Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

Þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 18:25:31 (6456)


135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:25]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er Samfylkingunni rétt lýst. Allt frá því 3. apríl sl. hafa fulltrúar hennar keppst við að kvarta og kveina yfir því að flokkurinn og ráðherrar hennar geti ekkert gert til að hefta stóriðjustefnuna og eyðilegginguna sem hún kallar yfir íslenska náttúru með síaukinni ásókn í rannsóknar- og nýtingarleyfi í jarðvarmanum. Þetta sé bara ekki í höndum flokksins, ríkisstjórnar eða ráðherra, þetta sé allt saman komið eitthvert annað, í hendur orkufyrirtækjanna og sveitarfélaganna. Þessu höfum við auðvitað mótmælt harðlega sem kunnugt er. En við þekkjum tóninn.

Núna, tíu dögum eftir að kvartað var undan því að engin lagaleg tæki væru til að stöðva Helguvík, hvað gerist þá? Þá leggur Samfylkingin fram frumvarp. Um hvað? Jú, um að láta allar leyfisveitingar í rannsóknum og nýtingu á jarðvarma og hafsbotni fara frá iðnaðarráðherra til Orkustofnunar. Sem sagt, stöðvunarvaldinu sem felst í því að hafa leyfisveitinguna á hinni pólitísku hendi er hent fyrir borð. Hér er Samfylkingunni svo sannarlega rétt lýst.

Hér er á ferð gamall uppvakningur sem kemur inn á borð þingmanna í þriðja sinn. Frumvarp um þetta efni, allt vald til Orkustofnunar, kom fyrst inn í þingið 2004 á 131. þingi frá hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur og aftur á 133. þingi, þá í frumvarpsformi frá þáverandi iðnaðarráðherra Jóni Sigurðssyni og byggði, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan réttilega, að hluta til á tillögum auðlindanefndar. Um það snerist reyndar deilan.

Báðir þessir draugar á 131. og 133. þingi voru kveðnir niður, sá síðari á vorþingi 2007, meðal annars fyrir atbeina þáv. hv. þingmanns Össurar Skarphéðinssonar, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra. Það er freistandi, frú forseti, að vitna stuttlega í orð hæstv. ráðherra við það tækifæri þegar hann sagði einfaldlega: Hingað og ekki lengra. (Iðnrh.: Af hvaða tilefni?) Af því tilefni að frumvarp sem þáv. hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson lagði fram og sagði að væri þjóðarsátt í deilunni um stóriðjustefnuna. Hæstv. núverandi ráðherra vildi ekki meina að svo væri, það væri langt í frá. Ég vitna aftur til orða hv. þáverandi þingmanns Össurar Skarphéðinssonar:

„Ef hæstv. ráðherra vill reyna að ná einhverri sátt hefði hann á þessari stundu beitt sér fyrir því að gerður yrði stóriðjufrestur í fimm ár.“

Þetta voru orð hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar. Hann rifjaði upp í einni af nokkrum ræðum sínum um þetta mál í febrúar á sl. ári að Samfylkingin hefði á haustþingi lagt fram tillögur um að gert yrði fimm ára hlé á stóriðjuframkvæmdum, m.a. að menn hættu við þau áform sem þá voru uppi um að reisa álver í Helguvík og stækka álver í Straumsvík. (Gripið fram í: Hver sagði það?) Hæstv. núverandi iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson. Hann sagði líka að það þyrfti enga stóriðju til að halda hagvexti í því horfi að til velsældar leiddi í samfélaginu. Hann sagði einnig að við þær aðstæður sem ríktu í íslensku samfélagi ættu menn að stíga á bremsurnar. Þá ætti að skapa þá sátt sem okkur stjórnmálamönnunum er samfélagsleg skylda að reyna að ná og þess vegna erum við, sagði hæstv. núverandi ráðherra, að reyna að slá skjaldborg um ákveðin náttúruverðmæti.

Það mætti tína fleiri gullkorn til úr þessari ræðu en eins og ég segi var það m.a. fyrir atbeina þáverandi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að þessi draugur sem ég vil kalla var kveðinn niður fyrir rúmu ári síðan og kristallast í fjórum orðum: Allt vald til Orkustofnunar.

