Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

Þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 18:16:49 (6452)


135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:16]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem aðallega felst í því að iðnaðarráðherra óskar eftir heimildum til að framselja leyfisveitingarvald sitt til Orkustofnunar á ýmsum sviðum, þ.e. samkvæmt lögum um rannsókn og nýtingu auðlinda í jörðu og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Það er ekki langt síðan annar ráðherra Samfylkingarinnar, hæstv. umhverfisráðherra, bar fyrir sig tækja- og lagaleysi, til að geta veitt brautargengi og stutt á allan hátt, eins og hún raunar gerði með aðgerðaleysi sínu, álver suður með sjó. Hún bar fyrir sig að hún hefði engin tæki og engin tól til að grípa inn í og stöðva slíka framkvæmd.

Fljótt á litið má ætla að breytingarnar á þessum lögum, þar sem iðnaðarráðherra hreinlega biður um að fá að fela öðrum þessar leyfisveitingar, tengist þeim málum líka að hluta. Mér barst í hendur í dag, eins og flestum öðrum, skýrsla frá fjármálaráðuneytinu um þjóðarbúskapinn, vorskýrsla 2008 sem er nokkurs konar stefnuyfirlýsing fjármálaráðuneytisins, vísbending um það sem ráðuneytið og ráðherra sjá gerast í þjóðlífinu á næstu mánuðum og árum. Þar er mikil áhersla lögð á uppbyggingu og að reisa fleiri álver. Þar er reyndar álver á Bakka, stækkun álversins í Straumsvík, ásamt Helguvík. Það er engu líkara en að ráðherra biðjist undan því að fá að taka um þetta ákvarðanir og vilji fela einhverjum öðrum það, búa til tæki til að komast undan ákvarðanatöku.