Fjármálaeftirlitið

Miðvikudaginn 20. október 2004, kl. 15:00:04 (694)


131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Fjármálaeftirlitið.

157. mál
[15:00]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi starfsskilyrði og starfsramma Fjármálaeftirlitsins. Ég tel mjög mikilvægt að gagnsæi í störfum eftirlitsins sé aukið og eftirlitið gefi mun reglulegar út eða skýri frá niðurstöðum eða framgangi rannsókna- og eftirlitsstarfa. Mér finnst eins og eftirlitið er nú sé það líkt og að dómari væri án flautu á knattspyrnuvelli eða bíll æki um án flautu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um eflingu á starfsemi og sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Við veltum því fyrir okkur hvort staða þessi er þegar of veik að heyra beint undir ráðherra sem hefur verið mjög umsvifamikill einmitt í viðskiptalífinu og ekki veitt af að hafa sérstakt eftirlit með þannig að það sé ástæða til að efla sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins.