Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 515. máls.

Þskj. 778  —  515. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um leit, rannsóknir
og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Leit merkir í lögum þessum könnun á almennum skilyrðum til myndunar og varðveislu kolvetnis, afmörkun svæða þar sem slík skilyrði eru hagstæð og leit að kolvetnisauðlindum með mælingum úr lofti, á láði, á legi eða hafsbotni eða með sýnatöku úr efstu jarðlögum hafsbotnsins, t.d. með grunnum borunum eða töku kjarna.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Íslenska ríkið er eigandi kolvetnis skv. 1. gr. Heimilt er að semja við handhafa vinnsluleyfis að hann verði eigandi þess kolvetnis sem hann framleiðir.
    Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
    Iðnaðarráðherra er heimilt að fela Orkustofnun að veita leyfi og taka aðrar stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    Í stað orðsins „iðnaðarráðherra“ í 1. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 7. gr., 3.–5. mgr. 8. gr., 12. gr., 14. gr., 1.–3. mgr. 15. gr., 1.–3. mgr. 16. gr., 1. og 3. mgr. 17. gr., 18. gr., 1.–2. mgr. 19. gr., 1.–2. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 24. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Orkustofnun.
    Í stað orðsins „ráðherra“ í 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 7. gr. og 30. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Orkustofnun.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, 1. og 2. mgr., svohljóðandi:
                  Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á tilteknum svæðum. Slíkt leyfi felur í sér einkarétt leyfishafa til rannsókna og vinnslu. Nánar skal kveðið á um skyldur og rannsóknarkvaðir leyfishafa í rannsóknar- og vinnsluleyfi.
                  Í þeim tilvikum þar sem handhafar leyfis til rannsókna og vinnslu á kolvetni eru fleiri en einn ber að leggja til staðfestingar Orkustofnunar samstarfssamning um framkvæmd leyfisins. Allar breytingar á slíkum samningi, eða aðrir viðaukar, eru háðir samþykki Orkustofnunar. Einungis má veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis aðilum sem hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast þessa starfsemi.
     b.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum felur í sér heimild til þess að rannsaka kolvetnisauðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum með þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögum þessum, í leyfinu sjálfu og samkvæmt nánari fyrirmælum Orkustofnunar. Orkustofnun er heimilt að skipta leyfistíma rannsóknarleyfis í undirtímabil þar sem kveðið skal nánar á um réttindi og skyldur leyfishafa á hverju einstöku tímabili.
                  Vinnsluleyfi samkvæmt lögum þessum felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi kolvetnisauðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í lögum þessum, í leyfinu sjálfu og Orkustofnun telur nauðsynlega.
                  Leyfishafi skal árlega greiða til ríkissjóðs gjald vegna afnota af rannsóknar- og/eða vinnslusvæði. Fyrstu sex ár sem leyfi er í gildi skal leyfishafi greiða árlega 50.000 kr. fyrir hvern ferkílómetra sem leyfið tekur til en þar á eftir hækkar gjaldið árlega um 10.000 kr. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en 150.000 kr. árlega.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal tekið tillit til vinnslu sem þegar er hafin eða sótt hefur verið um í næsta nágrenni.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Við ákvörðun um veitingu rannsóknar- og vinnsluleyfis skal einkum taka mið af fjárhagslegri og tæknilegri getu umsækjenda, að vinnsla auðlindar sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og á hvaða hátt framlögð rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði. Telji Orkustofnun tvær eða fleiri umsóknir jafnhæfar að uppfylltum framangreindum skilyrðum er henni heimilt að meta umsóknir út frá öðrum skilyrðum.
     c.      4. mgr. verður svohljóðandi:
                  Heimilt er að veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis án auglýsingar ef svæðið sem leitað er leyfis fyrir:
                  a.      er aðgengilegt til langs tíma;
                  b.      hefur áður sætt málsmeðferð þar sem auglýst hefur verið en hefur ekki leitt til þess að leyfi hafi verið veitt; eða
                  c.      hefur verið gefið eftir af fyrirtæki enda fellur það ekki sjálfkrafa undir a-lið.
        Áður en slíkt leyfi er veitt skal gefa leyfishöfum á aðlægum svæðum tækifæri til að sækja um rannsóknar- og vinnsluleyfi á viðkomandi svæði. Birta skal auglýsingu innan þriggja mánaða frá ákvörðun þessari í Lögbirtingablaði og Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins þar sem fram kemur afmörkun viðeigandi svæðis ásamt leiðbeiningum um hvar veittar eru frekari upplýsingar um leyfisveitingu á svæðinu.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Leyfisveiting.

6. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Í umsóknum um rannsóknar- og vinnsluleyfi skal koma skýrt fram hvert sé markmið með öflun leyfis ásamt ítarlegum upplýsingum um staðsetningu, umfang, eðli og tímasetningu fyrirhugaðra framkvæmda umsækjanda eftir nánari ákvörðun Orkustofnunar.
    Telji Orkustofnun að umsókn um rannsóknarleyfi uppfylli ekki kröfur skv. 1. mgr. getur hún synjað um rannsóknarleyfi eða sett sérstök skilyrði í rannsóknarleyfi af þessu tilefni.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Miða skal tímalengd leyfis við umfang rannsókna og eðli kolvetnisauðlindar.
     b.      Við 2. mgr. bætast fjórir málsliðir, svohljóðandi: Umsókn um framlengingu leyfis skal berast Orkustofnun eigi síðar en 90 dögum áður en gildandi leyfi fellur úr gildi. Orkustofnun er heimilt að krefja leyfishafa um eftirgjöf ákveðins hluta rannsóknarsvæðis áður en leyfi er framlengt og skal tillaga leyfishafa um slíka eftirgjöf berast Orkustofnun eigi síðar en 90 dögum fyrir lok gildistíma leyfis. Frekari fyrirmæli um eftirgjöf svæða skulu sett í rannsóknarleyfi. Berist Orkustofnun eigi tillaga leyfishafa er henni heimilt að ákveða eftirgjöf svæða.
     c.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Stöðvi leyfishafi vinnslu samfellt í þrjú ár fellur leyfið niður að þeim tíma liðnum.
                  Heimilt er að afturkalla leyfi ef bú leyfishafa er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga.

8. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Í rannsóknar- og vinnsluleyfi skal m.a. tilgreina:
     1.      Tímalengd leyfis. Skal kveðið á um hvenær starfsemi skuli í síðasta lagi hefjast og hvenær henni skuli lokið.
     2.      Afmörkun rannsóknar- eða vinnslusvæðis.
     3.      Hvernig skuli staðið að vinnslu kolvetnis, þar á meðal skilyrði um staðsetningu og dýpi borholna til vinnslu og niðurdælingar og vinnsluhraða.
     4.      Upplýsinga- og tilkynningarskyldu leyfishafa til Orkustofnunar, þ.m.t. skyldu til afhendingar á sýnum og gögnum og hvernig hún skuli innt af hendi.
     5.      Öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir eins og við á.
     6.      Kaup ábyrgðartrygginga hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, bankatryggingar eða aðrar tryggingar sem Orkustofnun metur jafngildar og bæta tjón sem leyfishafi kann að valda með störfum sínum.
     7.      Ráðstöfun vinnslumannvirkja og vinnslutækja að leyfistíma loknum.
     8.      Frágang á hafstöðvum og starfsstöðvum sem nýtt hafa verið við rannsóknir eða vinnslu.
     9.      Umsækjandi skal leggja fram viðeigandi uppdrætti.
    Heimilt er að kveða á um að leyfi skuli endurskoðað að tilteknum tíma liðnum, enda hafi forsendur fyrir skilyrðum leyfisins breyst.
    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um rannsóknar- og vinnsluleyfi.

9. gr.

    4. mgr. 22. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
    Orkustofnun skal hafa eftirlit með því að leyfishafi starfi samkvæmt lögum þessum og leyfum til leitar, rannsókna og vinnslu sem gefin hafa verið út á grundvelli laganna. Iðnaðarráðherra er heimilt að setja nánari reglur um eftirlit Orkustofnunar með reglugerð.

11. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna bætast við tvær nýjar greinar, 24. gr. a og 24. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (24. gr. a.)

Heimildir Orkustofnunar.


    Orkustofnun getur krafið leyfishafa um allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum. Skulu gögn og upplýsingar berast innan hæfilegs frests sem Orkustofnun setur. Orkustofnun getur einnig skyldað þessa aðila til að upplýsa stofnunina reglulega um þau atriði sem máli skipta við eftirlitið.
    Orkustofnun getur í eftirlitsstörfum sínum krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.

    b. (24. gr. b.)

Úrræði Orkustofnunar.


    Ef leyfishafi fer ekki eftir skilyrðum laga þessara, reglugerða settra samkvæmt þeim, skilyrðum rannsóknar- og vinnsluleyfis eða öðrum heimildum skal Orkustofnun veita honum skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ef leyfishafi sinnir ekki aðvörun Orkustofnunar innan tilgreindra tímamarka getur Orkustofnun afturkallað leyfið eða breytt því. Ef um alvarlegt brot eða vanrækslu er að ræða eða ljóst er að leyfishafi getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu getur Orkustofnun þó afturkallað það án aðvörunar.
    Dagsektir geta numið 50.000–500.000 kr. á dag. Við ákvörðun dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots þeirra hagsmuna sem í húfi eru. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir eru aðfararhæfar, svo og kostnaður við innheimtu þeirra. Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Fari leyfishafi ekki að tilmælum Orkustofnunar skal hún veita ráðherra upplýsingar um málið.

12. gr.

    Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Orkustofnun varðveitir upplýsingar um kolvetnisauðlindir í gagnagrunni. Þar verða gögn sem aflað hefur verið með leit, rannsókn, vinnslu og eftirliti, auk skilaskyldra gagna frá leyfishöfum.

13. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Þagnarskylda.


    Upplýsingar, sem varðveittar eru af Orkustofnun samkvæmt lögum þessum, skulu vera undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt upplýsingalögum á gildistíma rannsóknarleyfis.
    Starfsmenn Orkustofnunar sem annast eftirlit á grundvelli laga þessara eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sérfræðinga sem sinna eftirliti fyrir Orkustofnun, svo sem starfsmenn faggiltra skoðunarstofa og eftirlitsaðila. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
    Upplýsingar, sem leyfishafi veitir Orkustofnun samkvæmt lögum þessum, skulu vera í vörslu stofnunarinnar. Nú er trúnaðarskylda skv. 1. mgr. fallin niður og er Orkustofnun þá heimilt að láta umræddar upplýsingar í té eða nýta þær í þágu frekari leyfisveitingar.
    Lögmælt þagnarskylda íslenskra yfirvalda skal ekki vera því til fyrirstöðu að þau gefi Eftirlitsstofnun EFTA allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ákvæði um þagnarskyldu standa því ekki í vegi að Orkustofnun eða önnur stjórnvöld samkvæmt ákvörðun iðnaðarráðuneytis gefi opinberlega almennar upplýsingar um leitar-, rannsóknar- og vinnslusvæði og framkvæmdir á því svæði, m.a.:
     1.      Veiti almennar upplýsingar í tengslum við opinberar tilkynningar, ársskýrslur og annað þess háttar er varðar kolvetnisstarfsemi.
     2.      Afhendi upplýsingar vegna samstarfs um kolvetnisstarfsemi við annað ríki, svo fremi svipaðar reglur um upplýsingaleynd gildi í því ríki.
     3.      Nýti sér upplýsingar til aukinnar þekkingar á jarðlögum og auðlindum hafsbotnsins.
    Heimilt er að kveða nánar á um þagnarskyldu í leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis.

14. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Eftirlit, úrræði og upplýsingagjöf.

15. gr.

    30. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að framselja leyfi samkvæmt lögum þessum, eða nokkurn hluta þess, beint eða óbeint, þriðja aðila eða samleyfishafa nema að fengnu samþykki Orkustofnunar. Einnig er óheimilt nema að fengnu samþykki Orkustofnunar að framselja hlutafé eða önnur eignarréttindi í slíku magni að það geti breytt ráðandi stöðu í félagi sem er leyfishafi eða samleyfishafi eða gera samninga sem hafa sömu áhrif.
    Orkustofnun er heimilt að krefjast gjaldtöku vegna framsals leyfa skv. 1. mgr. Heimilt er að kveða á um slíka gjaldtöku í leyfi.

16. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gjaldtaka vegna útgáfu leyfa og eftirlits.


    Til að standa undir kostnaði af undirbúningi og útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum skal greiða gjöld til leyfisveitanda:
     1.      Fyrir leyfi til leitar að kolvetni með rannsóknir og vinnslu að markmiði, sbr. 4. gr., skal greiða 750.000 kr.
     2.      Fyrir leyfi til rannsókna kolvetnis, sbr. 7. gr., skal greiða 1.000.000 kr. Fyrir leyfi til vinnslu kolvetnis, sbr. 7. gr., skal greiða 1.500.000 kr.
    Handhafi leitarleyfis skal greiða gjald að fjárhæð 500.000 kr. á ári til að standa straum af kostnaði eftirlits, frágangi og varðveislu gagna samkvæmt lögum þessum.
    Handhafi rannsóknar- og vinnsluleyfis skal greiða gjald að fjárhæð 1.000.000 kr. á ári til að standa straum af kostnaði við eftirlit, frágang og varðveislu gagna samkvæmt lögum þessum.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Á 128. löggjafarþingi voru lög nr. 13/2001 samþykkt og voru þau fyrstu heildarlög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis hér á landi. Þótt lög nr. 13/2001 séu ung að árum hefur verið talið nauðsynlegt að leggja í vinnu við endurskoðun laganna í ljósi aukins áhuga á rannsóknum á kolvetnisauðlindum er kunna hugsanlega að vera til staðar innan efnahagslögsögu Íslands.
    Í mars 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að útgáfu leyfis til rannsókna og vinnslu kolvetnis og samhliða þeirri vinnu yrði unnið að endurskoðun laga nr. 13/2001. Til að tryggja faglegan framgang starfsins þar sem nyti við þverfaglegrar sérfræðiþekkingar var komið á formlegum samstarfsvettvangi og vinnuhópar settir á laggirnar. Frumvarp þetta tekur mið af þessu samstarfi ráðuneyta og fagaðila á vettvangi kolvetnis.

II. Efni frumvarpsins og helstu ástæður breytinga.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar er falla innan þeirrar meginstefnu sem mörkuð var með setningu laga nr. 13/2001 en horfa til bóta í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af framkvæmd laganna. Lög nr. 13/2001 innihalda greinargóð ákvæði um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis þar sem tekið er til að mynda á eignarrétti, stjórnsýslu og öryggisþáttum. Ekki þykir ástæða til að hrófla við efnislegu innihaldi laganna að öðru leyti en að kveðið verði nánar á um réttindi og skyldur leyfishafa sem og að lagðar eru til einstaka breytingar varðandi stjórnsýsluhluta laganna.
    Lög nr. 13/2001 taka til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis og flutnings þess eftir leiðslukerfi utan netlaga, í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Lögin taka einnig til hafstöðva nema annað sé ákveðið í lögum eða reglum settum með stoð í lögum þessum, sbr. 1. gr. laganna. Lögum nr. 13/2001 var ætlað að vera almennur rammi um kolvetnisstarfsemi og skýra réttarstöðu þeirra sem hyggjast stunda kolvetnisstarfsemi á íslensku forráðasvæði.
    Á undanförnum árum hefur vaknað áhugi bæði erlendra sem og innlendra aðila á að kanna hagkvæmni kolvetnisauðlinda í íslenskri efnahagslögsögu. Ljóst er að nauðsyn kallar á nánari og gleggri útfærslu á ákvæðum laga nr. 13/2001 svo unnt verði að tryggja réttarstöðu þeirra er hafa hagsmuna að gæta. Einnig er nauðsynlegt að kveða nánar á um stjórnsýsluhluta laganna, þar á meðal virkara eftirlitshlutverk Orkustofnunar og úrræði stofnuninni til handa. Heildstæð löggjöf veitir ekki einvörðungu aukið réttaröryggi heldur er um leið hvatning fyrir einkaaðila að leggja út í þær kostnaðarsömu framkvæmdir sem leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis á hafi úti augljóslega eru. Bæði stjórnvöld og leyfishafar hafa af því ríka hagsmuni að stjórnsýsla kolvetnismála sé bæði skýr og skilvirk og valdmörk stjórnvalda greinileg. Einnig er mikilvægt að stjórnvöld hafi nauðsynlegar og lögmæltar valdheimildir til að sinna þeim verkefnum sem þeim er falið við framkvæmd laganna. Tillögum þeim sem lagðar eru fram í frumvarpinu er ætlað að bregðast við kröfu um aukið réttaröryggi og um leið að stuðla að einfaldri, skilvirkri og gegnsærri stjórnsýslu.
    Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru að skýrar er kveðið á um stjórnsýsluhluta laganna. Í núgildandi lögum þykir skorta ítarlegri ákvæði um réttindi og skyldur leyfishafa sem og leyfisveitanda. Með frumvarpinu er stefnt að því að eyða allri hugsanlegri óvissu um réttindi og skyldur aðila. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á eignarrétti kolvetnisauðlinda sem áfram eru, og munu vera, í eigu íslenska ríkisins, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Samkvæmt lögum nr. 13/2001 er iðnaðarráðherra, í samræmi við eignarrétt íslenska ríkisins, leyfisveitandi vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis. Hins vegar er lagt til að heimilt verði að semja um að handhafi vinnsluleyfis verði eigandi þess kolvetnis sem hann framleiðir.
    Lögbundin verkefni Orkustofnunar samkvæmt lögum nr. 13/2001 varða fyrst og fremst eftirlit og samskipti við leyfishafa og iðnaðarráðherra eftir veitingu leyfis. Að óbreyttu er því ekki í lögum kveðið sérstaklega á um hvernig haga skuli ýmsum öðrum þáttum stjórnsýslu við kolvetnisstarfsemi. Má þar nefna samskipti við umsækjendur áður en leyfi er veitt, móttöku gagna og leiðbeiningar til umsækjenda. Ráðstöfun þeirra verkefna sem ekki heyra undir Orkustofnun samkvæmt lögum um Orkustofnun geta ráðist af stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar og skipulagsvaldi ráðherra. Þykir ástæða til þess að skilgreina á skýran hátt aðkomu og hlutverk Orkustofnunar samkvæmt lögum þessum. Að sama skapi er verið að gera stjórnsýslu kolvetnismála skýrari og ítarlegri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.
    Í frumvarpinu er lagt til að Orkustofnun verði veitt heimild til leyfisveitingar ásamt því að eftirlitshlutverk stofnunarinnar er skýrt nánar. Að sama skapi sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til iðnaðarráðherra. Kostir þess að víkka hlutverk Orkustofnunar eru ýmsir. Þykir eðlilegt að stofnunin hafi sem fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála leyfisveitingar- og eftirlitshlutverk. Til að tryggja að stofnunin geti rækt eftirlitshlutverk sitt er nánar í frumvarpi þessu kveðið á um heimildir hennar og úrræði sem henni er unnt að grípa til hverju sinni er nauðsyn kallar. Með auknu ábyrgðarhlutverki Orkustofnunar þykir einnig rétt að kveða nánar á um þær skyldur sem hvíla á stofnuninni og í frumvarpinu er til að mynda lagt til ítarlegt þagnarskylduákvæði.
    Óumdeilt er að það skapar hagræði í stjórnsýslunni og þjónar vel hagsmunum umsækjanda og/eða leyfishafa að geta beint öllum sínum erindum til sama stjórnsýsluaðila. Standa því rök til þess að leyfishafar eigi samskipti við sama stjórnvaldið á öllum stigum starfsemi samkvæmt lögum nr. 13/2001. Með vísan til framangreinds og sökum sérfræðiþekkingar Orkustofnunar á sviði orku- og auðlindamála verður að gera ráð fyrir að stofnunin sinni þessum samskiptum gagnvart leyfishafa, fyrir hönd iðnaðarráðherra. Samkvæmt núgildandi lögum ber aðilum að beina erindum sínum til iðnaðarráðherra og undir ákveðnum kringumstæðum til Orkustofnunar. Verði frumvarp þetta samþykkt verður umsækjendum hins vegar gert að beina erindum sínum til sama aðila, þ.e. Orkustofnunar.
    Loks er í frumvarpinu kveðið skýrar á um gjaldstofna, þ.e. styrkari stoðum er skotið undir gjaldtökuheimildir samkvæmt lögum þessum. Þeir gjaldstofnar sem um ræðir eru þrenns konar: Í fyrsta lagi gjald vegna leyfis til leitar að kolvetni, í öðru lagi gjald vegna leyfis til rannsókna og vinnslu kolvetnis og loks í þriðja lagi svokallað svæðisgjald, en það er gjald sem leyfishafi greiðir vegna afnota á tilteknu svæði sem leyfi hans tekur yfir. Leyfisgjöldunum er ætlað að standa undir þeim kostnaði sem íslenska ríkið og Orkustofnun þurfa að leggja út í við útgáfu leyfa, svo sem vegna auglýsingar svæðis, vinnu við mat á umsóknum og öðrum nauðsynlegum þáttum sem leyfisveitingarferlið kallar á.
    Samhliða endurskoðun laga nr. 13/2001 hefur farið fram vinna við drög að leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni. Leyfisdrögin byggjast að miklu leyti á erlendum fyrirmyndum og hefur verið litið til reynslu nágrannaþjóða okkar, svo sem Færeyinga, Norðmanna og Grænlendinga. Ljóst er að þörf er á frekari útfærslu einstakra ákvæði laga nr. 13/2001 og tekur frumvarp þetta mið af þeirri vinnu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að skilgreining laganna á hugtakinu „leit“ taki ekki eingöngu til leitar úr lofti, á láði eða hafsbotni heldur einnig til leitar á legi. Verði á þann hátt tryggt að lögin taki einnig til leitar með mælingarskipum sem að óbreyttu væri bagalegt og kynni að valda misræmi í túlkun laganna í samræmi við leyfi til leitar.

