rækt hlutverk sitt.“

Þetta var tilvitnun í fyrirlestur Gunnars Karlssonar um akademískt frelsi og hann segir okkur líka á eftir að það sé eðlilegt að skoða akademískt frelsi í fjórum pörtum og miða þar við venjulegt háskólastarf, að athuga stjórnfrelsi, sem er frelsi háskólasamfélagsins til að velja sér stjórnendur, athuga námsfrelsi, frelsi háskólanemenda til að velja sér námsbrautir, athuga kennslufrelsi, frelsi háskólakennara til að kenna það sem þeir vilja, annars vegar frelsi til að ráða um hvað er fjallað í kennslunni og síðan frelsi til að ráða hverju er haldið fram um efnið, og í fjórða lagi rannsóknarfrelsi, sem annars vegar sé frelsi til að ráða hvað maður tekur til rannsóknar og hins vegar frelsi til að ráða hvaða niðurstöður maður setur fram um rannsóknarefnið.

Fyrirlestur Gunnars, eftir þennan ágæta sögulega inngang sem ég vona að þingheimur hafi haft af gagn og gaman, fjallar að öðru leyti um vandkvæði háskólakennara hér, aðallega í Háskóla Íslands, við það að ráða fram úr þessu akademíska frelsi og um það hvernig þeir fást við þessar tvær meginhliðar, annars vegar þá sem snertir afskipti ríkisvaldsins með ýmsum hætti, sem Gunnar gerir reyndar lítið úr í Háskóla Íslands, og hins vegar hvernig mönnum gangi þar að hafa frelsi í sínu samfélagi, því að stundum kemur auðvitað fyrir að háskólasamfélagið sjálft er nokkuð frekt og þrýstir á menn í störfum og í skipulagningu kúrsa o.s.frv. sem sýnir okkur að ekkert frelsi er fullkomið og lýðræðið er auðvitað ekkert annað en hið skásta af mörgum ómerkilegum samskiptakerfum okkar mannanna.

En ég vil að lokum ítreka það að mér sýnist, og ég bið um að ég sé leiðréttur með það og tel að það sé við hæfi að meiri hluti menntamálanefndar, hinir ágætu fimm þingmenn, geri það ef það er rangt hjá mér, að þessi tilvitnun eigi ekki heima í þessum texta og hafi ekkert gildi fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Það hefur hins vegar fyrirlestur Gunnars Karlssonar í heild sinni en ekki var til hans vitnað í textanum.

Um akademískt frelsi og rekstrarform háskóla eru hins vegar textar og það nýlegir sem meiri hluti menntamálanefndar hafði full tækifæri á að kynna sér, sem sá meiri hluti virðist ekki hafa gert um fyrirlestur Gunnars Karlssonar. Ég ætla að lesa þá báða. Það er, þvert á það sem ég var að lesa, ekki útúrdúr og ekki skemmtilestur fyrir þingheim eða þá sem á hlýða, heldur textar sem snerta þetta mál í hjartastað. Á annan þeirra hefur verið minnst hér áður, þ.e. sá texti í umsögn Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, sem hljóðar svo, með leyfi forseta, og er síðasti kaflinn í umsögninni:

„Í athugasemdum við frumvarpið er boðað að hinn nýi skóli verði rekinn sem einkahlutafélag. Um nýmæli er að ræða hér á landi sem löggjafinn þarf að skoða nánar. Engin trygging er fyrir því að háskólakennarar sem ráðnir eru að einkahlutafélagi búi við akademískt frelsi sem er einn af hornsteinum háskólastarfsemi í hinum vestræna heimi.“ — Ég endurtek: „Engin trygging er fyrir því að háskólakennarar sem ráðnir eru að einkahlutafélagi búi við akademískt frelsi sem er einn af hornsteinum háskólastarfsemi í hinum vestræna heimi.“ — „Svo dæmi sé tekið þá er akademískt frelsi háskólakennara stjórnarskrárvarinn réttur í Bandaríkjunum. Eðlilegra væri því að gera ráð fyrir að hinn nýi skóli yrði rekinn sem sjálfseignarstofnun enda er löng hefð fyrir því að hægt sé að vernda og viðhalda akademísku frelsi háskólakennara, þó að það sé að sjálfsögðu ekki sjálfgefið, innan háskóla sem reknir eru á þann hátt.“

Þetta segir Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri. Við þessum orðum hans eru engin mótrök, ekki í nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar og ekki í þeim textum sem meiri hluti menntamálanefndar vísar til. Ég spyr þá sem hér taka þátt í umræðum á eftir af hálfu þessa meiri hluta: Af hverju ekki? Af hverju er ekki reynt að svara þessum rökum Þorsteins sem varða sjálfan kjarna málsins, það rekstrarform sem hæstv. menntamálaráðherra hefur fallist á að valið verði á hinn nýja skóla, sem að miklu leyti er búinn til úr væntanlegri gjöf ríkisins með Tækniháskólanum til Verslunarráðs og annarra eigenda? Af hverju er þessu ekki svarað?

