Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 14:34:24 (799)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:34]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi byggðaáætlun var rædd á Alþingi 2002 og nánast luku hér allir upp einum munni um að í henni væru mörg góð áform. Það voru sem sagt ekki deilur um að byggðaáætlunin væri skynsamleg að ýmsu leyti og í henni væru mörg góð áform.

En þessi byggðaáætlun var í raun úrelt það sama haust. Við bentum á það hér með tillöguflutningi vegna þess að það var fyrirséð af þeim sem vildu til þess horfa að skapast mundi mikið ójafnvægi í byggðamálum því að það haust lá fyrir að framkvæmdir við álver og stóriðju á Austurlandi yrðu að veruleika. Byggðaáætlunin sem slík lagði fyrst og fremst áherslu á að styrkja Akureyrarsvæðið og sú stefnubreyting sem fólst í henni var ekki að öllu leyti væn öðrum byggðum í landinu því að það er ekki neitt gott fyrir önnur byggðarlög í landinu að þurfa að keppa við tvö höfuðborgarsvæði eins og í stefnir. Þetta er ekki sagt til þess að láta það koma fram að ég sé á móti því sem gert hefur verið á Eyjafjarðarsvæðinu og á Akureyri, þvert á móti. Ég fagna þeim áföngum sem þar hafa náðst. En það var alveg fyrirséð strax haustið 2002 að það mundi stefna í ójafnvægi.

Þess vegna fluttum við hv. þm. Gísli S. Einarsson tillögu til þingsályktunar það haust gegn ójafnvægi í byggðamálum. Sú þingsályktunartillaga fékk ekki afgreiðslu. Við hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir fluttum hana aftur síðasta haust. Hún fékk ekki heldur afgreiðslu þá. Nú segir hæstv. ráðherra í ræðu sinni að endurskoða þurfi fyrirætlanirnar sem séu í byggðaáætlun og það er svo sem hægt að fagna því þó seint sé.

En það fór, eins og ég sagði áðan, ekki milli mála að þetta ójafnvægi mundi myndast og hefði þurft að setja strax af stað skoðun á því hvernig mætti mæta því á öðrum landsvæðum. Það var ekki gert og þeirri áætlun sem hér liggur fyrir er lýst á einum stað í þessu plaggi. Hvernig er henni lýst? Henni er lýst þannig að það er heildarmat Byggðastofnunar á því hver áhrifin hafi verið og þar eru fimm atriði tiltekin. Í fyrsta atriðinu er farið yfir byggingu raforkuvers við Kárahnjúka og byggingu álvers og því lýst að af þessu séu mikil áhrif. Allt er rétt um það.

Í öðru lagi er talað um þetta 700 millj. kr. framlag til þess annars vegar að leggja fram hlutafé í sprotafyrirtæki og fyrirtæki í skýrum vexti og hins, að styðja rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna. Og hvert fóru þessir fjármunir? Þeir fóru nánast allir á sömu svæðin, á þetta landsvæði á suðausturhorni landsins.

Í þriðja lagi var sérstakt átak í að flýta samgöngubótum og því er fullkomlega hægt að fagna. En það var nánast ekki fyrr búið að ákveða að hafa þetta átak en orðið var ljóst að ekki yrði hægt að framfylgja því. Ég held að 1.800 hundruð millj. kr. hafi vantaði upp á að hægt væri að eyða þeim peningum sem ríkisstjórnin hafði ætlað að gera og síðan er búið að boða niðurskurð í vegamálum eins og farið var yfir áðan. Þetta tókst því ekki aldeilis.

Fjórða atriðið var sérstaka áætlunin fyrir Eyjafjörð og eins og ég sagði áðan þá er allt gott um hana að segja.

Fimmta atriðið var bygging menningarhúss á landsbyggðinni.

Nú segi ég: Hvað skyldu menn á norðvesturhorni landsins hafa fundið mikið fyrir þessum fimm atriðum sem Byggðastofnun lýsir að hafi verið áhrifin af byggðastefnunni sem þarna var framkvæmd? Ég held að menn hafi ekki æðimikið orðið varir við áhrif af þessu einmitt á þeim landsvæðum þar sem fyrirséð var að myndast mundi ójafnvægi gagnvart öðrum hlutum landsins.