Í fyrra skiptið sem þetta var lagt fram á 131. þingi sagði í 7. gr.: „Orkustofnun veitir leyfir til rannsókna á jarðrænum auðlindum“ en áður en til þess kæmi skyldi Orkustofnun gert að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og sjávarútvegsráðuneytisins ef um rannsóknir á hafsbotni væri að ræða. Þetta var á 131. þingi og tók bæði til leyfisveitingar frá Orkustofnun varðandi rannsóknir og nýtingu.

Í síðara skiptið á 133. þingi var greinin þannig: „Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna á auðlindum í jörð og vatnsafli. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar umhverfisráðuneytis.“

Því er ég að rekja þetta hér, frú forseti, að hv. þáverandi iðnaðarráðherrar, bæði Valgerður Sverrisdóttir og Jón Sigurðsson — það má segja þeim það til hróss að þau voru ekkert að fela markmið sitt með þessum frumvörpum 2004 og 2005. Þau settu varnagla af ýmsu tagi inn í frumvörpin, m.a. að leitað skyldi umsagnar í fyrra skiptið frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og sjávarútvegsráðuneyti og í seinna sinnið frá umhverfisráðuneyti. Nú er allt annað uppi á teningnum. Það eru engir fyrirvarar settir. Hér á bara að heimila ráðherra að fela Orkustofnun leyfisveitingu og ákvarðanatöku um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og á hafsbotni. Punktur. Það eru engin skilyrði sett þar. Hér er þetta fram borið, allt vald til Orkustofnunar, undir formerkjunum Einfaldara Ísland . Augnablik, hvað varð um Fagra Ísland þar sem m.a. átti ekki að gefa út fleiri rannsóknarleyfi og flytja leyfisveitingar aftur frá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum í hendur pólitísks stjórnvalds?

Eins og fram kom hjá ráðherranum áðan er markmiðið að hraða afgreiðslu í umhverfismati, að einfalda þetta ferli, að flýta umhverfismatinu, að fara að óskum framkvæmdaraðila sem hafa kvartað sérlega undan því hvað það væri þungt í vöfum og tæki langan tíma allt frá því að lög um umhverfismat voru fyrst sett. Hæstv. ráðherra sagði hérna áðan að þetta væri þægilegra og að það væri hagræði að þessu fyrir umsóknaraðila. Ég efast ekki um að svo sé. En ég endurtek að það eru engir varnaglar settir inn eins og var í fyrri frumvörpunum sem þó hlutu ekki náð fyrir augum Alþingis eins og m.a. að samhliða slíku skuli lögfesta meginreglur umhverfisréttar, að leita skuli umsagnar hjá umhverfisráðuneyti áður en leyfi til rannsókna eða nýting er veitt. Það var tillaga sem kom í frumvarpsformi eftir að auðlindanefnd skilaði af sér tillögum sínum.

Samfylkingin hefur sem sagt verið að kvarta undan því að ekki væru til tæki eða lagastoð hjá hinu pólitíska valdi sem hægt væri að beita í þágu náttúrunnar, þess vegna væri ekki hægt að stoppa Helguvík. Menn hafa á þeim bæ lýst yfir hátt og í hljóði að nú skyldi því breytt og valdið skyldi fært aftur til ráðherra og Alþingis. Hér er þetta allt annað. Hér er einföld tillaga um að koma öllum ákvörðunum um rannsóknar- og nýtingarleyfi frá hinu pólitíska valdi til Orkustofnunar. Með því móti getur Samfylkingin áfram verið ábyrgðarlaus og grátið bága stöðu sína sem stjórnmálaflokks og aðila að ríkisstjórn. Hún getur áfram talað eins og hún sé í minni hluta í meðalstórri bæjarstjórn suður með sjó en ekki flokkur í ríkisstjórn sem stýrir ráðuneytum iðnaðar- og umhverfismála.