Hinn vitnisburðurinn er ögn lengri en þó ekki svo langur að hann eigi að ofbjóða áheyrendum mínum hér, og það er líka kjarnagrein um háskóla og rekstrarform og er eftir annan rektor, sjálfseignarstofnunar í þetta skipti, Runólf Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst. Hún heitir „Um frelsi háskóla, stjórnun og rekstrarform“.

Þessi grein sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 29. desember, 2004, er svona, með leyfi forseta:

„Hvarvetna í hinum vestræna heimi er frelsi háskóla talið á meðal þeirra grunngilda sem nútímasamfélög byggjast á. Slíkt frelsi er í raun þríþætt, akademískt, stjórnunarlegt og fjárhagslegt.

Í akademísku frelsi felst frelsi háskólastúdenta til lærdóms og háskólakennara til kennslu, þekkingarleitar og rannsókna án takmarkana eða hindrana vegna landslaga, reglna og skipulags viðkomandi háskóla eða utanaðkomandi samfélagslegs þrýstings. Mikilvægi akademísks frelsis varðar ekki einungis kennara eða nemendur, heldur samfélagið allt. Það eru langtímahagsmunir lands og þjóðar að frelsi æðri menntunar sé tryggt til þess að frjáls þekkingarsköpun eigi sér stað án íhlutunar ríkisvalds eða hagsmunaaðila. Þegar ríki, atvinnulíf eða aðrir hagsmunaaðilar stýra kennslu og rannsóknum með beinum hætti ráða skammtímahagsmunir eða sérhagsmunir sem ganga gegn heildarhagsmunum samfélagsins.

Í Bandaríkjunum var sameiginlegum grunnreglum um akademískt frelsi komið á árið 1940 með sérstakri yfirlýsingu samtaka bandarískra prófessora og samtaka bandarískra háskóla. Hæstiréttur landsins úrskurðaði árið 1967 að akademískt frelsi nyti stjórnarskrárbundinnar verndar“ — eins og minnst var á í orðum Þorsteins Gunnarssonar — „og sagði bandarísku þjóðinni bera skyldu til að varðveita það enda hefði slíkt óviðjafnanlegt gildi fyrir hana, en ekki einungis þá kennara sem í hlut ættu.“

Undir fyrirsögninni „Stjórnunarlegt frelsi“ segir Runólfur svo þetta, með leyfi forseta:

„Það skiptir máli að háskólar ráði sér stjórnunarlega og að þar gildi jafnframt skýrar og hlutlægar reglur um ráðningar og uppsagnir akademískra starfsmanna. Sú vernd er mikilvæg til að tryggja akademískt frelsi þeirra en tækifæri skólanna til að segja sömu starfsmönnum upp á málefnalegum grundvelli, t.d. vegna almennrar vanhæfni eða brots í starfi, skiptir einnig máli og þurfa báðir þessir þættir að vera tryggðir með þeim hætti að fullnægjandi sé.“

Undir fyrirsögninni „Fjárhagslegt frelsi“ kemur þetta næst frá Runólfi, enn með leyfi forseta:

„Ef háskóli er háður fjárveitingum frá einum aðila, opinberum eða einkaaðila, getur slíkt takmarkað frelsi hans, sérstaklega ef honum er meinað að afla tekna frá öðrum. Háskólar eiga því skilyrðislaust að hafa frelsi til að skapa sér tekjur með kennslu, rannsóknum eða annarri starfsemi.“

Þá kemur millifyrirsögnin „Rekstrarform háskóla og frelsi þeirra“, og eftir henni er þetta, með leyfi forseta:

„Skipta má íslenskum háskólum í þrjá flokka eftir því í hvaða rekstrarformi þeir eru.

Ríkisreknum háskólum er hætt við ríkisafskiptum á öllum sviðum og geta þar með verið háðir pólitískum áhrifum valdhafa hverju sinni. Sagan geymir fjölda dæma um slík afskipti ríkisvaldsins af málefnum háskóla sinna, t.d. í Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins. Akademískt frelsi slíkra skóla hérlendis er þó vel tryggt með ákvæðum almennra háskólalaga um ríkisháskóla og sérlögum um þá. Stjórnunarlegu frelsi ríkisháskóla til að halda uppi eðlilegri starfsmannastjórnun og gæðum í rannsóknum og kennslu eru hins vegar veruleg takmörk sett,“ — segir Runólfur Ágústsson — „sérstaklega með ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ríkisháskólar hafa jafnframt mjög takmarkað fjárhagslegt frelsi.

Skóli sem á sig sjálfur og starfar í samfélagslegum tilgangi er hins vegar vel til þess fallinn að tryggja akademískt frelsi enda er þetta rekstrarform algengasta rekstrarform hágæðaháskóla vestanhafs. Mikilvægt er þó að um frelsisþættina þrjá sé fjallað í skipulagsskrá og reglugerð skólanna. Sjálfseignarháskólar hafa stjórnunarlegt frelsi, bæði hvað varðar almenna stjórnun skólanna í heild, stjórnun starfsmannamála, gæðamála í kennslu og rannsóknum sem og eðlilega og nauðsynlega þátttöku kennara og annarra starfsmanna í akademískri stjórnun slíkra skóla. Sjálfseignarháskólar hafa einnig fullt fjárhagslegt frelsi til tekjuöflunar.

Þriðja rekstrarformið sem nú er til umræðu eru háskólar í eigu utanaðkomandi aðila. Skipulagsheild sem er í eigu einhvers verður ávallt háð eiganda sínum. Hluthafar eða aðrir sem eiga háskóla, ráða honum beint eða óbeint, enda eru ekki í gildi hérlendis almenn lög eða reglur sem setja skorður við slíku.“ — Ég vek athygli á þessari setningu og endurtek hana: „Hluthafar eða aðrir sem eiga háskóla, ráða honum beint eða óbeint, enda eru ekki í gildi hérlendis almenn lög eða reglur sem setja skorður við slíku.“ Greinin heldur síðan áfram svona, með leyfi forseta: „Utanaðkomandi eignarhald skerðir því að óbreyttu nauðsynlegt innra sjálfstæði háskóla. Akademísku frelsi slíkra skóla er þá ógnað þar sem ólíklegt er að fræðimenn eða kennarar gangi gegn hagsmunum eigenda skólans. Stjórnunarlegu frelsi eru jafnframt nokkur takmörk sett þar sem skólinn stýrir sér ekki sjálfur, heldur starfa stjórnendur hans í umboði eigenda og erfitt er að tryggja sjálfstæði fræðimanna og kennara í slíku fyrirkomulagi. Hlutafélagaskólar hafa hins vegar fullt fjárhagslegt frelsi.“

Þá er komið að niðurstöðu greinar Runólfs Ágústssonar, þessarar stuttu en mjög skýru og skörpu greinar, með leyfi forseta:

„Það er mat mitt að frelsi háskóla sé lykilatriði í starfsemi þeirra. Ég tel jafnframt að frelsi og sjálfstæði háskóla sé grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag í heild, þróun þess og velferð. Við eigum að hverfa frá ríkisreknum háskólum þar sem slíkt rekstrarform tryggir ekki mikilvæga þætti varðandi sjálfstæði háskóla og er hamlandi fyrir þá skóla sem við slíkt rekstrarform búa. Óheppilegt er að fara inn á braut hlutafélagavæddra háskóla þar sem slíkt rekstrarform tryggir ekki heldur fullkomið sjálfstæði háskóla. Sjálfseignarform er heppilegast til að tryggja frjálsa, sjálfstæða, öfluga og framsækna íslenska háskóla. Þar eigum við að fylgja fordæmi bestu og virtustu háskóla Bandaríkjamanna, sem flestir eru reknir sem slíkir og Dana sem hafa breytt öllum sínum háskólum í sjálfseignarstofnanir með breiðri pólitískri sátt í danska þinginu.

Háskólasamfélagið hérlendis á jafnframt að setja sér sameiginlegar grundvallarreglur til að tryggja akademískt frelsi, gæði í háskólastarfi og sjálfstæði háskóla. Slíkri „stjórnarskrá“ íslenskra háskóla ættu allir þeir skólar að lúta sem vilja bera sæmdarheitið háskóli. Samstarfsnefnd háskólastigsins og ráðuneyti menntamála eiga að hafa frumkvæði að þessari mikilvægu vinnu.“

Þetta var grein Runólfs Ágústssonar. Ég tel hana ákaflega merka, m.a. í því efni að höfundurinn telur heppilegast að allir háskólar séu reknir í sjálfseignarformi, að ríkisháskólunum sé sem sé breytt í sjálfseignarstofnanir. Ég ætla ekki hér og nú að taka fortakslaust undir það en þetta eru afar athyglisverðar hugmyndir og reyndar í miklu samræmi við ýmislegt sem rætt hefur verið og lagt til á Háskóla Íslands þar sem deildarforsetar hafa talað um sjálfseignarstofnanir, að Háskólinn sé það og jafnvel einstaka deildir háskólans.

Þá er nú Bleik brugðið uppi í háskóla þegar hann kemst að því að þetta tal er allt marklaust og vitleysa, að meiri hluti menntamálanefndar telur afar ábyrgðarlaust að reka háskóla á þann hátt, og fer auðvitað að snúa sér við þegar þeir sjá að hv. þingmenn Dagný Jónsdóttir, Hjálmar Árnason, Sigurður Kári Kristjánsson, Kjartan Ólafsson og Gunnar Birgisson eru á móti því rekstrarformi og telja aðeins tvennt koma til greina, annars vegar opinbera skóla, ríkisskóla sem heyri þá beint undir ríkið, eða þá hlutafélagsskóla, að ekkert sé þarna á milli vegna þess að það sé afar óábyrgt að reka skóla sem sjálfseignarstofnanir.