Auðvitað áttu menn að fara yfir þessi mál upp á nýtt þegar ljóst var í hvað stefndi á norðausturhorni landsins. En ekki var á það hlustað frekar en margt annað sem lagt er til hér af stjórnarandstæðingum.

Af því að ég nefndi vegamálin þá er náttúrlega sannleikurinn sá að hvað sem okkur finnst um allar aðrar framkvæmdir og tilraunir til þess að koma til móts við byggðarlögin í landinu þá hafa samgöngubætur alla tíð skipt mestu máli. Það vill nú svo til að í þessari viku var verið að kynna skýrslu þar sem farið var yfir hvaða áhrif Hvalfjarðargöngin hefðu haft á byggðarlögin sem eru aðliggjandi þeim. Og hver er niðurstaðan? Hún er sú að hin jákvæðu áhrif hafi verið gríðarleg. Hvað var þarna að gerast? Hvað eru Hvalfjarðargöng? Þau eru 5 kílómetra langur vegur í staðinn fyrir rúmlega 50 kílómetra langan veg og reyndar 60 þegar Akranes er haft í huga. Það er sem sagt vegstytting um milli 50 og 60 kílómetra sem hafði þessi gríðarlegu áhrif. Það er þess vegna sem mönnum svíður það sárt að sjá fram á að nú eigi að fara að bakka í þeirri sókn til betri samgöngumannvirkja sem hefur þó verið í gangi. Það er ekki gott. Ég tel reyndar að það sé alveg sérstök ástæða til þess að menn snúi af þeirri braut vegna þess að hún kemur fyrst og fremst niður þar sem síst skyldi, þ.e. á þeim svæðum sem hafa orðið út undan. Það er búið að taka hér ákvarðanir um það í hvað eigi að eyða mestu fjármununum á næstu árum. Það eru jarðgöng út Eyjafjörð.

Ég held að fyrst og fremst vanti út á Vestfirði samgönguátak sem komi byggðarlögum þar í almennilegt vegasamband, framtíðarvegasamband. Það gerist ekki með niðurskurði í vegamálum. Það gerist með því að menn ákveði að flýta þar framkvæmdum. Ég held að allra mestu máli skipti að menn geri það. Númer eitt til að koma til móts við landsbyggðina er að bæta vegakerfið og samgöngurnar. Það hefur virkað. Það er ekki margt sem hefur virkað þannig að menn hafi séð raunverulegan árangur annað en þetta. Það hefur líka virkað þannig að menn hafi jú séð árangur að settir hafa verið fjármunir í að auka starfsemi í menntamálum, framhaldsskólum og háskólum úti á landi. Það hefur raunverulega virkað og á það þurfa menn að leggja mikla áherslu.

Það er heldur ekki hægt að neita því að stórkostlegir hlutir í stóriðjumálum, eins og fyrir austan, hafa virkað. En þeir virka á tilteknum afmörkuðum svæðum. Slíkar ákvarðanir eru í sjálfu sér ekki byggðamál. Það er ekki hægt að reka byggðastefnu á þeim grundvelli að það eigi að byggja stóriðju einhvers staðar. Það getur aldrei gengið. Menn verða að hafa yfirsýn og möguleika af öðru tagi til þess að hægt sé að koma til móts við þarfir landsbyggðarinnar án þess að koma með eitt stykki stóriðju. Það er ekki hægt að mæta í byggðarlögin með álver upp á vasann. Svoleiðis gengur ekki. Það vantar reyndar stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar um það hvar eigi að setja niður slíka starfsemi í landinu.