Frú forseti. Það verður að viðurkennast að umhverfismatsferlið okkar er ekki nógu sterkt og stundum liggur manni við að segja að það sé ónýtt tæki og gagnist ekki nógu vel hér á landi, ekki eins og gerist í nágrannaríkjunum. Ástæðan er sú að framkvæmdaraðilar, raforkufyrirtækin og sveitarstjórnirnar, virðast hafa bundist samtökum um það að efna til stóriðju hvað svo sem það kostar náttúruna. Þau hafa bundist samtökum um að bíða ekki eftir niðurstöðum í umhverfismati og taka ekki mark á því, bíða alls ekki eftir heildstæðu mati, eins og þó er skylt samkvæmt Evrópurétti, né eftir úrskurði frá ráðherra um slíkt. Nei, í stað þess að taka ekki ákvörðun fyrr en allar upplýsingar um öll möguleg umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda liggja fyrir þá bindast menn samtökum um framkvæmdina og leiða umhverfismatið hjá sér og kvarta undan því að það gangi ansi hægt að komast í gegnum það.

Þegar staðan er þessi er mjög mikilvægt að halda leyfisveitingum hjá ráðuneyti og hjá Alþingi þannig að leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum verði veitt í samræmi við pólitíska stefnumörkun. Þá og aðeins þá er hægt að kalla stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka til ábyrgðar á þeirri stefnu. Þá og aðeins þá geta stjórnmálamenn ekki vikið sér undan ábyrgð og vísað á aðra og sagt að valdið liggi úti í bæ eins og Samfylkingin er nú að gera.

Samfylkingin er með þessu frumvarpi að hlaupast undan ábyrgð sem stjórnmálaflokkur, sem aðili að ríkisstjórn, sem stjórnmálaflokkur sem lagði fram stefnu fyrir kjósendur fyrir aðeins 11 mánuðum síðan, stefnu sem bar hið háleita nafn Fagra Ísland og fól m.a. í sér stóriðjuhlé, stóriðjustopp, þar sem búið væri að gera áætlun um vernd og nýtingu náttúrunnar. Var það ekki? Hvar skyldi sú áætlun vera eftir 11 mánuði Samfylkingarinnar í ríkisstjórn? Ég tel að það sé lágmark að láta þetta frumvarp lönd og leið í þriðja sinn, þennan uppvakning sem kemur hér, allt vald til Orkustofnunar, við tökum enga ábyrgð á leyfisveitingum í rannsóknum eða í nýtingu.

Það er nauðsynlegt, frú forseti, að setja á stóriðjustopp og stoppa alla frekari útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa meðan vinna við rammaáætlun stendur yfir og þar til henni er lokið, þar til ný náttúruverndaráætlun lítur dagsins ljós. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað er Samfylkingin búin að vera að gera í þeim efnum í þessa 11 mánuði? Ég vek athygli á því að aðeins eitt af þeim 14 svæðum sem friða átti samkvæmt núgildandi náttúruverndaráætlun hefur verið friðlýst á þessu tímabili, ekkert hinna 13 hefur verið friðlýst og náttúruverndaráætlunin rennur út á þessu ári. Henni var ætlað að gilda frá 2004 til 2008. Það svæði sem friðað var, Guðlaugstungurnar, var friðlýst í tíð hæstv. þáverandi umhverfisráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur en hún var líka látin fara.

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mig undrar metnaðarleysið sem hér birtist. Hér hafa tveir hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherrar lagt fram ítarlega lagabálka — reyndar hafa þeir verið gerðir afturreka með þá báða — þar sem reiknað er með að Orkustofnun fái það vald sem hér er lagt til að hún fái en þó með mjög stífum skilyrðum. Það er ekkert slíkt að finna í þessu, ekkert annað en þjónkun við umkvartanir framkvæmdaraðila sem vilja flýta sér í gegnum umhverfismat til að halda áfram að byggja og reisa meiri stóriðju og virkja meira. Mér finnst mjög miður að hæstv. iðnaðarráðherra skuli bera þetta mál inn og það undir þeim formerkjum að þetta sé smámál, tvær greinar eða svo og sé allt í samræmi við Einfaldara Ísland sem er eitthvað sem var ákveðið í ríkisstjórn í október á árinu 2006. Ég spyr: Hvar er Fagra Ísland , hvar er ábyrgð iðnaðarráðuneytisins og pólitísk ábyrgð hæstv. iðnaðarráðherra? Hvar er hún þegar hann er búinn að setja allar ákvarðanir og leyfisveitingar út af sínu borði?