Um 2. gr.


    Í greininni er áréttað að íslenska ríkið er eigandi kolvetnis skv. 1. gr. laganna. Hins vegar þykir rétt að taka allan vafa af um að heimilt er að semja við handhafa vinnsluleyfis um að hann verði eigandi þess kolvetnis sem hann framleiðir. Í athugasemdum við 7. gr. núgildandi laga segir m.a.: „Helstu rökin fyrir því að veita sameiginlegt leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetna eru þau að ólíklegt má telja að olíufyrirtæki leggi í kostnaðarsamar rannsóknir, sem m.a. fela í sér djúpar rannsóknarborholur, nema þeim verði fyrir fram tryggður réttur til þess að framleiða og verða eigendur að því kolvetni sem er framleitt.“ Með því að geta sérstaklega um eignarhald þess kolvetnis sem er framleitt er verið að skerpa á þeim skilningi sem fram kom í frumvarpi því er varð að lögum nr. 13/2001.
    Hins vegar þykir rétt að halda opnum möguleikum á eignarhaldi þess kolvetnis sem unnið er. Hafa verður í huga að fyrirkomulag kolvetnisstarfsemi er í megindráttum þrenns konar: Í fyrsta lagi sérleyfisfyrirkomulag þar sem yfirvöld veita fyrirtæki leyfi til að nýta landsvæði í því augnamiði að leita að, rannsaka eða vinna kolvetni. Þegar þetta fyrirkomulag er viðhaft á fyrirtækið kolvetnið sem er framleitt. Í öðru lagi hlutdeildarfyrirkomulag þar sem kolvetnisauðlindin, sem er eign ríkisins, er hagnýtt undir eftirliti stjórnvalda en í samvinnu við olíufyrirtækin. Stjórnvöld verða eigendur þess kolvetnis sem unnið er, en olíufyrirtækin fá hluta þess í staðinn fyrir að leggja til áhættufjármagn, sérfræðiþekkingu og vinnu. Loks í þriðja lagi er verktökufyrirkomulag þar sem olíufyrirtæki er að öllu leyti verktaki hjá stjórnvöldum. Taki olíufyrirtækið á sig jarðfræðilega eða fjárhagslega áhættu fær það sérstaka þóknun fyrir þá áhættu sem það tekur. Þóknunin er jafnan greidd sem hluti af því kolvetni sem unnið er.
    Hafa verður einnig í huga að ekki er ljóst hver áhugi olíufyrirtækja er á leit, rannsóknum eða vinnslu kolvetnis á íslensku hafsvæði. Því er ekki heppilegt að skjóta loku fyrir með hvaða hætti fyrirkomulag kolvetnisstarfsemi verði til frambúðar.
    Í greininni er einnig lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að fela Orkustofnun leyfisveitingu og ákvarðanatöku samkvæmt gildandi lögum. Er Orkustofnun, sem fagaðila á sviði auðlinda- og orkumála, falið það hlutverk sem áður féll beint undir iðnaðarráðherra og mun sérfræðiþekking Orkustofnunar nýtast við framkvæmd laganna á skilvirkari hátt en ella. Valdaframsal til Orkustofnunar er innan þess ramma sem stofnuninni er markaður skv. 2. mgr. 2. gr. laga um Orkustofnun, nr. 87/2003, þar sem segir að Orkustofnun skuli annast stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Verði frumvarp þetta samþykkt mun Orkustofnun annast alla umsýslu og þjónustu við iðnaðarráðuneytið vegna laganna, þar á meðal er móttaka umsókna, að hafa samskipti við umsækjendur og/eða leyfishafa og undirbúa stjórnvaldsákvarðanir. Í ljósi sérfræðiþekkingar og mannafla Orkustofnunar og aðstæðna að öðru leyti má gera ráð fyrir að stofnunin sé vel í stakk búin til að taka ákvarðanir um veitingu leyfa og aðrar ákvarðanir sem að þeim lúta. Framsal til Orkustofnunar mun því stuðla að auknum málshraða í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Einnig verður stjórnsýsla kolvetnismála einfaldari fyrir umsækjendur og/eða leyfishafa sem sækja og skila öllum upplýsingum til sama stjórnvalds.
    Yfirstjórn samkvæmt lögunum mun eftir sem áður vera í höndum iðnaðarráðherra og stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til iðnaðarráðherra. Um meðferð málsins fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Framsal leyfisveitingarvalds til Orkustofnunar eykur því til muna réttaröryggi umsækjenda og leyfishafa að því leyti að þeir eiga þess þá kost að fá umfjöllun um mál á tveimur stjórnsýslustigum í stað eins.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um breytingar á 7. gr. laganna um rannsóknar- og vinnsluleyfi.
    Í fyrsta lagi er áréttað að Orkustofnun veitir rannsóknar- og vinnsluleyfi á tilteknum svæðum. Öðrum verður ekki veitt rannsóknar- og vinnsluleyfi á því svæði sem leyfishafi hefur þegar einkarétt á meðan leyfistími stendur, hafi leyfi ekki verið afturkallað. Ekki er um efnislega breytingu á gildandi ákvæði að ræða en rétt þykir að kveða á um einkarétt leyfishafa í lögum þessum. Einnig segir í greininni að séu leyfishafar fleiri en einn um hvert leyfi þá beri að leggja fyrir Orkustofnun samstarfssamning aðila til samþykktar um framkvæmd leyfisins auk þess sem allar breytingar á slíkum samningi eða aðrir viðaukar séu háðir samþykki Orkustofnunar. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða fleiri handhafa hvers leyfis en einn aðila er í leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis heimilt að kveða nánar á um réttindi og skyldur leyfishafa.
    Í öðru lagi er í greininni lagt til að þremur nýjum málsgreinum verði bætt við ákvæðið þar sem nánar er kveðið á um réttindi og skyldur leyfishafa samkvæmt rannsóknar- og vinnsluleyfi. Má sem dæmi nefna til að mynda skyldur er varða rannsóknarkvaðir leyfishafa og heimild til að skipta leyfistíma rannsóknarleyfis niður í undirtímabil þar sem nánar yrði kveðið á um réttindi og skyldur leyfishafa.
    Loks er kveðið á um að leyfishafa beri að greiða árlega ákveðna upphæð, þ.e. svæðisgjald, vegna afnota þess svæðis sem honum er úthlutað vegna rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis. Er um að ræða leigugjald fyrir afnot svæðis sem samið er um við leyfishafa og nánar skal kveðið á um í leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni. Svæðisgjald skal miðað við einstaka ferkílómetra sem leyfishafi hefur heimild til rannsókna og vinnslu kolvetnis á og fer því hækkandi eftir því sem svæði er stærra. Getur því verið mismunandi eftir svæðum hvert einstakt gjald er þar sem svæði kunna að vera misstór. Gjaldstofni svæðisgjalda er einnig ætlað að fara hækkandi með hverju ári, en slíkri stighækkandi gjaldtöku er ætlað að stuðla að því að leyfishafi gefi eftir þau svæði sem hann hefur ekki í hyggju að rannsaka sjálfur og yrði þá hægt að úthluta leyfum til rannsókna á þeim svæðum til annarra aðila.

