Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins

Þriðjudaginn 20. febrúar 2007, kl. 14:36:43 (5115)


133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að koma í umræðuna. Hæstv. ráðherra áréttaði eiginlega það sem ég sagði, finnst mér, að ástæða er til að stoppa við. Það er ástæða núna til að vera ekki að rugga bátnum meir. Það er ástæðulaust að hleypa Orkubúi Vestfjarða og Rarik núna inn í Landsvirkjun því ráðherra boðaði sjálfur að gera þyrfti úttekt á þessum málum. Þá eigum við að stoppa við því við gerum úttekt á þeim vegna þess að við finnum að það er ekki allt í lagi.

Ég vil benda hæstv. iðnaðarráðherra sem ætti náttúrlega að lesa ræður fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, á Alþingi, því þó að skipt sé um ráðherra hjá einum flokki mánaðarlega eða á þriggja mánaða fresti þá er ekki hægt að skipta um stefnu í sjálfu sér. Það finnst mér ekki. Þó að ráðherra vildi illa við það kannast hefur stefnan undanfarið verið ljós, það hefur verið markaðsvæðing raforkukerfisins, alveg klárlega.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að komnar eru tvær skýrslur sem ég hef vitnað til um árangurinn af markaðsvæðingu raforkukerfisins í Evrópu á grundvelli tilskipana sem við vorum að innleiða nýju raforkutilskipanir okkar á. Skýrslurnar um Evrópu sýna að það hefur á flestan hátt mistekist. Reyndar nákvæmlega það sama og við upplifum hér á miklu minni markaði. Ég hvet því hæstv. iðnaðarráðherra til að taka þetta alvarlega og stoppa frekari samþjöppun inn á raforkugeirann, eins og hér er fyrirhugað og taka málin út.