Ég hef ekki oft hælt hæstv. landbúnaðarráðherra. En hann lagði það þó á sig og gerði það í sambandi við fiskeldi að búið er að reita niður landið og ákveða hvar megi setja fiskeldi af ýmsu tagi, í hvaða fjörðum megi hafa það. En það er engin áætlun til um það hvar eigi að hafa álver og stóriðju, engin. Við megum sem sagt eiga von á hæstv. iðnaðarráðherra með einhverja Alcoa-menn upp á arminn hvar sem er á landinu þar sem þeim þóknast að væri nú hægt að setja niður álver og þá er bara að taka því. Það er ekki til neitt um hvað menn vilja í þessu efni, því miður. En það þyrfti sannarlega.

Eitt af þeim atriðum sem skiptir að mínu viti gríðarlegu máli er að efla sveitarfélögin. Ríkisstjórnin er að burðast við að gera það en hefur að ég tel ekki tekið ákvarðanir sem skipta nógu miklu máli til að skila árangri. Ég óttast að niðurstaðan verði að átakið muni bíða verulegt skipbrot og það muni vanta verulega upp á að til verði heildstæð stór sveitarfélög sem tekið geti til sín aukna þjónustu og byggt upp öflugt menntaumhverfi. Þar með mun ekki vera hægt að bjóða upp á sambærilega þjónustu í öllum sveitarfélögum. Það gerist ekki nema sveitarfélögin, flest eða öll verði það sterk að þau geti tekið við auknum verkefnum frá ríkinu.

Ég get ekki flutt ræðu um þessi mál án þess að minna á það sem hefur virkað öfugt á undanförnum árum. Hvað sem hæstv. ráðherra segir um þetta steinbarn sem eignarhaldið á veiðiréttinum er þá er fiskveiðistjórnin ein helsta ástæðan fyrir þrengingum margra byggðarlaga, að réttindin til að stunda grundvallaratvinnuveginn gufuðu upp, urðu að eign sem var keypt og seld á milli hinna stóru í útgerðinni. Eftir sitja þeir sem þar eiga heima án þess að geta bjargað sér þegar útgerðin sem þeir unnu hjá er horfin á braut.

Það var þó alltaf möguleiki í slíkum byggðarlögum, að menn tækju sig saman og færu í útgerð eða fiskvinnslu. En það gerist ekki lengur vegna þess að eignarhaldið á veiðiréttinum kemur í veg fyrir það. Eignarhald á hvaða veiðirétti? Eignarhald á sameign þjóðarinnar, fiskimiðunum við landið. Þessi sameign þjóðarinnar var einkavædd án þess að það væri nokkurn tímann rætt opinberlega hvað menn væru í raun að gera. Það er nú það sem er í gildi þrátt fyrir allt.

Vitanlega væri gaman að ræða um margt í yfirferð um þessa skýrslu um byggðaáætlun. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að það getur verið hættulegt að setja sér markmið ef menn eru ekki tilbúnir að endurskoða þau, eins og ljóst má vera að þarf að gera. Ég kalla eftir því sem menn sjá nú í spilunum til að koma til móts við þau byggðarlög sem orðið hafa út undan, vegna þess að byggðaáætlunin virkar eins og hún gerir. Byggðastofnun hefur réttilega lýst áhrifunum af því sem menn eru að gera.

Það má ekki taka orð mín þannig að ég sé að setja út á allt í áætluninni. Mér finnst margt gott sem menn hugsa hér um og framkvæma. En heildaráhrifin eru því miður þannig að þau koma ákaflega misjafnlega niður. Mjög stór landsvæði sitja eftir í miklum erfiðleikum.

Ég get ekki annað en notað síðustu mínútuna sem ég hef í þessa ræðu til að nefna það sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson endaði andsvar sitt til hv. þm. Kristjáns Möllers á, þ.e. að þeir hefðu tekið við hörmulegu búi af vinstri mönnum. Hvað skyldi Sjálfstæðisflokkurinn hafa setið lengi við völd á síðustu 26 árum? 22 ár, hv. þm. Guðjón Guðmundsson. Hverjir skyldu fyrst og fremst bera ábyrgð á ástandinu á þeim tíma? Eru það ekki þeir sem hafa verið við völd? Var ekki Sjálfstæðisflokkurinn við völd í landinu á þessum árum, eða misminnir mig eitthvað?