Hætta á vegum á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 11:16:44 (3740)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

hætta á vegum á Vestfjörðum.

352. mál
[11:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um jarðgangagerð á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar undanfarið og ekki að tilefnislausu. Ríkisstjórnin kom fram með ónýta tillögu um að gerð yrðu jarðgöng um hluta leiðarinnar sem nægir auðvitað alls ekki til að koma þessum samgöngum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur í viðunandi horf. Nú hafa Bolvíkingar reist rönd við. Þeir mótmæltu kröftuglega sem varð til þess að samgönguráðherra hopaði með þessa ónýtu fyrirætlan sína og setti í gang athugun á öðrum kostum en hins vegar hefur staðið á því eins og reyndar öðrum fyrirætlunum í samgöngumálum á næstu árum að við fengjum upplýsingar um hvað fyrirhugað er að gera.

Það má líka segja þó að minna hafi farið fyrir því að á veginum á milli Ísafjarðar og Súðavíkur er mjög oft hættuástand. Fyrir nokkrum dögum var ég fyrir vestan, á Ísafirði, og hitti þá konu sem vinnur inni á Ísafirði en býr á Súðavík og þegar hún átti leið hjá þar nýlega rétt slapp hún við sjö flóð á veginn og eitt af þessum flóðum var svo stórt að það hefði tekið bílinn niður í fjöru ef hann hefði verið staddur á þeim stað.

Fólk á Vestfjörðum er hugsanlega orðið vant þessu ástandi. Það kemur ekki einu sinni í fréttunum þótt snjóflóð falli á veginn, ekki alltaf í það minnsta, en mér þykir full ástæða til að vekja athygli á þessu ástandi og hvetja til þess að gerð verði metnaðarfull áætlun um það hvernig eigi að koma samgöngumálum Bolvíkinga, Ísfirðinga og Súðvíkinga og samskiptamöguleikum þessara þriggja bæjarfélaga hvert við annað í viðunandi horf. Og það er mjög nauðsynlegt af því að líf og heill þessara íbúa er að veði. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hvað hefur oft þurft að loka veginum á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar vegna grjóthruns og snjóflóða sl. fimm ár?

2. Hvað hafa á sama tímabili oft verið gefnar úr viðvaranir til vegfarenda um hættu á hruni eða snjóflóðum?

3. Hvað hafa oft fallið snjóflóð á veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur á sama tímabili?