Að hinu leytinu, og það kemur beint inn í þessa umræðu, er Runólfur Ágústsson hér að segja það ósköp einfaldlega að háskólar í hlutafélagsformi séu varasamir. Hann ræður frá því að menn reyni við slíkar tilraunir. Hann segir um hlutafélagaháskóla, með leyfi forseta:

„Hluthafar eða aðrir sem eiga háskóla, ráða honum beint eða óbeint, enda eru ekki í gildi hérlendis almenn lög eða reglur sem setja skorður við slíku. Utanaðkomandi eignarhald skerðir því að óbreyttu nauðsynlegt innra sjálfstæði háskóla.“

Þessi grein var nú ekki send í umsagnarformi til meiri hluta menntanefndar sem slíkrar. En hún er þáttur í umræðu um háskóla og rekstrarform þeirra þannig að meiri hluta nefndarinnar hefði átt að vera í lófa lagið að afla sér hennar og líta á hana sem eins konar umsögn um það frumvarp sem hér er til umræðu og svara þeim rökum sem þar koma fram því þeim er ekki svarað í þeim gögnum sem meiri hluti menntamálanefndar styður sig við og hefur tekið heils hugar og 100% undir. Þar er ekkert svar við þessum rökum. Þar engin umfjöllun um þessa hluti sem Runólfur er hér að segja. Þar er engin tilvísun til þess hvernig þessu rekstrarformi er háttað t.d. í Bandaríkjunum, sem við kunnum að hafa ýmislegt við að athuga hvert og eitt okkar. Eitthvað fer það kannski eftir pólitík. En þar er viðurkennt að háskólar séu einna bestir í heimi. Það sem m.a. gerir þá svona góða er það að þeir njóta yfirleitt og alla jafna verulegs sjálfstæðis. Hvernig eru þeir reknir? Jú, þeir eru margir reknir sem eins konar sjálfseignarstofnanir.

Bara í þessum greinum og síðan í fyrirspurnum okkar úr 2. umr. hafa því komið fram alvarlegar spurningar um hlutafélagsformið, spurningar sem meiri hluti menntamálanefndar hefur ekki svarað og hefur ekki komið með mótrök við þeim rökum sem hér hafa verið talin fram, stór og mikil, nema þessi þrenn sem Gunnar Birgisson, hv. formaður menntamálanefndar, taldi hér fram áðan og ég hef farið yfir, sem voru þau að sjálfseignarstofnanir með fleiri stofnaðilum en einum væri flókið, síðan — var það ekki? — að ef þyrfti að slíta sjálfseignarstofnun þá fengju menn ekki peningana sína aftur. Svo var eitthvað það þriðja sem ég treysti mér ekki til þess að leita að hvað var. Ég held ég sé ekki með það blað sem ég rissaði þetta niður á.

Nú er þar til máls að taka, forseti, að hér er ekki um að ræða, má ég segja, bara eitthvert hlutafélag, eitthvert svona hlutafélag úr kennslubók eða almennt hlutafélag áhugamanna eða einhvers konar hugsjónamanna um framgang menntunar heldur er um að ræða hlutafélag sem ákveðnir aðilar í íslensku samfélagi hafa tekið sig saman um að stofna. Þeir aðilar eru fulltrúar atvinnulífsins og mega bera það sæmdarheiti þó í raun sé hér aðeins um að ræða fulltrúa annars af hinum frægu aðilum vinnumarkaðarins, annars af þeirri tvennd sem oft er talin mynda atvinnulífið, þ.e. fulltrúa atvinnurekenda. Ég vil taka fram að ég fagna áhuga þeirra og fjárframlagi til menntunar. Það hefur lengi verið beðið eftir því að þeir legðust með á árar í þessum róðri og þeir hafa nú með þessum hætti gert það mjög myndarlega og lofað auknu framlagi á næstu árum, fyrir utan auðvitað það að hinn stærsti þessara þriggja hluthafa sem hér er um að ræða hefur á margan hátt staðið sig vel í að reka tvo skóla, annars vegar Verslunarskóla Íslands og hins vegar skóla á háskólastigi, Háskólann í Reykjavík, sem reyndar er rekinn sem sjálfseignarstofnun og kannski á það ákveðinn þátt í því hvað þar hefur þó tekist vel til.

