Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 16:37:59 (835)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:37]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur í ítarlegu máli sínu rætt um hvað samgöngumál, málaflokkur hans, skipta miklu máli fyrir byggðamál. Það er hárrétt og fær stuðning í skýrslu sem hér er rædd í dag frá Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnun, að samgöngubætur séu þær aðgerðir sem best séu fallnar til þess að bæta afkomu og lífskjör á landsbyggðinni.

Menn eiga að njóta þess sem vel er gert og að mínu mati hefur margt verið vel unnið í samgöngumálum. Við sem búum á landsbyggðinni sjáum það. Sama gildir um ferðaþjónustuna. Hæstv. samgönguráðherra kom inn á hana og mikilvægi hennar og auðvitað brýnir maður hann til áframhaldandi góðra verka. Þetta er gríðarlega mikilvægt í byggðamálum, þ.e. samgöngumál og ferðaþjónusta.