Tekjuskattur

Fimmtudaginn 07. febrúar 2008, kl. 11:51:34 (4477)


135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[11:51]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breyting á lögunum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og nokkrum öðrum lögum. Þetta er angi af skattasamkeppni milli landa sem sumir fagna en aðrir ekki.

Þeir sem eru mjög stjórnlyndir og vilja stýra fólki með einhliða aðgerðum og handafli ofan frá vilja að sjálfsögðu ekki vera ónáðaðir með samkeppni frá útlöndum. En hinir sem horfa til réttar borgarans og einstaklingsins og hvernig hægt er að vernda hann fyrir ofurvaldi ríkisins gleðjast að sjálfsögðu yfir því að einhver von komi utan frá um að ofurvaldi ríkisins í skattheimtu sé veitt samkeppni. Hér er eitt lítið dæmi um það og ég hlýt að gleðjast yfir því.

Sé horft á söluhagnað þá er það dálítið merkilegt fyrirbæri, herra forseti. Þegar fyrirtæki er stofnað er innra virði og hlutafé það sama. Síðan myndast hagnaður og hagnaðurinn eykur vonandi eigið fé og innra virði fyrirtækisins með tímanum en stundum er tap og það er minna talað um það. Af hagnaðinum er borgaður skattur ef hann er greiddur út sem arður. Þetta innra virði fyrirtækisins er eitt hugtak í viðbót, þ.e. það er hlutafé og síðan innra virði sem oft er töluvert hærra en hlutaféð vegna þess að það hefur verið mikill hagnaður. Af hagnaðinum borgar fyrirtækið að sjálfsögðu tekjuskatt til ríkisins. Ef hagnaðurinn er greiddur út er borgaður fjármagnstekjuskattur af arðinum.

En þá kemur að fyrirbæri sem er verðmæti fyrirtækisins. Þá er fólk úti í bæ, fjárfestar og aðrir, sem líta á tekjustrauma framtíðarinnar og sjá að þeir eru dágóðir. Þeir eru hærri en sú ávöxtun sem hægt er að fá á fjármagn á markaði. Þá vilja þeir kaupa hlutaféð hærra verði heldur en sem nemur bæði nafnverði hlutafjár og innra virði. Þennan söluhagnað hefur ríkið skattað. Það er í raun hagnaður fyrirtækisins í framtíðinni. Ríkið er ekki bara að skattleggja tekjur fyrirtækisins sem mynda innra virði heldur er það líka farið að skattleggja hagnað framtíðarinnar, sem eru reyndar verðmæti sem stundum sveiflast upp og niður vegna þess að forsendur um tekjuflæði af rekstrinum breytast og samkeppnisatriðið, sem er ávöxtunarkrafa á markaðnum, breytist líka. Þetta höfum við horft á undanfarið. Ávöxtunarkrafan hefur hækkað á markaði. Eðlileg afleiðing af því er að verðmæti framtíðarinnar minnkar og þá fer að myndast tap af þessum söluhagnaði, ekki söluhagnaður heldur sölutap.

Menn hafa brugðist við þessu á ýmsan hátt, m.a. með því að heimila mönnum að fjárfesta aftur og það eru ýmsar flóknar reglur í gangi. Og í þessu frumvarpi er brugðist við þróun bæði í Hollandi og Noregi þar sem menn hafa hreinlega gert þennan söluhagnað skattfrjálsan, sem er eins og ég gat um að mestu leyti hagnaður framtíðarinnar. Menn geta spurt sig: Hví er ríkið að skattleggja hagnað framtíðarinnar sem er gjörsamlega óviss?

Ég fagna því sérstaklega að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að eitt skattumdæmi sérhæfi sig í þessum málum. Þetta er að verða mjög flókið mál, þ.e. skattheimta og skattskil fyrirtækja sem starfa í mörgum löndum. Það brýnt, eins og ég hef margoft bent á, herra forseti, að skattkerfið og öll eftirlitskerfi séu einföld og skjótvirk. Ég hef t.d. gagnrýnt að Fjármálaeftirlitið skuli ekki hafa brugðist hraðar við sameiningu Kaupþings og hollenska bankans sem fór svo út um þúfur. Það er óþolandi að atvinnulífið, í þessum hraða heimi, þurfi að bíða í hálft ár eftir úrskurði opinberra aðila. Það er óþolandi og bara gengur ekki.

Hið sama á við um skattameðferð. Hún þarf að vera mjög hröð. Þar þurfa að vera sérfræðingar sem geta unnið hratt og vel og sama á við um Samkeppniseftirlitið. Allar þessar eftirlitsstofnanir, þ.e. skatteftirlitið, Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið, þurfa að vinna hratt auk þess að vinna með mjög málefnalegum og faglegum hætti.

Ég fagna því að þetta eftirlit, skatteftirlitið, sé færð á eina hendi í þessu frumvarpi. Ég býst við því að það leiði til faglegri vinnubragða og hraðari vinnslu, bæði varðandi fyrirspurnir og annað. Menn þurfa að temja sér það sem gengur á alþjóðamarkaði, að vika er langur tími og dagur eða klukkutími getur skipt verulegu máli. Menn þurfa að fara að vinna mikið hraðar heldur en í einhverjum árum eða áratugum.