Þetta eru þrír aðilar. Þetta eru Samtök atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins án þátttöku verkalýðshreyfingarinnar. Þeir hafa auðvitað ákveðna hagsmuni í huga í því sem þeir eru að færa fram í sínu starfi. Auk þessara hagsmunaaðila þá eru þarna samtök sem einnig eru mynduð innan atvinnulífsins eða meðal atvinnurekenda, þ.e. Verslunarráð Íslands. Þau samtök eru, hvað sem okkur kann að finnast um þau, jákvætt eða neikvætt — oft jákvætt vil ég segja — þau eru auðvitað pólitísk samtök. Þau stjórnast af sérhagsmunum sínum og þörf sinni fyrir áróður og eru pólitísk samtök sem taka pólitíska línu sem við þekkjum ágætlega hér. Verslunarráðið hefur frá stofnun verið boðberi frjálshyggjulausna á vanda samfélagsins, að ég ekki segi nýfrjálshyggjulausna, þau séu nýlíberalísk pólitísk samtök. Þau hafa stundað lobbíisma hér gagnvart þingmönnum og gagnvart ríkisstjórn. Þau hafa verið rekin í nánum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn. Það þarf ekki að rekja það mjög lengi en það má sjá það t.d. á því að það eru náin persónuleg tengsl milli Sjálfstæðisflokksins og Verslunarráðsins. Meðan Vilhjálmur Egilsson, hinn góði drengur sem hér var lengi þingmaður og er nú horfinn til annarra starfa ekki alveg óskyldra, var hér á þingi þá var hann framkvæmdastjóri þessa ráðs og sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og mátti ekki á milli sjá þegar hann kom fram, hvort sem var í ræðustól Alþingis eða í fjölmiðlum, fyrir hvorn hann var að tala, Sjálfstæðisflokkinn eða Verslunarráðið. Hv. þm. Birgir Ármannsson sem nú situr á þingi var líka framkvæmdastjóri Verslunarráðsins. En það má segja um Birgi, sem er sjéntilmaður, að hann hafði siðrænan þroska til þess að skilja á milli og er hættur störfum fyrir Verslunarráðið. Það má enn segja að Þór Sigfússon, sá sem nú er framkvæmdastjóri Verslunarráðs, ágætur maður, glöggur og skýr, hann var sjálfstæðismaður og starfaði í fjármálaráðuneytinu undir stjórn núverandi fjármálaráðherra Geirs Haarde hér fyrr á síðustu öld sem rýrir auðvitað í engu hans orðspor. Þar hafa starfað margir góðir menn, m.a. ég sjálfur, og í mínum störfum þar þá var ég nú svona í eins konar háskóla bæði í pólitík og í fínans-málefnum, hversu svo sem það hefur nú til tekist. Þetta sýnir auðvitað að það er glöggt samhengi milli eins stjórnmálaflokks í landinu og þeirra pólitísku samtaka sem hér er um að ræða og verða ráðandi aðili í þessum nýja skóla ef af stofnun hans verður.

Þetta eru sem sé ekki sérstök menntasamtök sem áhugamenn um menntamál, svo sem eins og ég eða Hjálmar Árnason og fleiri slíkir, eiga aðild að eða einhverjir sérstakir hugsjónamenn í þessu efni — skal engan veginn þó dregið úr hug og metnaði þeirra manna sem hér standa á bak við — heldur eru þetta þrenn samtök sem hafa ákveðna afstöðu í samfélaginu, berjast fyrir ákveðinni pólitík og þá sérstaklega Verslunarráðið, vegna þess að hin eru þó meiri hagsmunasamtök þó þau hafi í ýmsum efnum skýra pólitíska stefnu.

Hættan við þetta — þá vil ég enn ítreka að ég er ekki að segja að hér sé ég að lýsa sannleika eða með hrakspár — en hættan við það að samtök af þessu tagi eða aðilar af þessu tagi eigi háskóla er því miður fyrir hendi. Það má t.d. spyrja sig að því, forseti, hvernig mönnum líður með það þegar Verslunarráð Íslands eða Samtök atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins setja fram ákveðna skýra stefnu sem þau berjast fyrir meðal alþýðu hér á landinu og reyna að hafa áhrif á þingmenn að leggja fylgilag sitt við hvernig þeim mönnum líður í þeim greinum í háskólanum, kennurum og nemendum, sem þetta varðar helst. Tökum sem dæmi skattatillögur Verslunarráðsins sem nú eru nýframkomnar. Verður ekki að búa svo um hnútana að það sé alveg klárt að kennarar í hagfræði, félagsfræði, almennri pólitík í hinum nýja háskóla geti tjáð sig um þessar tillögur ef þeim sýnist, að þeir séu fullkomlega öruggir um að starf þeirra sé engan veginn í hættu ef þeir gera það? Er ekki sjálfsagt að hið akademíska frelsi komi einmitt fram í þessum hlutum? Jú, við skulum vona það og þá verður að ganga sérstaklega frá því þannig, þá verður það að vera þannig, því það sem er kannski hættulegast í þessum efnum, eins og menn þekkja bæði í skólum, í fjölmiðlum og meira að segja í stjórnmálaflokkum, er það að sjálfsritskoðunin hindri menn í að nota það frelsi sem formlega stendur til boða.

Það er nú svo að þótt maðurinn sé skepna skýr, þannig að ég vitni nú í kunnan söng um annað dýr, þá er hann stundum svolítið lítill í sér. Þegar við erum að búa til okkar samfélagsform þá þurfum við stundum með formlegum hætti að styrkja möguleika til frelsis, til sjálfstæðrar umræðu, til þess að starf manna gangi fyrir sig eins og það er talið hagfelldast í háskólum með akademísku frelsi, en draga ekki úr því. Þegar aðstæður eru slíkar sem hér hefur verið rakið þá tel ég að það þurfi sérstaklega að ganga frá því að — ef ég má endurorða þetta þá tel ég að það hefði þurft að ganga svo frá því að þegar þetta frumvarp kom til okkar þá væri alveg ljóst að akademískt frelsi væri í þeirri formlegu stöðu að vera tryggt í hinum nýja háskóla eins og það er framast unnt. Er það svo? má spyrja.

