Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 22:43:50 (3054)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:43]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að endurtaka mig enn einu sinni um ástæðu þess að ég er með á þessu nefndaráliti með fyrirvara, þ.e. að málið fái að koma hingað inn í þingsal, hljóti þinglega meðferð og með því er ég ekki að skuldbinda mig til að styðja málið.

Hins vegar út af þessari umræðu þá er það kannski rétt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir að mál séu afgreidd með dálítið miklu hraði á nefndasviðinu. Ég gerði grein fyrir fyrirvara mínum og hvernig þessu væri háttað. Menn hafa vitað frá upphafi hver afstaða mín er og enginn hefur gert mér viðvart um að þetta sé eitthvað sem ekki tíðkast, þ.e. að skrifa upp á með slíkan fyrirvara.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún kannist ekki við það frá því í kvöld, eða hvort mig misminnir, að einhverjir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs hafi verið hér á málum með fyrirvara en sitji hjá í atkvæðagreiðslu.