Heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008, kl. 15:09:48 (5233)


135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:09]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég í þessu síðara andsvari vekja athygli á því að í merkilegum ummælum sínum áðan veittist hv. þingmaður mjög sérkennilega að embættismönnum sem sinna starfsskyldum sínum hér í þinginu. Ég hef sem embættismaður komið í Alþingi til þess að veita upplýsingar og verið þá tiltækur bæði alþingismönnum og ráðherrum. Það er hluti starfsskyldna embættismanna. Það er hv. þingmanni sem ber því nú stundum við að mæla fyrir hag opinberra starfsmanna ekki til sérstaks sóma hvernig hann vék hér áðan að embættismönnum sem sinna sínum verkum.

Að því er varðar graut sem hv. þingmaður vildi meina að væri að bubbla í höfðinu á mér þá vil ég útskýra það fyrir hv. þingmanni að ég tel að Íslendingar eigi að vinna að góðum verkum á alþjóðavettvangi með öðrum þeim sem vilja vinna að góðum verkefnum. En það er orðið alveg ljóst af þessari umræðu að hv. þingmaður vill aldrei vinna með þeim ríkjum sem starfa innan Atlantshafsbandalagsins. (Forseti hringir.) Það er afstaða út af fyrir sig. En hv. þingmaður á þá að vera hreinskiptinn með þá afstöðu og (Forseti hringir.) hann á ekki að reyna að skýla sér á bak við það að hann vilji vinna á forsendum Sameinuðu þjóðanna sem þegar ljóst er (Forseti hringir.) að hann vill ekki gera það.