Annað dæmi um hugsanleg óæskileg áhrif þess að aðilar af þessu tagi eigi háskóla án sérstaks umbúnaðar og sérstakra ráðstafana sem tryggja akademískt frelsi, ekki bara í einhverri skammtímaumræðu eða sérstökum deilumálum heldur í málum sem varða námsframboð skólans og rannsóknastarf hans, þ.e. önnur hætta er sú að eigendurna skorti nauðsynlega framsýni við háskólastarfið, í kennslu og rannsóknum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að menn horfa stundum nokkuð skammt á ætlaðar þarfir samfélagsins fyrir menntun og áætla hana í mesta lagi til næstu ára og kannski svona hálfra áratuga og líti á starfsmöguleika framtíðarinnar sem eins konar markað með þarfir sem þarf að uppfylla, líti á rannsóknir þær einar jákvæðar sem svara nákvæmlega þeim vanda sem þeir búa við þá stundina. En eins og áður er rakið, m.a. í greinum þeirra rektoranna, þá er grundvöllur háskólastarfs, bæði kennslu og rannsókna, sá að vera sem óháðastur slíkum sjónarmiðum, að geta lagt stund á bæði fræði til kennslu og til rannsókna án sérstaks tillits til skammtímahagsmuna, án þess að draga úr því að þær eigi möguleika á að vera hagnýtar með öðrum hætti.

Hvað er til ráða? Að búa svo um hlutina að akademísku frelsi, m.a. gagnvart þessum efnum, sé í fullkomnu lagi. Það teljum við í Samfylkingunni, stjórnarandstöðunni hygg ég mestallri eða gjörvallri, og þeir merku höfundar sem ég hef vitnað í með ýmsum hætti, að geti best gerst innan sjálfseignarstofnunar, sjálfseignarstofnunar sem væri þannig útbúin að hún dygði sem verkfæri eins langt og hægt er til að gera það sem menn kvarta yfir að þeir þurfi að gera með einkahlutafélaginu og ég tel að séu óþarfar kvartanir eða a.m.k. mjög miklar kröfur. Við teljum að hlutafélagsformið geti ekki búið til þær aðstæður að akademískt frelsi sé þar tryggt.

Ef um einkahlutafélagsformið væri að ræða, og í þessu tilviki virðast menn ekki hafa viljað horfa á sjálfseignarstofnunina, væru þó til einhverjar sérstakar leiðir til að draga úr göllum þess og setja inn í það kosti sjálfseignarstofnunarinnar, t.d. með því að blanda formunum saman sem hugsanlegt er og ég þekki t.d. í fyrirtæki sem ég starfaði fyrir — eða þá að setja í einkahlutafélagsreglur skólans einhverjar sérstakar reglur sem drægju úr þeim hættum sem ég taldi upp, þeim hættum sem búnar eru akademísku frelsi í slíkri stofnun. En það eru engar slíkar reglur í samþykktum Hástoðar. Eina reglan sem þar er um starf skólans er sú að framkvæmdastjóri félagsins, sem einnig heitir rektor og sér um daglegan rekstur, ráðningu og frávikningar má ekki viðhafa, með leyfi forseta: „óvenjulegar eða meiri háttar ráðstafanir.“

Í hinu skriflega svari sem vitnað var til og kennt er við Guðfinnu Bjarnadóttur er rætt aðeins betur um þetta og talað um að það sem skipti máli sé hvernig háskólaráðin starfa. Sagt er frá því að í hinum nýja háskóla eigi að vera, eins og í Háskólanum í Reykjavík, annars vegar háskólaráð og hins vegar einhvers konar framkvæmdastjórn sem er skipuð rektor, deildarforsetum og framkvæmdastjóra. Rektor, deildarforsetar og framkvæmdastjóri eru beint eða með einum millilið ráðnir hjá stjórninni og þess vegna er stjórnunarlegt, akademískt frelsi ekki fyrir hendi því einn hluti þess er auðvitað sá að starfsmenn, að háskólakennarar og nemendur eigi hlut að því ráði sem fer með hin daglegu málefni háskólans og líka þeirri stofnun þar sem lagt er á ráðin um framtíð hans og námsbrautir af ýmsu tagi.

Ég verð að segja, eins og áður hefur komið fram, að umsögn meiri hluta menntamálanefndar er sérkennileg um þetta, sem kemur fram í þeim texta sem var lesinn áðan, því meiri hluti menntamálanefndar telur ekkert athugavert við að einkahlutafélagið búi sér til stjórn sem jafnframt sé háskólaráð þannig að í háskólaráðinu sitji enginn af kennurum skólans, starfsmönnum hans, rannsóknarmönnum eða nemendum. Hins vegar segir í áliti meiri hluta menntamálanefndar að hún voni að í störfum sínum geti háskólaráð fengið starfsmenn og nemendur til ráðgjafar eftir því sem við á hverju sinni.