Um 5. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna um málsmeðferð vegna veitingar leyfis til rannsókna og vinnslu á kolvetni.
    Í fyrsta lagi er lagt til að heiti greinarinnar verði breytt úr „Auglýsing“ í „Leyfisveiting“. Ástæða þykir til að breyta heitinu til samræmis við efnislegt innihald greinarinnar.
    Í öðru lagi er lagt til í greininni að við veitingu leyfa skuli tekið tillit til þeirrar auðlindanýtingar sem fyrir er á ákveðnu landsvæði eða óskað hefur verið eftir.
    Í þriðja lagi er lagt til að við veitingu rannsóknarleyfis skuli einkum taka mið af því hvernig framlögð rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði um að ná sem mestum og bestum upplýsingum um stærð og eðli kolvetnisauðlindarinnar á sem hagkvæmastan hátt. Einnig er getið þess að í þeim tilvikum þar sem tvær eða fleiri umsóknir teljast jafnhæfar er Orkustofnun heimilt að meta umsóknir út frá öðrum skilyrðum. Ber Orkustofnun að byggja slíka ákvörðun á málefnalegum rökum og á jafnræðisgrundvelli. Heimild þessi er leidd af d-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 94/22/EB.
    Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á 4. mgr. 8. gr. gildandi laga um veitingu leyfis til rannsókna og vinnslu á kolvetni án auglýsingar. Samkvæmt núgildandi lögum segir að þegar sérstaklega standi á sé iðnaðarráðherra heimilt að veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis án auglýsingar. Í athugasemdum við 4. mgr. 8. gr. kemur fram að skv. 4. mgr. er ráðherra heimilt, þrátt fyrir meginreglu 1. mgr., að veita leyfi án þess að auglýsa það þegar sérstaklega stendur á. Ráðherra er því heimilt að birta tilkynningu um að leyfi verði veitt öllum umsækjendum sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu leyfis án undangenginnar auglýsingar (e. open door policy). Eru þá leyfi veitt eftir því sem þau berast. Þegar svo stendur á þurfa umsækjendur ekki að bíða þess að tilkynnt verði um að leyfi verði veitt. Þetta gæti t.d. verið skynsamlegt þegar um er að ræða svæði þar sem ekki er talið líklegt að kolvetni finnist í vinnanlegu magni. Í þessu sambandi skal þess einnig getið að skv. 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 94/22/EB mega aðildarríki veita leyfi án auglýsingar ef svæðið sem leitað er leyfis fyrir: a) er aðgengilegt til langs tíma; eða b) hefur áður sætt málsmeðferð þar sem auglýst hefur verið en hefur ekki leitt til þess að leyfi hafi verið veitt; eða c) hefur verið gefið eftir af fyrirtæki og fellur ekki sjálfkrafa undir a-lið.
    Framsetning á 4. mgr. 8. gr. í gildandi lögum um heimildir ráðherra til að veita leyfi án undangenginnar auglýsingar uppfyllir ekki að mati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) kröfur um skýrleika ákvæðisins og þykir ástæða til að geta þeirra tilvika sem talin eru upp í greinargerð og vísa til 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 94/22/EB. Taka skal sérstakt tillit til framangreinds þar sem um er að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 8. gr.

