Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 18. október 2005, kl. 13:37:10 (625)


132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar.

[13:37]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna því að þessi skýrsla er svo jákvæð fyrir ríkisstjórnina, bæði á síðustu árum og nú á yfirstandandi ári, að það er allt að því vandræðalegt, maður verður feiminn.

Það er tvennt neikvætt sem hún nefnir, annars vegar skattalækkanirnar sem hún telur neikvæðar. Nú er það þannig að laun hafa hækkað óskaplega á Íslandi, óskaplega, lífeyrir og allt saman. Af því hvernig skattkerfið er uppbyggt þýðir það að skattheimtan vex hlutfallslega af launum. Þeir sem hafa hærri laun borga hlutfallslega meiri skatta. Það þýðir að skattheimtan vex sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og líka sem hlutfall af launum. Þær skattalækkanir sem við stöndum fyrir eru í rauninni minnkun á skattahækkun og ef skattkerfið væri öðruvísi uppbyggt værum við ekki að tala um skattalækkun. Þetta er það sem þessi alþjóðastofnun ætti að horfa á, að skattar sem hlutfall af heildartekjum landsmanna eða af landsframleiðslu fara vaxandi.

En ég ætla rétt aðeins að geta pínulítið um það jákvæða í skýrslunni. Þeir bera lof á þann árangur sem náðist við einkavæðingu Símans. Það er náttúrlega alveg stórkostlegt. Ríkisstjórnin stendur með Seðlabankanum í að halda niðri þenslu með því að draga 30 milljarða í peningum út úr hagkerfinu. Það er aldeilis gott. Og svo segir hérna dálítið athyglisvert, sérstaklega fyrir evruvini, að þessi góða niðurstaða byggist á miklum sveigjanleika íslenska hagkerfisins, ekki síst í gengismálum. Það er nefnilega mjög jákvætt, segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Hann ætti að hafa vit á því, hann fjallar um gjaldeyri.