Það er því ráð meiri hluta menntamálanefndar og hún gerir sig mjög ánægða með það, m.a. hv. þm. Dagný Jónsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands, og að ég hygg stúdentaráðsliði á sínum tíma og hv. þm. Hjálmar Árnason sem m.a. hefur verið skólameistari á Suðurnesjum og kemur úr kennarastétt, að það sé nægileg ráðstöfun fyrir nemendur og kennara að þeir séu til ráðgjafar fyrir háskólaráðið.

Fram kemur líka í áliti meiri hlutans, sem er lofsvert, að hann hefur ákveðnar áhyggjur af málinu. Til dæmis segir svo, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að eðlileg þátttaka starfsmanna og nemenda í stjórn skólans verði tryggð og að þeim samskiptum verði fundinn eðlilegur farvegur.“

Þessi setning þýðir að hún er ekki tryggð nú þannig að meiri hlutinn treystir því að þetta verði tryggt einhvern tíma síðar. Þegar búið er að samþykkja frumvarpið verði fundinn einhver eðlilegur farvegur, einhvern tíma síðar, einhvern tíma þegar málið er komið úr höndum þingmanna, hinna kjörnu fulltrúa sem eiga að gæta hagsmuna allra landsmanna og varðveita fé þeirra, en hvort tveggja kemur hér við sögu eins og áður hefur verið rakið. Ég auglýsi eftir því að fulltrúar meiri hluta menntamálanefndar skýri fyrir okkur hvernig þeir vonast til að áhrifin verði tryggð, þátttaka verði tryggð, og hver sé hinn eðlilegi farvegur nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans sem kemur greinilega ekki fram í aðild hans að háskólaráði né neins konar annarri stjórnstofnun við skólann sem mark sé takandi á, því eftir því sem segir í texta sem meiri hlutinn hefur lýst sig 100% sammála er undir háskólaráðinu, sem jafnframt er stjórn einkahlutafélagsins, einungis um framkvæmdastjórn að ræða þar sem rektor situr með helstu samstarfsmönnum sínum sem hann hefur ráðið sjálfur.

Öll treystum við ágætlega Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík. Það er gott að við gerum það, hún hefur staðið sig vel í háskólanum og virðist vera góður skólamaður og kona með munninn fyrir neðan nefið, sem er kostur, með bein í nefinu, sem er annar kostur, og þar að auki með töluverða framsýni í skólamálum og ágæt tengsl við atvinnulífið. Við treystum henni vel. En henni getur sleppt. Eina tryggingin fyrir akademísku frelsi í háskóla þeim sem á að koma er Guðfinna Bjarnadóttir eða annar sá rektor eða starfsmaður sem hefur hlutina á hreinu, því það er enginn formlegur umbúnaður í hinum miklu pappírum tveimur, sem eru náttúrlega það eina sem mynda skólann enn þá, um þau áhrif kennara, nemenda og starfsmanna og um þá vernd og það öryggi sem þeir þurfa að hafa til þess að þarna ríki akademískt frelsi.

Rétt að rifja það upp, af því að við ræðum um þetta háskólaráð sjö manna úr atvinnulífinu sem skipaðir eru frá Verslunarráði Íslands, Samtökum atvinnurekenda og Samtökum iðnaðarins án þátttöku nemenda, kennara eða annarra starfsmanna, að í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, sem er sjálfseignarstofnun, er þessu öðruvísi háttað. Þar er stjórnin þannig að einn skipar ráðherra, tveir eru fengnir úr atvinnulífinu valdir af fulltrúaráði skólans og tveir eru ættaðir frá skólanum, einn er fulltrúi gamalla nemenda sem þar eru margir og traustir. Við það býr auðvitað ekki hinn nýi háskóli enn, en hann á nú þegar í nokkurn sjóð að ganga þar sem eru fyrrverandi nemendur Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík þó hann búi ekki að sama sjóði og Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Síðan skipa starfsmenn og nemendur einn í sameiningu í háskólaráð Viðskiptaháskólans á Bifröst. Þarna var því bein fyrirmynd. Þetta má auðvitað gagnrýna og mönnum má finnast hvað sem er um þetta, en þarna var bein fyrirmynd og það var kosið að fara ekki eftir henni.

Niðurstöður mínar og okkar í þessu efni sem ég hef fjallað um í lengra máli en ég ætlaði upphaflega, en það verður að vera svo, eru þessar:

Í fyrsta lagi tel ég mig hafa sýnt fram á að akademískt frelsi er nauðsynlegt háskólastarfi. Án þess er enginn háskóli, sine qua non.