Um 6. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 9. gr. laganna varðandi umsóknir um leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni. Markmið greinarinnar er að gera ákvæðið skýrara og kveða nánar á um úrræði Orkustofnunar telji hún umsóknir ekki fullnægja kröfum um skýrleika eða efnislegt innihald.
    Í 1. mgr. er lagt til að í umsóknum um leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni beri að koma skýrt fram hver tilgangur sé með öflun leyfis ásamt ítarlegum upplýsingum um umfang, eðli og tímasetningu fyrirhugaðra framkvæmda eftir nánari ákvörðun Orkustofnunar. Einnig skal koma fram í umsókn með hvaða hætti skilyrðum 8. gr. er fullnægt. Í 16. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er að finna svipaða reglu nema hvað ráðherra fer með sambærilegt vald Orkustofnunar.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um úrræði Orkustofnunar telji stofnunin að umsókn uppfylli ekki þær kröfur sem settar eru fram í 1. mgr.

Um 7. gr.


    Í greininni eru lagðar til einstaka breytingar á 10. gr. laganna um tímalengd og skilyrði leyfis. Í fyrsta lagi er lagt til að í 1. mgr. sé þess sérstaklega getið að við ákvörðun á tímalengd leyfis beri að taka mið af umfangi rannsókna og eðli kolvetnisauðlindar. Er matsatriði hverju sinni til hversu langs tíma Orkustofnun skuli veita leyfi og lagt er til að lögfest verði viðmiðun sem stofnunin skal fara eftir hverju sinni.
    Í öðru lagi er lagt til að að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir rannsóknum eigi leyfishafi forgangsrétt á framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár. Umsókn um framlengingu skal berast Orkustofnun eigi síðar en 90 dögum áður en leyfi fellur úr gildi. Ekki er um ræða breytingu á gildandi lögum þar sem kveðið er á um forgang leyfishafa til vinnslu. Orkustofnun getur krafið leyfishafa um eftirgjöf á ákveðnum hluta svæðis áður en framlenging leyfis er veitt og skal tillaga leyfishafa um eftirgjöf svæðis berast Orkustofnun eigi síðar en 90 dögum fyrir lok gildistíma leyfis. Verði leyfishafi ekki við tilmælum Orkustofnunar um eftirgjöf svæðis er stofnuninni heimilt að ákveða einhliða eftirgjöf svæða. Við slíka ákvörðun ber Orkustofnun að taka tilhlýðilegt tillit til hagsmuna leyfishafa.
    Loks er í þriðja lagi kveðið á um niðurfellingu leyfis vegna aðgerðaleysis leyfishafa að ákveðnum tíma liðnum og afturköllun leyfis til rannsókna og vinnslu á kolvetni sé bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga.

Um 8. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á efnisskipan leyfis til rannsókna og vinnslu á kolvetni. Tilgreind eru þau efnisatriði sem ávallt skal tiltaka í leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni. Upptalningin er ekki tæmandi en tekur mið af helstu atriðum sem ávallt ber að geta um í leyfum. Að öðru leyti verður að meta í hverju tilviki fyrir sig hvað komi fram í einstökum leyfum.

Um 9. gr.


    Í greininni er lagt til að 4. mgr. 22. gr. laganna falli brott. Skv. 4. mgr. 22. gr. er iðnaðarráðherra heimilt að setja nánari reglur um hafstöðvar. Hér má nefna reglur sem settar eru til þess að tryggja öruggt og heilsusamlegt umhverfi við kolvetnisstarfsemi. Þessi heimild ráðherra nær til að setja sérreglur um vinnuaðstöðu á hafstöðvum þar sem gerðar eru strangari kröfur en almennt gilda um vinnuaðstöðu samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma. Ástæða þykir til að fella heimild þessa brott enda er samsvarandi heimild til handa einstaka fagráðherrum. Má nefna sem dæmi hollustulöggjöf er heyrir undir umhverfisráðherra, starfsemi á hafi er heyrir undir samgönguráðuneytið og vinnulöggjöf er heyrir undir félagsmálaráðherra.

Um 10. gr.


    Í greininni er lagt til að ný málsgrein bætist við 24. gr. laganna. Þar segir að Orkustofnun annist eftirlit með því að leyfishafi starfi samkvæmt lögum þessum og öðrum nánar tilteknum heimildum. Einnig er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að kveða nánar á um eftirlit Orkustofnunar í reglugerð.

Um 11. gr.


    Í greininni er lagt til að lögfestar verði heimildir og úrræði Orkustofnunar samkvæmt lögum þessum. Annars vegar er um að ræða heimildir til að annast eftirlitshlutverk sem stofnuninni er falið samkvæmt lögum þessum. Hins vegar ákvæði er varðar þau úrræði sem stofnuninni standa til boða telji hún að starfsemi leyfishafa samræmist ekki skilyrðum laga þessara, reglugerðum settum samkvæmt þeim, skilyrðum leyfis eða öðrum heimildum.
    Fyrra ákvæðið kveður á um eftirlitsheimildir Orkustofnunar. Orkustofnun getur gert sérstakar kannanir að eigin frumkvæði eða vegna kvartana eða ábendinga annarra. Telja verður nauðsynlegt að stofnunin hafi rúmar heimildir til þess að sinna eftirliti sínu með framkvæmd laganna en í gildandi lögum nr. 13/2001 er ekki að finna nægilega rúmar heimildir stofnuninni til handa til að sinna þessu eftirlitshlutverki sínu. Að auki kallar nauðsyn á að lögfesta umræddar heimildir Orkustofnunar enda kunna heimildir stofnunarinnar að vera íþyngjandi gagnvart hagsmunum leyfishafa.
    Orkustofnun fær ríkar rannsóknarheimildir verði frumvarpið að lögum. Við eftirlitshlutverk sitt ber Orkustofnun að beita eins hóflegum aðferðum hverju sinni og kostur er. Hins vegar verður stofnunin að geta gripið til vettvangskannana ef sérstakar aðstæður krefjast þess, svo sem ef ætla má að upplýsingum sé haldið frá stofnuninni.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að Orkustofnun geti krafið leyfishafa um allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru við framkvæmd eftirlitsins. Skulu gögn og upplýsingar berast innan hæfilegs frests sem Orkustofnun setur.
    Í 2. mgr. segir að Orkustofnun geti í eftirlitsstörfum sínum krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.
    Í seinna ákvæðinu er kveðið á um úrræði Orkustofnunar í eftirlitsstarfsemi sinni.

Um 12. gr.


    Í greininni er kveðið á um gagnagrunn Orkustofnunar um kolvetnisauðlindir þar sem varðveitt verða gögn sem stofnunin hefur aflað eða látið afla með leit, rannsóknum og eftirliti, auk skilaskyldra gagna sem stofnuninni berast frá aðilum er vinna að leit, rannsókn eða vinnslu kolvetnisauðlinda. Gert er ráð fyrir að gögn í þessum gagnagrunni verði gerð öllum opin og aðgengileg en einstök gögn kunna þó að verða bundin trúnaði um takmarkaðan tíma.

Um 13. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að þau gögn sem afhent eru Orkustofnun skuli vera undanþegin aðgangi almennings samkvæmt upplýsingalögum á gildistíma rannsóknarleyfis skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Í greininni er hins vegar ekki lagt til að þagnarskyldan gildi á gildistíma leyfis til vinnslu á kolvetni sem veitt er rannsóknarleyfishafa í kjölfar rannsóknarleyfis. Ekki þykir ástæða til að þagnarskylda af þessu tagi gildi eftir að vinnsluleyfi hefur verið veitt enda hefur handhafi leyfisins þá ekki lengur sérstaka hagsmuni af því að upplýsingarnar fari leynt.
    Í 2. mgr. er áréttuð þagnarskylda Orkustofnunar og þeirra sem sinna störfum fyrir stofnunina. Nær þagnarskyldan til þeirra atriða sem framangreindir aðilar verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Í 3. mgr. er kveðið á um vörslu upplýsinga og vinnslu þeirra eftir að þagnarskylda fellur niður.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að lögmælt þagnarskylda íslenskra yfirvalda sé því ekki til fyrirstöðu að þau gefi Eftirlitsstofnun EFTA nauðsynlegar upplýsingar.
    Í 5. mgr. er kveðið á um þau tilvik sem þagnarskyldan tekur ekki til.
    Í 6. mgr. er loks kveðið á um að í leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni sé heimilt að kveða nánar á um þagnarskyldu.

Um 14. gr.


    Í greininni er lagt til breytt kaflaheiti. Þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringa.

Um 15. gr.


    Í greininni er kveðið á um heimild til framsals leyfis og gjaldtöku vegna framsals og skýrir greinin sig sjálf.

Um 16. gr.


    Í greininni er kveðið á um heimild Orkustofnunar til gjaldtöku vegna leyfisveitingar og eftirlits samkvæmt lögum þessum. Leyfisgjöldin eru flokkuð eftir annars vegar leyfi til leitar að kolvetni og hins vegar leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis, til samræmis við 4. og 7. gr. laganna. Leyfisgjöldum er ætlað að standa undir kostnaði af undirbúningi og útgáfu leyfa. Gjaldtaka skal byggjast á skýrum ákvæðum sem samansett eru af fastakostnaði og svo tilfallandi kostnaði við útgáfu einstakra leyfa.
    Einnig er í greininni kveðið á um skyldu leyfishafa til að greiða gjald til að standa straum af kostnaði eftirlits samkvæmt lögum þessum. Eftirlitsgjaldið skal renna beint til Orkustofnunar og vera innheimt af henni. Aðför má gera til fullnustu kröfum um eftirlitsgjald án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar. Gera verður greinarmun á annars vegar leitarleyfi og hins vegar rannsóknar- og vinnsluleyfi þar sem umfang eftirlitsaðila er mun meira vegna þeirra síðarnefndu og þar af leiðandi er eftirlitsgjald vegna leitarleyfa lægra en gjald vegna rannsóknar- og vinnsluleyfa.

Um 17. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.

    Í frumvarpinu eru ítarleg ákvæði um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis þar sem tekið er meðal annars á eignarrétti, stjórnsýslu og öryggisþáttum. Þá eru í frumvarpinu ákvæði þar sem kveðið er nánar á um réttindi og skyldur leyfishafa ásamt einstaka breytingum á stjórnsýsluhluta laganna um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld fyrir árið 2007 verði óveruleg og muni rúmast innan útgjaldaramma iðnaðarráðuneytisins. Samkvæmt áætlun frá iðnaðarráðuneytinu vegna frumvarpsins aukast útgjöld Orkustofnunar um 11 m.kr. á ári, frá og með árinu 2008, vegna ráðningar sérfræðings og viðbótarkostnaðar við hann.