Í öðru lagi tel ég mig hafa sýnt fram á að einkahlutafélagsformið eða hlutafélagsformið yfir höfuð á ekki vel við háskólastarfsemi. Veit ég það sem fram hefur verið tekið að í stofnskrá Hástoðar er tekið fram að hagnaður eigi að renna aftur til skólastarfsins. Veit ég líka að breyta má þeirri stofnskrá með 2/3 hlutum atkvæða manna sem hafa yfir að ráða 2/3 af hlutafé. Verslunarráð eitt gæti gert það á næsta aðalfundi félagsins. Ég er ekki að spá því en hins vegar vitum við ekkert, það er engin trygging fyrir því heldur hverjir eiga félagið í framtíðinni. Hlutirnir eru til sölu, hlut í félaginu má selja og kaupa, við vitum ósköp einfaldlega ekkert um það. Eina trygging okkar liggur í því að menntamálaráðherra hverju sinni hafi vit á að fylgjast með samningi sínum við þennan skóla sem og aðra.

Í þriðja lagi er engin tilraun gerð til þess í samþykktum félagsins að búa svo um hnútana að bættir séu þeir gallar sem hlutafélagsformið veldur óhjákvæmilega, að haldið verði uppi akademísku frelsi í skólanum og gengið frá því eins og verða má.

Í þessari stöðu er nokkuð erfitt fyrir okkur samfylkingarmenn og stjórnarandstæðinga aðra að hreyfa okkur. Málið er frágengið. Það kemur hér sem gervimál. Það er kynnt þannig að ekkert má hreyfa. Í tillögur okkar til breytinga er ekki tekið, þær skipta engu máli og við urðum vör við það í menntamálanefndinni að það er búið að sauma þannig saman félög ýmis sem álit höfðu á þessu í upphafi, verkfræðinga og tæknifræðinga t.d., að þau hafa sagt við sjálf sig: Ja, við höfum fjölmargar athugasemdir við þetta en núna er þetta orðið áður en það kemur í þingið og best að reyna að hafa áhrif til góðs.

Það er kannski líka afstaða okkar sem stöndum að áliti 1. minni hluta menntamálanefndar vegna þess að við leggjum til að hinn nýi háskóli verði einfaldlega að sjálfseignarstofnun, breyti rekstrarformi sínu í það með þeim ýmsu kostum sem ég hef talið fram og reyni jafnframt að draga úr göllum sem þeir telja vera á því formi með sérstökum ákvæðum eða reyni að semja sig með einhverjum hætti að þeim göllum. Það viljum við gera með því að bæta við háskólalögin ákvæði um að háskólar einkaaðila séu einungis stofnaðir á þann hátt að þeir séu sjálfseignarstofnanir.

Ég gekk frá áðan í umræðunni, og biðst afsökunar á því, þannig að ég missti að mestu af kafla í ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar en ég hygg að það sé ekki mjög gengið á tíma þingmanna þó ég rifji hann upp.

Í háskólalögunum sem samþykkt voru 1997 eru óljós ákvæði, a.m.k. þeim sem hafa greindarvísitölu í kringum 90 eins og allir aðrir en hv. þm. Pétur H. Blöndal, samanber umræðuna í gær. Þar segir þetta, með leyfi forseta:

„Ríkisreknir háskólar eru sjálfstæðar ríkisstofnanir sem heyra stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra og lúta stjórn samkvæmt sérstökum lögum um hvern skóla. Háskólar geta verið sjálfseignarstofnanir og starfa þá eftir staðfestri skipulagsskrá. Heimilt er einkaaðilum að stofna háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra.“

Það sést ekki í greinargerð, í framsögu eða umræðum hvað hér er átt við. Það er klárt að einkaaðilum er heimilt að stofna háskóla, en orðanna hljóðan er þannig að það er óljóst hvort þeim er heimilt að stofna hann eins og þeim sýnist, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, eða hvort þeir eiga þann kost einan að stofna hann sem sjálfseignarstofnun.

Ég ætla ekki að skera úr um þetta. Menntamálaráðherra hefur auðvitað gert það fyrir sína hönd því hún hefur ekki leiðbeint stofnendum hins nýja háskóla með þeim hætti að þeir eigi að setja þetta í sjálfseignarstofnun. Túlkun menntamálaráðherra er því skýr. Það sem við einfaldlega leggjum til er að það verði þannig að einkaaðilar geti stofnað háskóla, sem er nánast óumdeildur hlutur hygg ég, en þá aðeins með því formi að þeir fái annars vegar samþykki menntamálaráðherra og hins vegar sé sá háskóli sjálfseignarstofnun.

Þetta er niðurstaða okkar og við bíðum eftir viðbrögðum þingheims við henni. Ég tel að þó ýmislegt megi að aðdraganda málsins og gangi hans finna og ekki sé víst hvernig fer um þennan nýja skóla, sem ég þó óska allra heilla ef af verður, þá væri hann betur kominn í formi þessarar sjálfseignarstofnunar og ef svo væri þá væri með hreinu hjarta hægt að styðja hann til þeirrar björtu framtíðar sem hans vonandi bíður.